Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 438 . mál.


Nd.

759. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 29/1975, um launasjóð rithöfunda.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.

    4. gr. laganna orðist svo:
    Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd laga þessara, að höfðu samráði við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra rithöfunda, þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum.
    Alþingi kýs árlega sjö menn í stjórn launasjóðs rithöfunda með óhlutbundinni kosningu til eins árs í senn.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt skal ráðherra þegar eftir birtingu laganna gefa út nýja reglugerð um launasjóð rithöfunda.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta til laga er lagt fram til að allir rithöfundar á Íslandi sitji við sama borð.
    Með lögum nr. 29/1975, um launasjóð rithöfunda, og reglugerð frá 9. júlí 1976 á að tryggja öllum íslenskum rithöfundum aðgang að launasjóði rithöfunda.
    4. gr. laga um launasjóð rithöfunda hljóðar svo:
    „Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um framkvæmd laga þessara, að höfðu samráði við félagssamtök rithöfunda, þar sem m.a. skal kveðið á um stjórn sjóðsins, vörslu hans og greiðslur úr honum.“
    Hér er skýrt tekið fram að haft skuli samráð við félagssamtök rithöfunda, en þau voru þá ein starfandi í landinu og hétu Rithöfundasamband Íslands. Síðan hafa íslenskir rithöfundar endurvakið gamalt félag um hagsmuni sína og heitir það Félags íslenskra rithöfunda. Það starfar við hlið Rithöfundasambands Íslands.
    Þann 9. júní 1976 setti Vilhjálmur Hjálmarsson, þáverandi menntamálaráðherra, reglugerð um launasjóð rithöfunda í samræmi við ákvæði laganna.
    1. gr. reglugerðarinnar hljóðar svo:
    „Menntamálaráðherra skipar í stjórn launasjóðs rithöfunda til þriggja ára senn þrjá menn utan Rithöfundasambands Íslands, tilnefnda af stjórn þess. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Engan má tilnefna í stjórn tvívegis í röð né oftar en tvisvar samanlagt.
    Sjóðsstjórn skal annast úthlutun úr launasjóði rithöfunda og skal hafa lokið störfum 1. mars ár hvert.
    Menntamálaráðherra ákveður þóknun hennar.“
    Hér er Rithöfundasamband Íslands nefnt til sögunnar sem einu starfandi félagssamtök rithöfunda á landinu á þeim tíma. En síðan hefur Félag íslenskra rithöfunda verið endurvakið, eins og áður segir, og því eru nú starfandi tvenn félagssamtök rithöfunda á Íslandi.
    Andinn á bak við lögin og reglugerðina er vitaskuld sá að haft skuli samráð við öll starfandi samtök rithöfunda á hverjum tíma og að stjórnir þeirra hafi jafnan rétt til að tilnefna menn í stjórn launasjóðs rithöfunda. Þá voru aðeins ein starfandi félagssamtök en nú eru þau tvenn. Félag íslenskra rithöfunda tilnefnir ekki fulltrúa í stjórn launasjóðsins til jafns við Rithöfundasambandið og það hefur því miður haft tortryggni og óánægju í för með sér í röðum íslenskra rithöfunda. Þetta þarf að leiðrétta. Þess vegna telur flutningsmaður eðlilegt að koma þessum málum rithöfunda öðruvísi fyrir:
1.     Samin verði ný reglugerð fyrir launasjóð rithöfunda í samráði við samtök starfandi rithöfunda á Íslandi, Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra rithöfunda. Þess verði sérstaklega gætt að allir íslenskir rithöfundar sitji við sama borð hvort sem þeir eru í samtökum rithöfunda eða kjósa að vera ófélagsbundnir.
2.     Alþingi kjósi í framtíðinni sjö fulltrúa í stjórn launasjóðs rithöfunda óhlutbundinni kosningu til eins árs í senn. Þar með er eytt þeirri óánægju og tortryggni sem grafið hefur um sig vegna aðildar einna samtaka umfram önnur að sjóðsstjórninni. Þess vegna er þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 29 frá 29. maí 1975, um launasjóð rithöfunda, lagt fram í samfloti við frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 50 frá 25. maí 1976, um almenningsbókasöfn.