Ferill 354. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 354 . mál.


Nd.

611. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 91/1989, um tekjustofna sveitarfélaga.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.

    Við síðari málsgrein 34. gr. laganna bætist nýr stafliður svohljóðandi:
d.     Starfsemi fjölmiðla, þ.e. sjónvarps- og útvarpsstöðva og dagblaða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu aðstöðugjalda á árinu 1990.

Greinargerð.


    Þetta frumvarp er lagt fram til að freista þess að koma í veg fyrir að fjölmiðlum í þjóðfélaginu sé mismunað í greiðslu aðstöðugjalds til sveitarfélaga. Einn fjölmiðill greiðir gjaldið á meðan annar greiðir það ekki. Það er ójöfn samkeppni og getur aldrei varað til lengdar.
    Ein af æðstu skyldum Alþingis er að mismuna ekki þegnum landsins og sjá til þess að allir hafi sama rétt og beri sömu skyldur, hvort sem þar eiga í hlut einstaklingar eða félög þeirra og fyrirtæki. Alþingi ber að tryggja að allir Íslendingar hafi sömu möguleika til að verða eigin gæfu smiðir og fái að erja sinn reit í friði við guð og menn. Bregðist Alþingi þessari skyldu sinni er brostinn trúnaður við fólkið í landinu.
    Prentfrelsi hefur löngum verið einn helgasti réttur fólksins til að halda hlut sínum fyrir valdhöfum á hverjum tíma. Prentfrelsi er ekkert annað en staðfesting á málfrelsi og þar með tjáningarfrelsi. Alþingi Íslendinga er elsta málstofa frelsis á Íslandi og án málfrelsis verður ekkert Alþingi. Þess vegna hefur þingheimur jafnan borið gæfu til að verja prentfrelsið þegar misvitrir valdsmenn úr kerfinu hafa sótt að því af ýmsum hvötum. Prentfrelsi er málfrelsi og verður því að geta reitt sig á Alþingi. Hvorugt má án hins vera.
    Ný tækni hefur flutt vaxandi hluta af prentfrelsi yfir á öldur ljósvakans og með henni rann upp öld fjölmiðla. Til skamms tíma hafði Ríkisútvarpið einkarétt á útvarpi og sat þannig eitt að prentfrelsinu á ljósvakanum. Nú er sá einkaréttur fallinn niður samkvæmt lögum frá Alþingi og öllum er nú heimilt að útvarpa og sjónvarpa enda standi þeir undir vissum kröfum og fylgi settum reglum þar að lútandi. Alþingi brást því ekki málfrelsinu þegar á reyndi.
    Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er heimild til að leggja aðstöðugjald á fjölmiðla. Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að nota þessa heimild í fyrsta sinn á næsta fjárhagsári og leggja aðstöðugjald á alla fjölmiðla í Reykjavík nema einn. Ríkisútvarpið borgar ekki aðstöðugjald samkvæmt sérstakri undanþágu í lögum. Þrátt fyrir það ætlar borgarstjórn Reykjavíkur að halda fast við áform sín og mismuna þannig gróflega fjölmiðlum í borginni.
    Nú kann fjárhagur Reykjavíkurborgar að vera bágur um þessar mundir en borgarstjórn getur sjálfri sér um kennt. Hún reisti að fyrra bragði ráðhús í Reykjavíkurtjörn og veitingahús á geymum Öskjuhlíðar og réðst í fleiri dýrar framkvæmdir. Þessi minnismerki skila ekki borgarbúum neinum sérstökum fjárhagslegum eða félagslegum ábata nema síður væri. Nú eru bögglarnir, sem fylgdu skammrifinu, að koma upp á yfirborðið og borgarstjórn Reykjavíkur þarf meiri peninga til að ná saman endum. Þeir verða ekki hnýttir saman nema með harðari skattheimtu.
    Og fyrir valinu verða fjölmiðlarnir í höfuðborginni — allir nema einn. Nú þarf ekki að orðlengja það frekar þótt sveitarfélög nýti sér tekjustofna þegar harðnar á dalnum. Skattheimta af þessu tagi leggst þó afar misjafnt á fjölmiðlana og dregur eflaust úr þjónustu sumra þeirra en getur riðið öðrum að fullu. Með því móti kemur slagsíða á málfrelsið. Borgarstjórn Reykjavíkur eykur þarna forskot ríkisreksturs á frjálsan atvinnurekstur í höfuðborginni.
    Kjarni málsins er að allir sitji við sama borð innan sömu atvinnugreinar. Ríkisútvarpið greiðir ekki aðstöðugjald samkvæmt heimild í lögum. Því er besta lausnin að aðrir fjölmiðlar greiði það ekki heldur og málfrelsið sitji áfram í heiðurssæti. Þess vegna er lagt til að lögunum verði breytt á þennan hátt.
    Flutningsmaður treystir því að þingheimur haldi áfram vörð um málfrelsið í störfum sínum.