Ferill 471. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 471 . mál.


Sþ.

824. Tillaga til þingsályktunar



um viðurkenningu Íslands á fullveldi og ríkisstjórn Litáens.

Flm.: Þorsteinn Pálsson, Ragnhildur Helgadóttir, Guðmundur H. Garðarsson,


Ingi Björn Albertsson, Matthías Bjarnason, Matthías Á. Mathiesen,


Halldór Blöndal, Birgir Ísl. Gunnarsson, Geir H. Haarde.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna þegar í stað sjálfstæði og fullveldi Litáens, að viðurkenna ríkisstjórnina þar sem rétta og lögmæta ríkisstjórn Litáens og taka upp stjórnmálasamband við Litáen. Þá felur Alþingi ríkisstjórninni að hvetja til þess að önnur norræn ríki sýni með sama hætti eindreginn stuðning við Litáen.

Greinargerð.


    Hinn 11. mars sl. lýsti lýðræðislega kjörið þing Litáens yfir sjálfstæði landsins. Litáen varð upphaflega sjálfstætt ríki árið 1918, sama ár og Íslendingar fengu fullveldi, en var með valdbeitingu innlimað í Sovétríkin í júní 1940 í kjölfar griðasáttmála Hitlers og Stalíns árið áður.
    Í hálfa öld hefur Litáen verið á grundvelli valdbeitingar eitt sovétlýðveldanna. Sovétstjórnin viðurkennir ekki enn sjálfstæði Litáens og hefur að undanförnu haft í frammi aðgerðir, m.a. með hernaðarógnun, til að þröngva Litáen til að afturkalla sjálfstæðisyfirlýsingu sína.
    Ætla verður að á Íslandi ríki almennur skilningur á sjálfstæðiskröfu Litáa sem eiga merka sögu, eigin tungu og þjóðmenningu. Alþingi hefur þegar að frumkvæði utanríkismálanefndar sent Litáen heillaóskir með sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra.
    Af hálfu utanríkisráðherra hefur því sjónarmiði verið haldið fram að Íslendingar þurfi ekki að viðurkenna sjálfstæði Litáens formlega þar sem viðurkenning Dana á sjálfstæði ríkisins frá 1921, er þeir fóru með utanríkismál Íslands, sé enn í gildi. Þessi rök geta ekki talist fullnægjandi
þegar annars vegar er haft í huga að Litáen hefur verið ófrjálst ríki í hálfa öld og hins vegar að Ísland fékk ekki forræði utanríkismála sinna fyrr en 1944, eftir að Litáen hafði verið innlimað í Sovétríkin. Öll rök hníga þess vegna að því að árétta beri formlega viðurkenningu Íslands á sjálfstæði Litáens og stuðning við ríkisstjórn landsins.