Ferill 421. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 421 . mál.


Sþ.

733. Tillaga til þingsályktunar



um fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagafrumvarp um fríhafnarsvæði við Keflavíkurflugvöll undir vörugeymslur og fríiðnað. Frumvarpið skal lagt fram á Alþingi við upphaf þings haustið 1990.

Greinargerð.


I.


    Íslenska kaupsýslumenn hefur löngum dreymt um fríhafnarsvæði á Íslandi:
a.    Til að geta flutt vörur á milli annarra viðskiptalanda með viðkomu hér á landi til umskipunar. Þannig yrði mögulegt fyrir íslenska innflytjendur að selja vörur t.d. frá Bandaríkjunum í löndum Evrópu eða öfugt og eiga jafnan birgðir af vörum til á Íslandi. Þessi hugmynd hefur oft verið kölluð vöruhótel og lýsir það nafn starfseminni betur en mörg orð.
b.    Til að framleiða eða fullvinna vörur hér á landi úr hráefni eða hlutum frá einu landi til þess að selja í öðru. Þannig gætu íslenskir iðnrekendur keypt t.d. ýmsan búnað frá Austurlöndum fjær og sett saman á Þýskalandi og selt á markaði í Evrópu eða Bandaríkjunum.
c.    Aðrar fríhafnir. Má þar nefna bæði tollvörugeymslur og vöruafgreiðslur skipa- og flugfélaga. Umskipunarhafnir fyrir vörur erlendra fyrirtækja sem fluttar eru milli landa.
    Í stuttu máli er hugmyndin sú að vörurnar yrðu geymdar eða unnar á Íslandi á sérstöku fríhafnarsvæði og kæmu aldrei inn í íslenska efnahagslögsögu að öðru leyti. Áfangastaður þeirra er í öðrum löndum og því yrðu engin gjöld innheimt af vörunum hér á landi eins og af vörum sem keyptar eru til notkunar og neyslu hér á landi.

II.


    Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkistollstjóra telur embættið að greiða eigi virðisaukaskatt af vörum sem fluttar eru til landsins á þennan hátt og geymdar á vöruhóteli eða unnar í hugsanlegri fríhöfn. Innflytjendur þurfa því að leggja út fyrir skatti þangað til varan selst á áfangastað í öðru landi og það getur tekið marga mánuði. Með því móti er ekki hægt að reka starfsemi sem þessa. Því þarf að breyta lögum um virðisaukaskatt til þess að tryggja að hann leggist ekki á hvers konar fríhafnarstarfsemi og vöruflutning um íslenskar fríhafnir.
    Á sama hátt er nauðsynlegt að geta skilgreint hugtakið fríhafnir í bókhaldi fyrirtækja.

III.


    Fríhafnir á Íslandi eru ekki hugsaðar sem opinber rekstur á neinn hátt. Einstaklingum og félögum þeirra og fyrirtækjum verði gert kleift að eiga þær og reka eftir högum hvers og eins. Hlutverk ríkisins er því aðeins að heimila þennan rekstur með lögum og greina hann frá öðrum rekstri í landinu sem ekki nýtur fríhafnarkjara.
    Þannig gætu t.d. starfandi heildsölur nýtt sér viðskiptasambönd sín um allan heim og fengið umboð fyrir vörutegundir til að selja líka í öðrum löndum. Heildsölurnar fengju þá úthlutað, keypt eða leigt rými á vöruhóteli eftir efnum og ástæðum til að geyma vörubirgðir frá einu landi til að selja eftir hendinni í öðru. Sama gildir vitanlega um ný fyrirtæki sem yrðu stofnuð í þessum tilgangi.
    Eins gætu starfandi iðnfyrirtæki eða ný fengið inni á fríiðnaðarsvæði og framleitt úr hráefni frá einu landi til að selja í öðru.
    Flutningsmaður telur mestan ávinning af fríhöfn vera fólginn í nýjum vinnustöðum fyrir íslenskt fólk á erfiðum tímum gjaldþrota og atvinnuleysis í iðnaði, verslun og þjónustu. Íslenskur inn- og útflutningur mundi eflast, svo og ýmsar þjónustugreinar, t.d. bankar, umboðsverslun og ferðaþjónusta. Síðast en ekki síst gæti fríiðnaður eflt iðnaðinn verulega og byggt upp nýjan samsetningariðnað. Iðnaður á nú víða undir högg að sækja út af innflutningi á iðnvarningi.
    Stutt er nú þangað til væntanlegur Evrópumarkaður verður starfræktur og með honum gjörbreytast öll viðskipti og þjónusta um alla álfuna, hvort sem Íslendingum líkar það betur eða verr. Fríhafnir á Íslandi munu styrkja mjög
stöðu þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi við þær breytingar. Fríhafnir eru hluti af framtíðarviðskiptaháttum.

IV.


    Ísland liggur mjög vel við alþjóðlegri flugumferð í miðju Atlantshafi og miðja vegu á milli Ameríku og Evrópu. Landið ætti ekki síður að geta þjónað flugsamgöngum frá fjarlægari löndum t.d. arabaríkjunum og Japan. Þess vegna er Ísland kjörinn vettvangur fyrir rekstur á fríhöfn með vöruflutninga og iðnað.
    Flutningsmaður getur hugsað sér marga staði á Íslandi þar sem fríhöfn kemur til greina, bæði tengd samgöngum á sjó og í lofti og nálægt helstu athafnasvæðum landsins. Með hliðsjón af hinni öru þróun í flutningum hlýtur nálægðin við myndarlega flughöfn að vega þungt í þessu sambandi. Á engan stað er því hallað þó að Keflavíkurflugvöllur sé nefndur fyrst.

V.


    Keflavíkurflugvöllur er að mörgu leyti besti staður á Íslandi fyrir starfsemi af þessu tagi. Hann er við túnfótinn á mesta athafnasvæði landsins, höfuðborgarsvæðinu. Flugvöllurinn er miðstöð flutninga í lofti til og frá landinu og þjónusta er þar öll með besta móti. Þar er líka nóg landsvæði og auðvelt að skilja rekstur fríhafnar frá annarri starfsemi. Ekki yrði um mikinn flutningskostnað að ræða innan lands þar sem fríhöfnin yrði á sjálfu flugvallarsvæðinu. Það er kjarni málsins.
    Flugmálastjórnin á Keflavíkurflugvelli hefur látið skipuleggja stórt svæði við nýju flugstöðina undir margvíslega þjónustu við flugumferð. Þar er nýtt flughlað fyrir stórþotur og ný þjónustubygging Flugleiða með fullkomnu flugeldhúsi. Einnig birgðastöðvar fyrir íslensku olíufélögin undir flugvélaeldsneyti og margháttuð önnur þjónusta. Þannig er Keflavíkurflugvöllur stöðugt að bæta aðstöðuna fyrir alþjóðlega flugumferð.
    Síðast en ekki síst hefur verið skipulagt þar stórt landsvæði undir vöruskemmur fast við flugbrautir vallarins. Svæðið er tilbúið undir byggingar og stutt í öll lagna- og veitukerfi, sjá fskj. I.
    Því er ekkert að vanbúnaði að úthluta íslenskum kaupsýslumönnum lóðum undir vöruhótel og fríiðnað á þessu nýja fríhafnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Enda hníga öll rök að því að fríhöfn rísi fyrst á þessum stað hér á landi.

VI.


    Vöruflutningar í lofti eru vaxandi til og frá landinu og um það. Í tonnum talið hafa flutningarnir aldrei verið meiri en árið 1989 eða samtals 25.173 tonn um Keflavíkurflugvöll, sjá fskj. II.
    Þá lenda íslenskar áætlunarvélar reglulega á Keflavíkurflugvelli og fjöldi erlendra flugvéla hefur þar viðkomu. Samtals lentu flugvélar 5.908 sinnum þar árið 1989, sjá fskj. III. Flugsamgöngur við önnur lönd eru því mjög góðar um flugvöllinn, en þær eru ein helsta forsendan fyrir góðum rekstri á væntanlegu fríhafnarsvæði.
    Lendingargjöld eru ekki talin há á Keflavíkurflugvelli í samanburði við sambærilega flugvelli í nágrannalöndum okkar. Öll afgreiðslugjöld verða einnig að vera í algjöru lágmarki. Það gerir væntanlegt fríhafnarsvæði á flugvellinum vel hæft til að keppa við önnur slík svæði í næstu löndum, sjá fskj. IV. Með vaxandi flugumferð í kjölfar væntanlegs fríhafnarsvæðis má líka gera ráð fyrir að lendingargjöld lækki enn þá meira.

VII.


    Flutningsmaður telur því að öll almenn skilyrði séu fyrir hendi til að þróa umfangsmikil fríhafnarviðskipti hér á landi næstu árin. Aðstæður á Keflavíkurflugvelli eru ákjósanlegar eins og að framan greinir og íslensk kaupsýslustétt er vel búin til að leysa þetta verkefni vel af hendi.
    Alþingi má því ekki láta sinn hlut eftir liggja til að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd.



Fylgiskjal I.


Texti er ekki til tölvutækur.





Fylgiskjal II.


Flutningar um Keflavíkurflugvöll 1959–1988.



Texti er ekki til tölvutækur.





Fylgiskjal III.


Komur farþega- og fraktvéla á Keflavíkurflugvöll 1989.



Texti er ekki til tölvutækur.





Fylgiskjal IV.


Samanburður á lendingargjöldum.


(Í bandarískum dölum.)



Texti er ekki til tölvutækur.