Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 347 . mál.


Nd.

601. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Flm.: Málmfríður Sigurðardóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Geir Gunnarsson,


Jón Sæmundur Sigurjónsson, Matthías Bjarnason, Ólafur Þ. Þórðarson,


Stefán Valgeirsson.



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Húsnæðisstofnun skal hafa afgreiðslu á landsbyggðinni, eina eða fleiri í hverju kjördæmi, og ber í því skyni að semja við útibú Byggðastofnunar eða bankastofnanir og sparisjóði á helstu þéttbýlisstöðum um alla almenna afgreiðslu fyrir stofnunina.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Opinber þjónusta er greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og því er réttlætismál að landsmenn allir geti notið hennar jafnt. Einnig er mikilvægt í þessu sambandi að sú þjónusta, sem hið opinbera veitir, sé sem næst fólkinu.
    Flestir verða einhvern tíma á ævinni að eignast þak yfir höfuðið og þurfa því að eiga viðskipti við Húsnæðisstofnun ríkisins í Reykjavík. Flestir, sem kaupa húsnæði, þurfa ráðgjöf og leiðbeiningar. Hins vegar er sú staðreynd augljós að ekki eru allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu sem á þessum samskiptum þurfa að halda. Allt frá því að Húsnæðisstofnun var komið á fót hefur það valdið því fólki, sem býr fjær, ómældu óhagræði og kostnaði hve erfitt er að nálgast upplýsingar, ráðgjöf og þjónustu þá sem stofnuninni er skylt að veita. Þrátt fyrir þetta óhagræði og óánægju manna með núverandi fyrirkomulag hafa engar umtalsverðar tilraunir verið gerðar til að færa þjónustu þessarar stofnunar nær fólkinu.
    Bankastofnanir landsins eiga sín útibú vítt um landið og í mörgum byggðarlögum eru sparisjóðir í eigu heimamanna. Flutningsmenn telja einboðið að bankar og sparisjóðir taki að sér fyrir hönd Húsnæðistofnunar að sinna þeirri nauðsynlegu þjónustu sem stofnuninni ber að láta í té. Byggðastofnun hefur nú þegar sett upp útibú á Akureyri og áformar að fjölga þeim á næstunni. Er einsætt að útibú þeirrar stofnunar veiti a.m.k. ráðgjöf og þjónustu fyrir þá sem erindi eiga við Húsnæðisstofnun. Ætla má að þjónusta Húsnæðisstofnunar við alla landsmenn verði varla framkvæmd á ódýrari og skilvirkari hátt en þann að útibú Byggðastofnunar, bankar og sparisjóðir hafi hana með höndum utan höfuðborgarsvæðisins.