Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 413 . mál.


Sþ.

719. Tillaga til þingsályktunar



um ráðningu sjúkraþjálfara í öll fræðsluumdæmi.

Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir,


Guðrún Agnarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Sigríður Lillý Baldursdóttir,


Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að ráðnir verði sjúkraþjálfarar í öllum fræðsluumdæmum landsins.

Greinargerð.


    Grunnskólarnir eru fjölmennustu vinnustaðir landsins og stærsti hópurinn, sem þar er við nám og störf, er börn og unglingar. Á skólaárunum er lagður grunnur að líkamlegri og andlegri velferð barna. Þau eyða mörgum klukkustundum á degi hverjum innan veggja skólans og því er mikilvægt að vel sé búið að þeim á vinnustað.
    Brýnt er að tryggja skólabörnum þá sjálfsögðu þjónustu að fylgst sé með velferð þeirra á viðkvæmum uppvaxtarárum. Í upphafi skólagöngu eru bein barna ekki fullhörðnuð og samhæfing hreyfinga er einnig á viðkvæmu þroskastigi. Við rangt álag geta bein barna bognað og þroski samhæfinga og hreyfanleika líkamans er háður því að örvun sé við hæfi.
    Börn þurfa, ekki síður en fullorðnir, að búa við góða vinnuaðstöðu og viðeigandi ráðgjöf og kennslu til að tryggja eðlilega líkamsbeitingu, samhæfingu og hreyfanleika. Í því skyni er hér lagt til að komið verði á fót stöðu sjúkraþjálfara í öllum fræðsluumdæmum landsins. Þar sem ekki væri kostur á sjúkraþjálfara í fast starf yrði fenginn sjúkraþjálfari af öðru svæði er veitti þá þjónustu, sem hægt væri, í hlutastarfi. Hlutverk sjúkraþjálfara væri fjórþætt:
1.     Að fylgjast með vinnuaðstöðu skólabarna og veita ráðgjöf við innkaup á húsgögnum.
2.     Að leiðbeina kennurum og nemendum um rétta líkamsbeitingu.
3.     Að tengjast heilsugæslu skólabarna, t.d. með því að taka þátt í skólaskoðun ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi eða skoða einstaka hópa skólabarna.
4.     Að eiga samstarf við íþróttakennara vegna barna sem ekki eru í almennri leikfimi.
    Þýðing forvarna og vinnuverndar hefur komið æ betur í ljós á síðari árum. Góðar forvarnir og fræðsla fækka ekki einungis veikindadögum heldur bæta einnig líðan fjölda fólks á vinnustöðum. Einfaldar úrbætur á vinnustað geta þar skipt sköpum. Góð fræðsla um líkamsbeitingu er fjárfesting sem kemur öllum til góða og minnkar líkur á að leita þurfi dýrra úrræða á sjúkrahúsum síðar meir vegna álagssjúkdóma.
    Skólinn er vinnustaður barna og það fordæmi, sem þar er gefið, er veganesti út í lífið. Forvarnastarf í skólum er því ekki einungis mikilvægt til að hlífa börnum á viðkvæmu þroskaskeiði heldur jafnframt sá grunnur sem vinnuvernd framtíðarinnar byggir á.