Ferill 484. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 484 . mál.


Ed.

842. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 41/1975, um félagsráðgjöf.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Leyfi skv. 1. gr. skal veita umsækjanda sem lokið hefur prófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
    Veita má umsækjanda, sem lokið hefur sambærilegu prófi og um getur í 1. mgr., leyfi til að kalla sig félagsráðgjafa og stunda félagsráðgjöf hér á landi. Leita skal umsagnar Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands áður en leyfi samkvæmt þessari málsgrein er veitt. Félagsvísindadeild Háskóla Íslands getur sett sem skilyrði að viðkomandi sanni kunnáttu í íslenskum lögum og reglum er varða störf félagsráðgjafa hér á landi og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. kemur ný grein, sem verður 4. gr., og orðast svo:
    Félagsráðgjafi má kalla sig sérfræðing í sérgrein innan félagsráðgjafar hafi hann fengið til þess leyfi heilbrigðisráðherra.
    Heilbrigðisráðherra setur með reglugerð, að fengnum tillögum Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, nánari ákvæði um skilyrði fyrir veitingu leyfis til að kalla sig sérfræðing í einhverri af sérgreinum félagsráðgjafar.

3. gr.

    4. gr. laganna verður 5. gr. og 5. gr. laganna verður 6. gr.
    Á eftir 6. gr. (var 5. gr. laganna) komi ný grein, 7. gr., sem orðast svo:
    Félagsráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða félagsráðgjöf.
    Félagsráðgjafar bera ábyrgð á þeirri félagsráðgjöf sem þeir veita.

4. gr.

    Í 6. gr. laganna, sem verður 8. gr., breytist tilvísun í læknalög þannig að hún verði læknalög, nr. 53/1988.

5. gr.

    7. gr. laganna verður 9. gr. og 8. gr. laganna verður 10. gr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella þau inn í meginmál laga nr. 41/1975 og gefa lögin út svo breytt.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Við undirritun kjarasamninga 14. apríl 1987 var gerð svofelld bókun:
    „Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið mun fyrir 1. október 1987 í samvinnu við SÍF vinna að gerð frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 41/1975, um félagsráðgjöf, er lýsi starfssviði félagsráðgjafa.
    Enn fremur mun ráðuneytið láta athuga möguleika á veitingu sérfræðileyfa innan félagsráðgjafar. Skal því lokið á samningstímanum.“
    Frumvarp það, sem hér liggur frammi, er unnið af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samvinnu við Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa í samræmi við ofangreinda yfirlýsingu í bókun með kjarasamningi frá 14. apríl 1987.
    Í sömu kjarasamningum var gerð sambærileg bókun í kjarasamningi sálfræðinga. Með lögum nr. 68/1988 var gerð sú breyting á lögum nr. 40/1976, um sálfræðinga, að heimilað var að þeir gætu orðið sérfræðingar í sérgreinum innan sálarfræði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er fjallað um veitingu starfsleyfis og er ákvæðið hliðstætt 2. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að tekið er tillit til breytinga sem orðið hafa á menntun félagsráðgjafa. Skilyrði leyfisveitingar er próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands.
    Þá er gert ráð fyrir því að hafi umsækjandi lokið sambærilegu prófi frá erlendum háskóla geti hann engu að síður fengið leyfi til að kalla sig
félagsráðgjafa og starfa sem slíkur hér á landi. Í þessum tilvikum skal bæði leita umsagnar stéttarfélagsins svo og félagsvísindadeildar Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir því að Félagsvísindadeild Háskóla Íslands geti sett það skilyrði fyrir leyfisveitingu að viðkomandi sanni kunnáttu í íslenskum lögum og reglum er varða störf félagsráðgjafa og sanni kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli. Sambærilegar kröfur eru gerðar hjá mörgum öðrum heilbrigðisstéttum.

Um 2. gr.


    Hin síðari ár hefur það færst í vöxt að félagsráðgjafar afli sér viðbótarmenntunar sem nýtist í starfi þeirra. Hér er bæði um að ræða viðbótarnám til meistaraprófs og doktorsprófs í félagsráðgjöf. Þá hafa félagsráðgjafar aflað sér viðbótarmenntunar á tilteknu sérsviði með því að sækja námskeið á vegum háskóla eða viðurkenndra sérfræðinga á viðkomandi sérsviði og starfa samfleytt á viðkomandi sviði í langan tíma. Dæmi eru um starf á sérsviði í fimm til sjö ár.
    Samkvæmt ákvæðinu verður unnt að veita sérfræðileyfi innan félagsráðgjafar að fenginni framhaldsmenntun. Að öðru leyti verða nánari skilyrði leyfisveitingar sett með reglugerð. Þar skal koma fram lengd framhaldsnáms eftir grunnnám og með hvaða hætti starfsnáms á viðurkenndri stofnun skuli vera.
    Hér er tekið tillit til bókunar þeirrar, sem áður var nefnd, þar sem minnst er á veitingu sérfræðileyfa innan félagsráðgjafar. Jafnframt er höfð hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á sérfræðinámi innan félagsráðgjafar.
    Samkvæmt ákvæðinu verður unnt að veita sérfræðileyfi innan félagsráðgjafar að fenginni framhaldsmenntun. Að öðru leyti verða nánari skilyrði leyfisveitingar sett með reglugerð. Þar skal koma fram lengd framhaldsnáms eftir grunnnám og með hvaða hætti starfsnáms á viðurkenndri stofnun skuli vera.

Um 3.–6. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.