Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 494 . mál.


Nd.

859. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Friðrik Sophusson, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.

    5. málsl. 1. mgr. 64. gr. laganna orðast svo: Á sama hátt er eftirlifandi maka heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka á andlátsári hans í samræmi við ákvæði 63. gr. og skal eftirlifandi maka að auki heimill persónuafsláttur að sömu fjárhæð og ef maka hefði notið við til lækkunar á tekjuskatti í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna tekna á árinu 1990 og eigna í lok þessa árs.

Greinargerð.


    Með þessu frumvarpi er lagt til að gerð verði breyting á 64. gr. tekjuskattslaga. Í þeirri grein er kveðið á um færslu persónuafsláttar á milli hjóna og milli sambúðarfólks. Samkvæmt núgildandi lögum getur eftirlifandi maki nýtt sér persónuafslátt hins látna á því almanaksári sem andlát makans bar að. Eftirlifandi karl eða kona getur því nýtt sér samkvæmt þessari heimild persónuafslátt látins maka síns í einn til tólf mánuði eftir því hvenær árs maki lést. Rétt er að vekja á því athygli að þetta fyrirkomulag er ekki nýtt. Á árinu 1978 voru gerðar breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þannig að eftirlifandi maki gæti nýtt persónuafslátt fráfallins maka á andlátsári hans. Persónuafsláttur hækkaði hins vegar mjög mikið við upptöku staðgreiðslu á árinu 1988 og þar með hefur orðið meira áberandi sú mismunun sem felst í þessum reglum. Þó að þessar reglur virðist mjög ósanngjarnar ber að hafa í huga að skv. 66. gr. laganna getur skattstjóri lækkað tekjuskattsstofn ef mannslát hefur haft í för með sér röskun á stöðu og högum eftirlifandi maka og er þá tekið tillit til allra þátta, þar á meðal hvernig persónuafsláttur fráfallins maka nýtist þeim eftirlifandi.
    Í þessu frumvarpi er lagt til að þessum reglum verði breytt þannig að allir njóti sama réttar, óháð því hvenær maki fellur frá. Hér er lagt til að eftirlifandi maka skuli heimill persónuafsláttur að sömu fjárhæð og ef maka hefði notið við til lækkunar á tekjuskatti í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá. Erfitt er að áætla tekjumissi ríkissjóðs verði frumvarpið samþykkt vegna heimilda skattstjóra í 1. tölul. 66. gr. Hámarkstekjutap ríkissjóðs gæti orðið 50 millj. kr. á ári á verðlagi ársins 1990.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.



Um 1. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lögð til sú breyting að allir, sem missa maka sinn, njóti sama réttar til að nýta persónuafslátt þess maka er féll frá. Hér er lagt til að þessi réttur vari í fulla níu mánuði frá og með þeim mánuði er maki féll frá. Nú er það háð því hvenær andlát ber að innan ársins hve mikinn persónuafslátt eftirlifandi maki getur nýtt sér.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.