Ferill 474. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 474 . mál.


Sþ.

827. Tillaga til þingsályktunar



um framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



    Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins að leita þegar í stað eftir samvinnu við borgaryfirvöld í Reykjavík og samtök fólks í miðborginni um að gera þróunaráætlun um framtíð gamla miðbæjarins í Reykjavík.

Greinargerð.


    Reykjavík er heimaslóð Alþingis. Borgin er því bæði höfuðborg landsins og allra landsmanna. Það er því mál allra landamanna hvernig borgin okkar þrífst og dafnar. Mál alþingismanna.
    Gamli miðbærinn er hjarta höfuðborgarinnar. Hann er í túnfætinum á sjálfu bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Þar eru auk Alþingishússins Dómkirkjan og Hæstiréttur ásamt Þjóðleikhúsinu. Margar helstu stofnanir landsins eru þar einnig til húsa og líka mörg fyrirtæki ríkisins. Íslenska ríkið er langumsvifamesti húseigandinn í gamla miðbæ Reykjavíkur og því er Alþingi bæði rétt og skylt að láta málefni miðbæjarins til sín taka.
    Gamli miðbærinn í Reykjavík er ekki bara miðborg athafna og opinberrar þjónustu hjá ríkinu. Hann er líka söguleg byggð með fjölmargar minjar um horfið mannlíf. Þar eru bæjarstæði Ingólfs Arnarsonar og innréttingar Skúla Magnússonar. Þar eru frægar byggingar úr Íslandssögunni, svo sem Stjórnarráðið, Menntaskólinn, Hegningarhúsið og sjálft Alþingishúsið. Þar eru mun fleiri þjóðminjar en á nokkrum öðrum stað á landinu.
    Að undanförnu hefur hallað undan fæti í gamla miðbænum og heilbrigt athafnalíf á nú þar í vök að verjast. Blómlegt og iðandi mannlíf er á undanhaldi og breyttir verslunarhættir hafa kallað fólkið á aðra staði í borgarlandinu.
    Hvert fyrirtækið á fætur öðru hefur flutt sig um set í önnur borgarhverfi eða til næstu sveitarfélaga. Og því miður hafa margir athafnamenn lokað dyrum fyrirtækja sinna á miðborgarsvæðinu í hinsta sinn. Hvítt kalk málað í glugga sölubúða.
    Þessi þróun hefur alvarleg áhrif á allar eignir í miðborginni. Húseigendum gengur æ verr að leigja fasteignir sínar og þær lækka í verði þó að skattar séu áfram háir. Ríkið er stærsti húseigandinn í gamla miðbænum og því er það tvímælalaust vandamál fyrir Alþingi ef fasteignir ríkissjóðs lækka í verði. Alþingi ber ábyrgð á eignum ríkisins.
    Þannig hafa málin þróast í gamla miðbænum síðustu árin og ekki hefur verið tekið skipulega á til að snúa vörn í sókn. Þess vegna telur flutningsmaður að ekki megi lengur við svo búið una og leggur því til að Alþingi hafi forgöngu um að kalla saman aðila miðborgarinnar til nýrrar sóknar fyrir hjarta höfuðborgarinnar og hjarta landsins.
    Ríkissjóður og borgarstjórn í Reykjavík eru stærstu aðilar málsins auk samtaka fólksins á svæðinu þ.e. GM-samtökin, gamli miðbærinn. Þess vegna þurfa þessir aðilar að koma saman ásamt öðrum sem málið kann að varða og ræða framtíð miðborgarinnar og hvernig megi þróa þar eðlilegt mannlíf og athafnalíf í bland við opinberan rekstur og þjónustu. Miðbær höfuðborgarinnar haldi áfram þeirri reisn sem henni ber og allir landsmenn geta verið stoltir af.
    Ríkisstjórnin hafi fyrir hönd Alþingis frumkvæði að því að hrinda þessari áætlun í framkvæmd þegar í stað.