Ferill 388. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 388 . mál.


Ed.

682. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 43 30. mars 1987, um lögskráningu sjómanna.

Flm.: Guðmundur Ágústsson.



1. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðist svo: Einnig er lögskráningarstjóra skylt að verða við beiðni um lögskráningu á smærri skip.

2. gr.

    Eftirtaldar breytingar verði á 7. gr. laganna:
a.     Upphaf 1. mgr. orðist svo:
    Við fyrstu árlegu lögskráningu í skiprúm skv. 2. tölul. 4. gr. skal, með þeim undantekningum sem gilda um smábáta í öðrum lögum og reglugerðum, sýna lögskráningarstjóra eftirtalin gögn:
b.     2. mgr. orðist svo:
    Ef skilyrðum 1. mgr. er fullnægt ritar lögskráningarstjóri vottorð sitt á gögnin. Ef eitthvert gagna skv. 1.–4. og 6. tölul. vantar, sbr. þó þær undantekningar sem gilda um smábáta skv. 1. mgr., skal eigi lögskrá fyrr en úr því er bætt.

3. gr.


    17. gr. laganna orðist svo:
    Brot gegn lögum þessum varða sektum, enda liggi ekki þyngri refsing við þeim samkvæmt öðrum lögum. Verði skipstjóri eða útgerðarmaður með dómi fundinn sekur um ítrekað brot á lögskráningarskyldu sinni samkvæmt lögum þessum má dæma skipstjóra jafnframt til að hafa fyrirgert skírteini sínu um stundarsakir eða svipta viðkomandi skip útgerðar á sama hátt haffærisskírteini.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Á síðari árum hefur fiskibátum, 12 rúmlestir brúttó og minni, fjölgað mjög í skipastól Íslendinga og aflahlutdeild þeirra vaxið að sama skapi. Hins vegar skortir mjög á að þeir fjölmörgu sjómenn, sem róa á þessum bátum, njóti réttinda eða sinni skyldum til jafns við starfsbræður sína á stærri skipum.
    Þrátt fyrir stórbættan aðbúnað og öryggisbúnað, sem fylgt hefur framþróun og nýsmíði í þessum flokki fiskibáta, hefur félagsleg réttarstaða þeirra sjómanna, sem á þeim róa, dregist aftur úr, m.a. vegna þess að lögskráningarstjórar hafa ekki talið sér skylt að verða við óskum um lögskráningu þeirra.
    Frumvarp þetta er lagt fram til þess að útgerð eða skipstjórar á minni bátum en 12 rúmlestir eignist ótvíræðan rétt til lögskráningar. Þeir sem nýta réttinn til lögskráningar stofna þannig gagnkvæmt aðhald milli útgerðar og sjómanna og gildir þá einu þótt útgerðarmaður og skipstjóri sé einn og sami aðilinn því að skyldur og réttindi, sem lögskráning kemur á, koma honum og hans nánustu engu síður að gagni en öðrum í áhöfn hans.
    Ávinningur þess, að lögskráning fáist á þessa báta, felst í auknu eftirliti, m.a. með því að:
a.    smábátar fari ekki á sjó öðruvísi en með fullgild haffærisskírteini,
b.    betur verði tryggt að allir stjórnendur smábáta verði með tilskilin réttindi,
c.    lögskyldar tryggingar liggi fyrir,
d.    vitneskja um áhafnir verði ætíð í höndum lögskráningarstjóra ef slys ber að höndum,
e.    samningsréttur sjómanna verði betur tryggður,
f.    sjómenn njóti mánaðarlega sjómannafrádráttar við staðgreiðslu skatta.
    Með frumvarpi þessu er séð til þess að verði breytingar á öðrum lögum, svo sem um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, lögum er kveða á um haffærisskírteini og öðrum þeim lögum er varða réttindi og skyldur í útgerð smábáta, raskist ekki fyrirhugaður réttur til lögskráningar áhafna á smábátum.
    Ókostir þessara lögskráninga eru þeir helstir að:
a.    óregluleg mannaskipti eru nokkur á smábátum,
b.    strangt eftirlit með að útgerð og áhafnir uppfylli réttindi og skyldur kann að leiða til þess að réttmæt lögskráning dragist gegn vilja áhafnarinnar,
c.    eftirlitsskyldan vaxi fyrr en varir lögskráningarstjórum yfir höfuð.
    Á móti vega þær staðreyndir að lagt er til að þessar lögskráningar séu einungis heimilar en ekki lögskyldar og því er ljóst að töluverður hluti smábátaflotans mun eftirleiðis sem hingað til vera utan lögskráningar, fyrst og fremst bátar þeirra sem sækja sjóinn í frístundum og sér til skemmtunar á góðviðrisdögum.
    Loks skal á það bent að í núgildandi lögum eru lagðar nokkrar skyldur á útgerðarmenn eða forsvarsmenn útgerða til að annast lögskráningu, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 12. gr., og verður svo áfram þrátt fyrir breytingar á lögunum samkvæmt þessu frumvarpi. Í refsiákvæðum laganna er hins vegar ekki gert ráð fyrir ábyrgð þeirra til að sæta sérstakri refsingu séu þeir sannanlega og ítrekað ábyrgir fyrir vanefndum á skráningarskyldu eins og stefnt er gegn skipstjórum í 2. málsl. 17. gr. frumvarpsins.
    Að óbreyttum lögum um sérstök refsiákvæði er ljóst að vanefndir útgerðarmanns eða forsvarsmanns útgerðar geta áskapað skipstjóra sakarefni. Til samræmingar er því talið rétt að tilgreina sérstök viðurlög, sem þessir aðilar þurfa að beygja sig undir, umfram almenn refsiákvæði sem til álita koma skv. 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna.
    Með breytingum á 17. gr. er lagt til að útgerð gjaldi fyrir ítrekaðar vanefndir með sviptingu haffærisskírteinis skips sem jafngildir kyrrsetningu þess um stundarsakir.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæði greinarinnar eru tekin af öll tvímæli um rétt skipstjóra eða útgerðar minni báta en 12 rúmlestir brúttó að fá lögskráningu.

Um 2. gr.


    Í 7. gr. gildandi laga eru talin upp í sex töluliðum þau atriði sem uppfylla ber til þess að lögskráning fáist. Í ýmsum lögum og reglum eru nú veittar heimildir til frávika frá þessum skilyrðum að hluta til eða að öllu leyti fyrir smábáta og verður því að taka tillit til þess svo að þau hindri ekki að lögskráning á þá nái fram að ganga.
    Með b-lið greinarinnar er áréttað enn frekar að lögskráningarstjóra beri að taka fullt tillit til þeirra frávika sem önnur lög eða reglur veita smábátum gagnvart þeim skilyrðum sem sett eru fyrir lögskráningu.

Um 3. gr.


    Þar sem útgerðarmenn eða forsvarsmenn útgerða bera nokkra ábyrgð á lögskráningu skv. 2. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 12. gr. gildandi laga er talið rétt að auka á ábyrgð þeirra með sérstökum refsiákvæðum til jafns við þau er skipstjórum ber að hlíta. Með þessu er leitast við að bægja frá þeirri hættu að vanefndir þeirra á skyldum sínum til lögskráningar geti áskapað skipstjóra sakarefni og refsiábyrgð.
    Að öðru leyti vísast um efni greinarinnar til almennra athugasemda um frumvarpið í greinargerð þessari.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa við.