Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 487 . mál.


Nd.

846. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 91/1989, með síðari breytingum.

Flm.: Hreggviður Jónsson, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.

    Við 3. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 7/1990, bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Sveitarstjórnum ber að tilgreina á álagningarseðli hlutfall annarra gjalda sem greidd eru af fasteign í sveitarsjóð samhliða fasteignaskatti. Enn fremur skal koma fram á seðlinum heildarhlutfall samanlagðra fasteignagjalda. Félagsmálaráðuneytið skal láta gera staðlaðan fasteignagjaldaseðil sem allar sveitarstjórnir skulu nota.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu fasteignagjalda á árinu 1991.

Greinargerð.


    Fasteignagjöld eru orðin verulegur útgjaldaliður heimila um allt land. Hins vegar eru fasteignagjaldaseðlar, sem fólk fær í hendur, mjög mismunandi að gerð og oft erfitt að átta sig á hvað gjöldin á þeim þýða í raun. Oft er skýrt tekið fram hvert er hlutfall álagðs fasteignaskatts miðað við fasteignamat til álagningar en ekki nærri alltaf. Aldrei er tekið fram hlutfall annarra álagðra gjalda, svo sem lóðarleigu, vatnsskatts, holræsagjalds, sorphreinsunargjalds og tunnuleigu. Í raun þýðir þetta að heildarálagning er afar mismunandi eftir sveitarfélögum án þess að fólki sé gert kleift að lesa það með einföldum hætti á fasteignagjaldaseðli sínum og hafi þannig tækifæri til að bera saman heildarfasteignagjöld í einstökum sveitarfélögum. Dæmi um þetta eru þrjú bæjarfélög sem öll eru á sama svæði, sveitarfélag A, B og C.
    Í sveitarfélagi A er hlutfall fasteignaskatts 0,375%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,55%. Í sveitarfélagi B er hlutfall fasteignaskattsins 0,421%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,60%. Í sveitarfélagi C er hlutfall fasteignaskattsins 0,50%, en séu öll fasteignagjöldin reiknuð er heildarhlutfallið 0,82%. Þetta þýðir að íbúar, sem eiga sambærileg hús í þessum bæjarfélögum, greiða mjög mismunandi upphæðir í fasteignagjöld. Gróft reiknað greiðir t.d. íbúi í sveitarfélagi A 100.000 kr., íbúi í sveitarfélagi B 107.000 kr. og íbúi í sveitarfélagi C 150.000 kr., allir af sambærilegri eign. Með öðrum orðum eru fasteignagjöldin 50% hærri hjá íbúanum í sveitarfélagi C en hjá íbúanum í sveitarfélagi A. Þetta hafa íbúar þessara sveitarfélaga ekki tök á að vita þar sem þeir þurfa að vera mjög vel að sér í útreikningum og reglum um álagningu fasteignagjalda til að þeir geti áttað sig á þessu.
    Það ætti að vera grundvallarregla í nútímaþjóðfélagi að fólkið í landinu geti treyst því að það geti á einfaldan hátt áttað sig á hver er munurinn á fasteignagjöldum einstakra sveitarfélaga en slíkt sé ekki falið í flóknum talnarunum á fasteignagjaldaseðlunum eins og nú er raunin.