Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 519 . mál.


Nd.

905. Frumvarp til laga



um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Stofna skal sjóð er nefnist Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins er að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn.

2. gr.

    Sjávarútvegsráðherra skipar sjóðnum fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Sjávarútvegsráðherra skipar jafnframt formann sjóðstjórnar úr hópi þessara fimm stjórnarmanna. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

3. gr.

    Verðjöfnunarsjóði skal skipt í deildir eftir tegundum afurða. Sjávarútvegsráðherra tekur ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins samkvæmt tillögum sjóðstjórnar. Stofna skal sérstakan reikning í viðkomandi deild fyrir hvern þann aðila sem framleiðir sjávarafurðir til útflutnings.

4. gr.

    Greitt skal í Verðjöfnunarsjóð þegar markaðsverð afurða í hverri deild er að meðaltali 3–5% hærra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm árin og skal innborgunin vera 50% af því sem umfram er. Sjóðstjórn ákveður fyrir hverja deild hvar 3–5% verðbilið er hverju sinni. Verðjöfnun skal miðast við útflutning og greiðslur innheimtar við gjaldeyrisskil, þó ekki síðar en fjórum mánuðum eftir að útflutningur átti sér stað. Sjóðstjórninni er þó heimilt að veita lengri greiðslufrest standi sérstaklega á. Greiðslur skulu renna inn á verðjöfnunarreikning á nafni viðkomandi framleiðanda.

5. gr.

    Greiða skal af verðjöfnunarreikningum sjóðsins þegar markaðsverð er að meðaltali 3-5% lægra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm ára og skal útgreiðsla vera 50% af því sem á vantar. Sjóðstjórn ákveður fyrir hverja deild hvar 3–5% verðbilið er hverju sinni. Greiðslur skulu þó aldrei vera umfram það fé sem er inni á viðkomandi verðjöfnunarreikningi. Verðjöfnun skal miðast við útflutning. Greiðslur eru gjaldkræfar við gjaldeyrisskil.

6. gr.

    Stjórn sjóðsins ákveður mánaðarlega fyrir fram það hlutfall af andvirði sjávarafurða sem inn- og útgreiðslur skulu miðast við. Breytist það hlutfall ekki innan mánaðarins enda þótt breyting verði á því markaðsverði sem lá til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 4. og 5. gr. Lánastofnanir skulu innheimta greiðslur til sjóðsins skv. 4. gr.

7. gr.

    Innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljast eign hans en eru bundnar við verðjöfnun á afurðum þess framleiðanda sem inneign myndaði. Sé félagi, sem á reikning í sjóðnum, slitið og það sameinað öðru félagi með þeim hætti að ákvæðum 56. og 57. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sé fullnægt skal það félag, er við tekur, taka við rétti til verðjöfnunar af sérreikningi þess félags sem slitið var. Sé rekstur einstaklings, sem greitt hefur í sjóðinn, seldur er heimilt að kveða svo á að innstæða á verðjöfnunarreikningi fylgi með í sölunni. Með sama hætti getur innstæða á nafni einstaklings flust yfir á félag sem myndað kann að vera um rekstur hans. Látist einstaklingur sem greitt hefur í sjóðinn taka erfingjar hans við öllum réttindum sem hinn látni hafði áunnið sér gagnvart sjóðnum uppfylli þeir ákvæði laga þessara nema um skuldafrágöngubú sé að ræða.
    Verði framleiðandi gjaldþrota eða sé félagi slitið án þess að ákvæði 1. mgr. eigi við skal innstæða á verðjöfnunarreikningi þess renna inn á óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs. Sama á við ef framleiðandi hefur ekki í sex ár framleitt sjávarafurðir til útflutnings.

8. gr.

    Greiðslur framleiðenda inn á verðjöfnunarreikninga hjá Verðjöfnunarsjóði skulu koma til lækkunar á tekjum þeirra á því ári sem framleiðsla á sér stað. Útgreiðslur af verðjöfnunarreikningum til framleiðenda skulu færðar til tekna á því ári sem framleiðsla á sér stað.

9. gr.

    Skylt er framleiðendum og útflytjendum sjávarafurða ásamt flutningafyrirtækjum og lánastofnunum að veita Verðjöfnunarsjóði allar þær upplýsingar sem hann kann að leita eftir um söluverð, söluskilmála, tegundir, pakkningar, vinnslustig afurða og annað það sem máli skiptir.

10. gr.

    Stjórn sjóðsins er heimilt að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð verði verulegur aflabrestur.
    Fari samanlagðar innstæður einstakra deilda umfram 30% af verðmæti útfluttra afurða viðkomandi tegundar síðasta almanaksár er stjórninni heimilt að lækka inngreiðslur eða fella þær niður um tiltekinn tíma.
    Stjórn sjóðsins er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. gr., að ákveða að verðjöfnun fyrir óunnar botnfiskafurðir taki mið af verðjöfnun botnfiskafurða er undir aðrar deildir falla.

11. gr.

    Stjórn Verðjöfnunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.
    Kostnaður af rekstri Verðjöfnunarsjóðs skal greiddur af óskiptum reikningi sjóðsins. Sé rekstrarkostnaður meiri en nemur innstæðu á óskiptum reikningi sjóðsins skal honum skipt hlutfallslega niður á verðjöfnunarreikninga sjóðsins.
    Innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins skulu ávaxtaðar á tryggan og hagkvæman hátt í erlendum gjaldeyri.

12. gr.

    Sjávarútvegsráðherra setur með reglugerð, að fengnum tillögum sjóðstjórnar, nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

13. gr.

    Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1990. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 72 21. maí 1969, um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, með síðari breytingum, og lög nr. 13 16. mars 1988, um aðgerðir í sjávarútvegi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ríkissjóður skal taka við skuldbindingum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Innstæður deilda í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins skulu færðar á sérstaka reikninga í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Þegar útborgunartilefni skapast samkvæmt ákvæðum 5. gr. þessara laga skal greiða verðbætur á útflutning af þessum reikningum óháð innstæðum hvers fyrirtækis í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins. Þessar greiðslur skulu þó bundnar við afurðir þeirrar deildar í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins sem átti innstæðuna. Þegar innstæðan á einhverjum þessara reikninga er orðin minni en svarar til 0,2% af útflutningsverðmæti viðkomandi tegundar síðasta almanaksár skal afgangurinn renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins og frekari útgreiðslur fara eftir ákvæðum 5. gr. laganna.
    Innstæða á stofnfjárreikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins skal renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sjávarútvegsráðherra skipaði nefnd 20. nóvember síðastliðinn til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Í nefndina voru skipaðir: Þórður Friðjónsson, formaður, Árni Benediktsson, Benedikt Valsson, Friðrik Pálsson, Geir Gunnarsson, Hreggviður Jónsson, Ísólfur Sigurðsson, Jón Kristjánsson, Karl Steinar Guðnason, Kristján Ragnarsson, Lárus Jónsson, Matthías Bjarnason, Ólafur Ísleifsson, Óskar Vigfússon, Sigurður Haraldsson og Þórunn Friðriksdóttir. Með nefndinni vann dr. Ásgeir Daníelsson, hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun. Skilabréf nefndarinnar til sjávarútvegsráðherra fylgir þessu frumvarpi sem fylgiskjal.

1. Sveiflur í íslenskum þjóðarbúskap.


    Íslenskur þjóðarbúskapur er tiltölulega sveiflukenndur. Helstu orsakir þess eru sveiflur í afla, verðlagi á sjávarafurðum og viðskiptakjörum. Vegna þess hversu mikilvægur inn- og útflutningur eru fyrir íslenskt hagkerfi hafa sveiflur í útflutningstekjum mikil áhrif á þjóðarbúskapinn.
    Það er eðlilegt markmið, bæði fyrir fyrirtæki og stjórnvöld, að reyna að draga úr sveiflum í þjóðarbúskapnum og minnka þannig óvissu og ójafnvægi í efnahagslífinu. Þótt það sé ekki á valdi íslenskra stjórnvalda að draga úr sveiflum í þeim ytri aðstæðum sem þjóðarbúið býr við er hægt að draga úr áhrifum þeirra á aðrar stærðir í hagkerfinu. Með því móti væri hægt að auðvelda þróun í átt að jafnvægi í þjóðarbúskapnum, verðbólga ætti að verða minni, áætlanagerð fyrirtækja betri og átök um tekjuskiptinguna innan lands yrðu minni.
    Í grófum dráttum má lýsa gangi hagsveiflunnar á Íslandi þannig að uppsveiflan hefjist með uppgangi í sjávarútvegi vegna meiri afla eða hagstæðara verðs á erlendum mörkuðum. Sú tekjuaukning, sem þannig á sér stað í sjávarútvegi, leiðir til aukinnar eftirspurnar, betra atvinnuástands og vaxandi kaupkrafna. Reynslan hér á landi að undanförnu hefur verið sú að þessi uppgangur hefur verið of hraður og mikill, tekju- og eftirspurnaraukningin hefur verið of mikil. Þetta hefur leitt til þess að aðrar greinar, sem keppa við erlend fyrirtæki, hafa átt við erfiðleika að stríða á sama tíma og uppgangur er í efnahagslífinu. Er hér átt við minni greinar innan sjávarútvegsins, greinar sem framleiða fyrir innlendan markað, en eru í beinni samkeppni við erlenda aðila, og þjónustu við erlenda aðila, einkum ferðamannaþjónustu. Vegna þenslu og kostnaðarhækkana innan lands fá fyrirtæki í sjávarútvegi aðeins lítinn hluta þeirrar miklu tekjuaukningar, sem orðið hefur á uppgangstímunum, í sinn hlut. Þegar svo samdráttartímarnir hefjast með aflasamdrætti eða verðlækkunum á erlendum mörkuðum verður sú aðlögun, sem verður að eiga sér stað, meiri en ella vegna þessarar ofþenslu á uppgangstímunum. Gengislækkunin, tekjulækkunin og aðrar aðgerðir, sem nauðsynlegt er að beita til að rétta við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og minnka halla á viðskiptajöfnuði við útlönd, verða meiri en vera þyrfti ef þróunin væri jafnari.

2. Aðgerðir til sveiflujöfnunar.


    Allar efnahagsaðgerðir til þess að minnka þessar sveiflur felast í því að draga úr þenslunni á þenslutímunum með því að binda einhvern hluta af þeim peningum sem streyma inn. Þetta má gera með fjármálatækjum hins opinbera (skattlagningu sem ekki leiðir til útgjalda), peningamálatækjum (hærri vöxtum sem leiða til meiri sparnaðar, hærra lausafjárhlutfalli sem leiðir til þess að meira af peningum er geymt í bankakerfinu), gengishækkunum eða öðrum tækjum eins og t.d. verðjöfnunarsjóði. Með því að draga úr þenslu á uppgangstímum skapast aukið svigrúm á samdráttartímum. Þörfin á miklum gengislækkunum og tekjulækkunum verður minni, auk þess sem peningar eru í sjóði til að mæta þeim áföllum sem verða.
    Á síðustu árum hafa með auknu jafnvægi á peningamarkaði skapast vaxandi möguleikar til að beita peningamálatækjum til hagstjórnar. Það er aftur á móti ástæða til að efast um að þau fjármálatæki og þau peningamálatæki, sem til eru í landinu, og sú reynsla, sem fyrir liggur við að beita þeim, auk gengisákvarðana, nægi til að ná fram þeirri sveiflujöfnun sem æskilegt er hér á landi vegna þess hversu stórar sveiflurnar eru. Það er einnig ástæða til að efast um að beiting t.d. gengisbreytinga til hagstjórnar sé að öllu leyti æskileg. Nú horfir til stórfelldra breytinga á efnahagskerfi Evrópulanda. Þótt ekki sé ljóst hvernig Ísland tengist þessari þróun bendir allt til þess að hún leiði til aukins frelsis í vöruflutningi og fjármagnsflæði milli Íslands og annarra landa. Slík þróun mun takmarka mjög möguleika stjórnvalda til að nota gengis- og vaxtaákvarðanir til að jafna sveiflur innan lands, jafnframt því sem slík þróun mun gera auknar kröfur um að stöðugleiki í íslenskum þjóðarbúskap sé svipaður og í helstu viðskiptalöndum. Þessar röksemdir sýna nauðsyn þess að leitað sé fleiri leiða sem minnki álagið á hefðbundin tæki til hagstjórnar og auki árangurinn. Sá Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins, sem hér er lagt til að verði stofnaður, er einmitt slíkt viðbótarstjórntæki.
    Að auki má svo benda á þær röksemdir að óæskilegt sé að bregðast við þenslu sem eigi sér upphaf í sjávarútvegi með aðgerðum sem bitna jafnt á sjávarútvegi sem almennum iðnaði og ferðmannaþjónustu eins og almenn beiting fjármálatækja, peningamálatækja eða gengisákvarðanir gera. Til þess að ráða bót á þeirri þenslu, sem á upptök sín í sjávarútvegi, þarf að beita sérstökum aðgerðum sem beinast að sjávarútveginum sérstaklega. Með því móti yrði dregið meira úr sveiflum í raungengi en hægt væri að gera með almennum aðgerðum.
    Enn má benda á þær röksemdir að sökum þess hversu sveiflukenndur sjávarútvegurinn er sé nauðsynlegt að byggja upp sérstaka sjóði til að mæta áföllum innan hans. Með því að byggja upp tryggingarsjóði, sem jafni áhættuna í sjávarútveginum, er hægt að draga verulega úr afskiptum stjórnvalda af málefnum hans. Með verðjöfnunarsjóði, sem hefði sömu áhrif og tryggingarsjóður og jafnaði áhættuna í greinum sjávarútvegsins yfir nokkurn tíma, mörkuðust afskipti af greinum sjávarútvegsins við ákveðnar viðurkenndar reglur sem næðu jafnt til allra framleiðenda.

3. Óánægja með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.


    Í sjávarútvegi hefur skapast megn óánægja með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Þessi óánægja hefur einkum beinst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi er óánægja með fyrirkomulag verðjöfnunarinnar þar sem endanlegt uppgjör krefst mikilla og seinlegra útreikninga og leiðir til þess að endanlegt uppgjör getur ekki farið fram fyrr en nokkrum mánuðum eftir að verðjöfnunartímabilinu lýkur. Í öðru lagi er mikil óánægja með það sem sumir hafa kallað „misnotkun“ á Verðjöfnunarsjóðnum og er þá átt við að ákvarðanir um viðmiðunarverð og önnur atriði, sem lúta að verðjöfnun, hafi ekki verið tekin með hrein fagleg markmið að leiðarljósi, auk þess sem ákvarðanir stjórnvalda um lántökur sjóðsins til að standa straum af verðbótum til sumra greina sjávarútvegsins en ekki annarra hafa verið gagnrýndar. Í þriðja lagi hefur það verið gagnrýnt að sjóðurinn greiðir út fyrirtækjum óháð því hversu mikið þau hafa greitt inn í sjóðinn. Þetta hefur stundum leitt til þess að fyrirtæki, sem ekkert hafa greitt í sjóðinn, hafa fengið greiðslur úr sjóðnum.
    Í því frumvarpi til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, sem hér liggur fyrir, hefur verið leitast við að sníða af áðurnefnda vankanta. Eitt af markmiðunum með frumvarpinu er að gera alla framkvæmd verðjöfnunarinnar mun einfaldari en nú er. Allur útreikningur á verðjöfnunartilefnum verður nú hjá Verðjöfnunarsjóðnum sjálfum á grundvelli verðupplýsinga frá útflytjendum. Þessi útreikningur á einnig að liggja fyrir áður en verðjöfnunartímabilið hefst þannig að útflytjendur vita strax hversu mikið þeir eiga að greiða af útflutningi á verðjöfnunartímabilinu, eða hversu mikið þeir munu fá greitt á útflutning á verðjöfnunartímabilinu.
    Í öðru lagi var að því stefnt við frumvarpsgerðina að gera sem mest af ákvörðunum, sem tengjast verðjöfnuninni, sjálfvirkt og einbeita sjóðnum að því að jafna verðsveiflur en hirða ekki um aðra þætti sem hafa áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja eins og t.d. afla.
    Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir því að útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóðnum til einstakra fyrirtækja takmarkist við þær inngreiðslur sem fyrirtækið hefur innt af hendi til sjóðsins og ávöxtun þessara inngreiðslna. Með því er komið í veg fyrir að fyrirtæki, sem ekkert hefur borgað í sjóðinn, fái greitt úr honum.

4. Verðsveiflur á útflutningsafurðum íslensks sjávarútvegs.


    Hér er valin sú leið að mæla sveiflurnar með þeim hætti að reikna út staðalfrávik prósentulegra breytinga á ársmeðaltalsverði. Miðað er við að verð sé reiknað í SDR og að almennt smásöluverðlag í „SDR-löndunum“ sé notað við staðvirðingu markaðsverðsins. Með „SDR-löndunum“ er átt við Bandaríkin, Bretland, Vestur-Þýskaland, Frakkland og Japan. Til að finna verðvísitölu í „SDR-löndunum“ hefur verðvísitala þessara landa í SDR, þ.e. miðað við kaupmátt SDR, verið vegin saman á sama hátt og gjaldmiðlar þeirra eru vegnir saman til að ákvarða gengi SDR.
    Verðsveiflurnar, mældar með staðalfrávikum prósentubreytinganna, eru svipaðar hvort sem horft er á verðið sjálft eða staðvirt verð. Meðfylgjandi tafla, sem byggist á verðtölum á sjávarafurðum fyrir tímabilið 1973–1988, sýnir sveiflur í markaðsverði þegar það er mælt í SDR fyrir mismunandi greinar sjávarútvegsins.

Tafla 1.

Staðalfrávik prósentulegra breytinga þegar verð er mælt í SDR.



         SDR
    Nýr og ísaður fiskur     18,3%
    Frysting botnfiskafla      7,6%
    Humar     13,4%
    Rækja     16,5%
    Hörpudiskur     19,5%
    Söltun     18,1%
    Verkaður saltfiskur     29,8%
    Óverkaður saltfiskur     18,7%
    Mjöl og lýsi     22,9%
    Mjöl     23,6%
    Lýsi     30,0%
    Sjávarafurðir samtals      8,0%

    Taflan sýnir vel að verðsveiflurnar eru langminnstar í frystingu botnfisks og mestar í verkuðum saltfiski og lýsi.
    Línurit á næstu síðum sýna dæmi um verðþróun tveggja greina 1980–1989. Annars vegar er tekið dæmi af frystingu en verð á afurðum hennar sveiflast tiltölulega mjög lítið og hins vegar er tekið dæmi af rækjufrystingu en verð á afurðum hennar sveiflast mjög mikið. Til samanburðar er sýnd þróun almenns neysluvöruverðs.

5. Markmið með reikniformúlum verðjöfnunarkerfis.


    Það er eðlilegt að gera eftirtaldar kröfur til þeirra reikniformúla sem notaðar eru í verðjöfnunarkerfi:
1.     Reikniformúlurnar verða að vera þannig að verðjöfnunarkerfið minnki sveiflur í verði til framleiðenda.
2.     Formúlurnar verða að vera eins einfaldar og kostur er.
3.     Forðast verður að reikniformúlurnar eða önnur atriði í framkvæmd kerfisins valdi, einar og sér, snöggum breytingum í verðjöfnuninni.
4.     Eðlilegt er að kerfið leiði til meiri verðjöfnunar þar sem verðbreytingar eru snöggar en þar sem verðþróunin er hægari.
5.     Í þeim tilfellum, þar sem einhver grein nýtur mjög hagstæðrar verðþróunar til langs tíma, er eðlilegt að þó nokkur sjóðsmyndun verði. Jafnframt er eðlilegt að komið sé í veg fyrir að slík sjóðsöfnun fari úr hófi.

6. Reikniformúlurnar.


    Nýja kerfið er í grundvallaratriðum eins og það kerfi sem nú er við lýði hjá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Helsta breytingin er sú að útreikningur á viðmiðunarverðinu hefur verið gerður sjálfvirkur, en viðmiðunarverðið er nú ákveðið af stjórn sjóðsins út frá meðalverði síðustu þriggja og fimm ára og að teknu tilliti til annarra atriða, svo sem arðsemi viðkomandi greinar.
    Samkvæmt frumvarpinu á að reikna út viðmiðunarverðið þannig að það sé meðaltal markaðsverða síðustu fimm ára, eða 60 mánaða. Með meðaltali markaðsverðs er átt við staðvirt verð þannig að allar markaðsverðtölur séu reiknaðar út á verðlagi þess mánaðar þegar verðákvörðunin er framkvæmd.

Verð á afurðum frystingar í SDR og almennt neysluvöruverðlag í SDR.



(Línurit, ekki til tölvutækur formi.)



Verð á rækju í SDR og almennt neysluvöruverðlag í SDR.



(Línurit, ekki til tölvutækur formi.)



Einnig er átt við meðalmarkaðsverð afurðanna þar sem verð á einstökum pakkningum er vegið saman miðað við heppilegan magngrunn sem taki mið af framleiðslu eða útflutningi nýliðins árs eða ára. Með stærðfræðitáknum lítur útreikningurinn á viðmiðunarverðinu þannig út:

(1) VMV t = (MV t-1 + MV t-2 + MV t-3 +...... MV t-60)/60

þar sem VMVt er viðmiðunarverðið sem gilda á í næsta mánuði (mánuði t), MV t-1 er markaðsverðið í þeim mánuði sem er að líða, staðvirt með einhverri vísitölu,
t.d. smásöluverði í „SDR-löndunum“ eins og gert er í útreikningunum í þessari greinargerð.
    Þegar búið væri að reikna út viðmiðunarverð fyrir mánuð t væri hægt að reikna út verðjöfnunartilefni miðað við það verðbil og það afgjaldshlutfall sem frumvarpið kveður á um. Ef verðbilið í prósentum er vb og afgjaldshlutfallið í prósentum er g á að greiða inn í verðjöfnunarsjóðinn ef:

    (2) 100*(MV t-1 - VM Vt)/VM Vt.> vb

og inngreiðslan í prósentum af útflutningi mánaðar t verður:

    (3) (g/100)*(100*(MV t-1 - VM V t)/VMV t - vb

    Útgreiðslutilefni verður ef:

    (4) 100*(MV t-1 - VMV t)/VMV t < - vb

og ef viðkomandi fyrirtæki á innstæðu í sjóðnum á útgreiðslan í prósentum af útflutningi mánaðar t að vera:

    (5) -(g/100)*(100(MV t-1 - VMV t)/VMV t + vb)

    Þessar formúlur eru í flestum aðalatriðum eins og þær sem nú eru notaðar í starfsemi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins. Helsti munurinn er að einungis markaðsverð liðins tíma er notað við útreikning á verðjöfnunartilefni, en ekki verð á verðjöfnunartímabilinu sjálfu eins og nú er lagt til.
    Það er auðvelt að sjá það út frá formúlunum að þeim mun stærra sem verðbilið ( vb) er og þeim mun minna sem afgjaldshlutfallið ( g) er þeim mun minni verður verðjöfnunin.
    Þetta kerfi uppfyllir öll skilyrðin fimm sem talin voru upp hér að framan, nema síðari hluta fimmta skilyrðisins. Það er ekkert í þessu kerfi sem kemur í veg fyrir að sjóðsöfnunin haldi endalaust áfram ef verðþróun greinarinnar er mjög hagstæð um langt tímabil. Þess vegna er ákvæði í 10. gr. frumvarpsins um heimild til handa sjóðstjórninni að breyta frá heimildum sem 4. og 5. gr. kveða á um ef viðkomandi deild á digra sjóði.

7. Nokkur dæmi um verðjöfnun samkvæmt sjálfvirku verðjöfnunarkerfi.


    Prófun á þessu verðjöfnunarkerfi hefur farið fram með því að skoða hvað hefði komið út úr því fyrir nokkrar greinar sjávarútvegs á tímabilinu frá janúarmánuði 1980 til desembermánaðar 1989. Reynt hefur verið að afla eins góðra upplýsinga og hægt var um markaðsverð og erlendar verðvísitölur í hverjum mánuði. Aftur á móti hefur framleiðslumagninu verið haldið óbreyttu alla mánuðina.
    Það yrði allt of umfangsmikið að reyna að gera grein fyrir því hvernig sérreikningafyrirkomulagið hefði áhrif á verðjöfnunina. Það hefur því verið látið nægja að meðhöndla öll fyrirtækin sem eitt fyrirtæki og borga út eins lengi og peningar eru til á reikningi deildarinnar ef útborgunartilefni er fyrir hendi. Botnfisk er hér skipt á tvær deildir: frystingu og söltun eins og er í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.
    Í öllum þeim útreikningum, sem hér fylgja, hefur verið gengið út frá því að í upphafi þess tímabils sem verið er að skoða, þ.e. 1. janúar 1980, séu allir reikningar tómir. Engin verðjöfnun getur því orðið fyrr en kemur að fyrstu innborguninni. Það er einnig gert ráð fyrir því að sjóðstjórnin hafi ákveðið að verðbilið ( vb) sé 5% í rækju og loðnumjöli en 3% í frystingu og söltun botnfiskafurða (miðað við staðvirta verðvísitölu) og að afgjaldshlutfallið (.zfg.xf) sé 50%. Einnig er alls staðar reiknað með því að innstæður séu ávaxtaðar með 3% raunvöxtum miðað við erlent verðlag. Tölur 2–5 sýna verðjöfnun viðkomandi árs í hlutfalli (%) af útflutningsverðmæti. Plústala merkir að um inngreiðslu hefur verið að ræða, en mínustala merkir útgreiðslu. Neðsta línan, sem er merkt „sveifluminnkun“, sýnir mælikvarða á áhrif verðjöfnunarinnar til jöfnunar á verðsveiflum þegar stærð verðsveiflanna er mæld eins og hér er gert með staðalfráviki prósentulegra breytinga milli ára. Talan í neðstu línunni sýnir hversu mörgum prósentum minna staðalfrávikið er með verðjöfnun en án hennar.

Tafla 2.

Frysting.


         Verðjöfnun    Raunveruleg
    Ártal     samkvæmt dæmi    verðjöfnun
    1980     . 0,0    -2,5
    1981      .0,0    -1,5
    1982      .0,0    0,0
    1983      .0,0    0,0
    1984      .0,0    0,0
    1985      .0,0    0,0
    1986      .0,0    0,0
    1987      .2,2    1,0
    1988      -0,3    -2,2
    1989      -1,5    -3,0
    Sveiflu-
    minnkun     -18,6

    Það er rétt að minna á að við höfum í þessum dæmum gert ráð fyrir því að allar innstæður allra deilda væru tómar í byrjun árs 1980. Af þeirri ástæðu verður engin verðjöfnun í dæmunum árið 1980 þótt yfirleitt hafi verið tilefni til útborgunar í þessum dæmum. Að þessu leyti verður verðjöfnunin í dæmunum minni en ella miðað við það sem raunverulega varð, sbr. aftasta dálkinn.

Tafla 3.

Söltun.


         Verðjöfnun    Raunveruleg
    Ártal     samkvæmt dæmi    verðjöfnun
    1980      .0,2    -4,9
    1981      .6,0    -0,3
    1982      .0,8    -0,3
    1983      -4,6    -6,0
    1984      -4,3    -2,9
    1985      -0,9    -0,5
    1986      .0,3    3,1
    1987      .3,4    4,6
    1988      -0,9    -1,0
    1989      -4,2    -6,6
    Sveiflu-
    minnkun     -39,1

Tafla 4.

Rækja.


         Verðjöfnun    Raunveruleg
    Ártal     samkvæmt dæmi    verðjöfnun
    1980      .4,2    0,0
    1981      -1,0    -18,4
    1982     .13,0    -1,4
    1983      .8,7    6,7
    1984      -6,2    -5,2
    1985      -9,8    0,0
    1986      -0,5    8,5
    1987      .0,8    2,6
    1988      .0,0    -3,7
    1989      -2,4    -6,8
    Sveiflu-
    minnkun     -38,8

Tafla 5.

Loðnumjöl.


         Verðjöfnun    Raunveruleg
    Ártal     samkvæmt dæmi    verðjöfnun
    1980      .0,0    -3,1
    1981      .0,0    -6,3
    1982      .0,0    -6,7
    1983      .1,0    0,0
    1984      -1,5    0,0
    1985      .0,0    0,0
    1986      .0,0    0,0
    1987      .0,0    0,0
    1988      .8,2    0,0
    1989      .5,7    0,0
    Sveiflu-
    minnkun     -12,9

    Hér verður verðjöfnunin sérstaklega lítil vegna þess að verðið er á niðurleið mestan hluta tímabilsins. Formúlurnar gefa tilefni til útgreiðslna mestan hluta tímabilsins, en þar eð engar innstæður voru fyrir hendi gat engin verðjöfnun átt sér stað fyrr en innborgun hafði farið fram. Það er einnig rétt að minna á að útgreiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins vegna loðnumjöls á fyrstu árunum var fjármögnuð með láni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þessi grein lýsir hlutverki sjóðsins sem er að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn. Verðsveiflur hafa haft mikil áhrif á þróun efnahagsmála hér á landi. Mikilvægt er að draga úr áhrifum þeirra á innlenda efnahagsþróun og stuðla þannig að betra jafnvægi í sjávarútvegi og þjóðarbúskapnum í heild.

Um 2. gr.


    Greinin fjallar um skipun stjórnar sjóðsins. Sjávarútvegsráðherra skipar fimm menn í stjórn hans án tilnefningar.

Um 3. gr.


    Verðjöfnunarsjóði skal skipt upp í deildir eftir helstu tegundum sjávarafurða. Í aðalatriðum koma tvær leiðir til álita. Annars vegar að allar botnfiskafurðir teljist til sameiginlegrar deildar, þar með taldar óunnar botnfiskafurðir. Samkvæmt þessu fengi öll botnfiskvinnslan sömu verðjöfnun og því hefði tilhögun verðjöfnunar engin áhrif á innbyrðis samkeppnisstöðu einstakra greina í botnfiskvinnslunni. Hins vegar kemur til álita að viðhafa svipaða deildskiptingu og í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, ásamt nýrri deild fyrir óunnar fiskafurðir. Í þessu fælist að áfram yrði leitast við að nota sjóðinn til að jafna afkomu milli einstakra greina botnfiskvinnslunnar.
    Ein helsta gagnrýnin á verðjöfnunarsjóð þann, er nú starfar, er að inngreiðslur renna í óskiptan sjóð. Þegar kemur til útgreiðslu úr sjóðnum fá framleiðendur greitt eftir því sem framleitt hefur verið á útgreiðslutímabilinu, burtséð frá því hvað aðilar greiddu á sínum tíma til sjóðsins. Bent hefur verið á að ný fyrirtæki í sjávarútvegi hafi fengið verðbætur eins og hin eldri án þess að hafa lagt sjóðnum nokkuð til á undangengnu inngreiðslutímabili. Komið er í veg fyrir þetta með því að færa inngreiðslur á sérstaka reikninga á nafni þeirra aðila sem framleiða sjávarafurðir til útflutnings.

Um 4. gr.


    Eitt af meginskilyrðum þess að starfsemi endurnýjaðs verðjöfnunarsjóðs hafi tilætluð áhrif er að starfsemin verði greið. Til þess að svo megi verða þurfa reglur að vera einfaldar að gerð og í framkvæmd. Þessi grein tekur mið af þessum sjónarmiðum. Ýmsum erfiðleikum hefur valdið í starfsemi Verðjöfnunarsjóðs hve allar viðmiðanir hafa verið á reiki. Nauðsyn var því talin á að lögbinda sem mest reglur um útreikning á grundvallarverði og á inngreiðslu- og útgreiðsluhlutfalli. Svigrúmið er á bilinu 3–5% eftir því hvernig verð afurða þróast. Þetta byggist á því sjónarmiði að eðlilegt getur talist að hafa meira verðbil á afurðum sem hafa að jafnaði stærri verðsveiflur. Grundvallarverð er reiknað út frá meðalverði hverrar afurðar næstliðin fimm ár. Skal verð hvers þessara fimm ára vera staðvirt, þ.e. fært til verðlags á útreikningstímanum.
    Allar forsendur skulu miðast við það ástand sem ríkir þegar útflutningur á sér stað. Dagsetning útflutnings mun m.a. ráða því hvaða verðjöfnun gildir þegar til uppgjörs við Verðjöfnunarsjóð kemur. Mikil bót er að því að miða við útflutning og útflutningsdag í stað framleiðslutíma eins og gilt hefur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Mun þetta fyrirkomulag auðvelda alla framkvæmd til muna. Allar greiðslur í og úr Verðjöfnunarsjóði fara fram miðað við gjaldeyrisskil. Nú munu standa fyrir dyrum ákveðnar breytingar á reglum um skilaskyldu gjaldeyris og um gjaldeyriseftirlit. Því er nauðsynlegt að setja þær skorður að allar inngreiðslur þurfi að koma fram innan fjögurra mánaða eftir að útflutningur á sér stað. Sjóðstjórn getur þó heimilað að vikið sé frá þessari meginreglu ef sérstaklega stendur á. Má í því sambandi nefna vanefndir á greiðslum erlendis frá, mikla birgðasöfnun í geymslum erlendis og þegar sérstaklega er samið um óvenjulegan gjaldfrest. Útflytjendur verða þó jafnan að leita eftir samþykki stjórnar Verðjöfnunarsjóðs í þessu efni.
    Í vaxandi mæli fá framleiðendur greitt fyrir afurðir sínar áður en greiðsla berst útflytjanda frá erlendum kaupendum. Fjármagnar þá útflytjandi afurðauppgjörið með erlendu láni. Er þetta yfirleitt kallað „flýtigreiðsla“. Sá skilningur er lagður í þessar „flýtigreiðslur“ að þær séu jafngildi gjaldeyrisskila.

Um 5. gr.


    Um skýringar greinarinnar vísast til athugasemda við 4. gr. Hér er þó komið að því grundvallaratriði í þessu frumvarpi að ekki skal greiða einstökum framleiðendum meiri verðbætur en nemur innstæðum þeirra, að meðtöldum áföllnum vöxtum og gengistryggingu. Verðbótarétturinn er því háður því hve mikið hvert fyrirtæki hefur greitt inn á sérreikning sinn hjá Verðjöfnunarsjóði. Í greininni stendur að útgreiðslur séu greiðsluskyldar við gjaldeyrisskil. Þar sem verðbótahlutfallið miðast við útflutninginn og útflutningstímann kunna að verða mismunandi verðbótahlutföll í gangi samtímis.

Um 6. gr.


    Til að auðvelda afgreiðslu verður hlutfall inn- og útgreiðslna, eftir því sem við á, tilkynnt fyrir fram til eins mánaðar í senn. Tilkynnt verðjöfnunarhlutfall er endanleg verðjöfnun. Með þessu fyrirkomulagi má ganga frá fullnaðaruppgjöri gagnvart framleiðendum skömmu eftir að útflutningsvaran er framleidd og seld. Af þessu mun hljótast verulegt hagræði.
    Nauðsynlegt er að fela lánastofnunum að innheimta verðjöfnunarinngreiðslur enda er það eðlilegt og auðveldast í framkvæmd. Hagkvæmt kann einnig að reynast að fela lánastofnunum að greiða verðbætur þegar til útgreiðslu kemur.

Um 7. gr.


    Þó að inngreiðslur færist á nafn þess aðila sem innir þær af hendi teljast innstæður vera eign Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins, enda er ráðstöfun inneigna háð ákvörðunum sjóðsins. Rétt þykir þó að heimila að innstæður framleiðenda geti við ákveðnar aðstæður flust milli aðila við sameiningu fyrirtækja. Hjá einstaklingum getur réttur flust við erfðir ef erfingjar halda rekstri áfram og þegar einstaklingar, sem inneignir hafa hjá sjóðnum, ganga til samstarfs í félagi. Skal þessi heimild því gilda til jafns fyrir lögaðila og einstaklinga.
    Leggist fyrirtæki af vegna gjaldþrots eða ef ákvæði 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins kemur ekki til álita skal innstæða hlutaðeigandi fyrirtækis renna í óskiptan reikning sjóðsins. Meginmáli skiptir í þessu efni að ekki sé greitt út úr sjóðnum nema við verðjöfnunartilefni.

Um 8. gr.


    Samkvæmt þeirri meginreglu í skattalögum að tekjur skuli færðar þegar tekjutilefnið verður skal tekjufærsla verðbóta fara fram þegar framleiðsla á sér stað. Sama gildir ef um inngreiðslu er að ræða. Skal hún þá koma til lækkunar söluverðs afurðar við framleiðslu.

Um 9. gr.


    Nauðsynlegt er að veita Verðjöfnunarsjóði allvíðtæka heimild til upplýsingaöflunar svo að tryggja megi snurðulausa framkvæmd og hagsmuni sjóðsins.

Um 10. gr.


    Um þessa grein má almennt segja að hún sé sú eina í frumvarpinu sem heimili stjórn Verðjöfnunarsjóðs að víkja út frá þeim reglum sem fram eru settar í 4.–6. gr. Þær aðstæður kunna að skapast að aflabrestur verði svo varanlegur að til stórvandræða horfi. Kann þá að reynast nauðsynlegt að fella niður inngreiðslur ef um þær er að ræða. Rétt þykir einnig að veita sjóðstjórn heimild til að undanþiggja framleiðendur inngreiðslum ef afurðategund hækkar stöðugt í verði um langan tíma og inngreiðslur verða óvenjumiklar.

Um 11. gr.


    Hagkvæmnissjónarmið hljóta að ráða því hvar Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er varðveittur og hvernig daglegum rekstri hans er háttað. Stjórn hans hefur fullt forræði yfir allri starfsemi hans. Rétt þykir að nota þá fjármuni, sem kunna að koma á óskiptan reikning hans, til að standa straum af rekstrarkostnaði sjóðsins. Það sem á kann að vanta skiptist hlutfallslega niður á verðjöfnunarreikninga sjóðsins.

Um 12. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 13. gr.


    Ekki er talið eðlilegt að starfsemi Verðjöfnunarsjóðs sé skattlögð þar sem hér er fyrst og fremst um að ræða sveiflujöfnun í þjóðarbúskapnum í hagstjórnartilgangi.

Um 14. gr.


    Mikilvægt þykir að lögin taki gildi sem fyrst og hér er miðað við 1. júní 1990.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Verulegar skuldbindingar eru nú á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, bæði vegna lántöku hjá Seðlabankanum 1981 og vegna tveggja lána sem tekin voru 1988 og 1989. Áætla má að skuldir þessar geti numið allt að 2.000 m.kr. með vöxtum og gengistryggingu. Nauðsynlegt er að ríkissjóður taki á sig þessar skuldbindingar enda hafa verið gefin fyrirheit um það.
    Inneignir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins í febrúarbyrjun 1990 námu um 700 m.kr. Uppistaðan í inneignum þessum eru á reikningum humars 253 m.kr., á rækjureikningi 237 m.kr. og á reikningi saltfiskdeildar 102 m.kr. Mun lægri upphæðir eru á öðrum reikningum. Í frumvarpi þessu er sú leið farin að eignum hins gamla Verðjöfnunarsjóðs verði varið til greiðslu verðbóta sem reiknaðar eru samkvæmt reglum hins nýja sjóðs en greiðast óháð inngreiðslum hlutaðeigandi fyrirtækja. Munu því eignir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins smám saman ganga til þurrðar, en fram að því teljast þær til ráðstöfunarfjár hins nýja sjóðs.
    Rétt þykir að innstæðum á reikningum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins verði einungis varið til greiðslu verðbóta á afurðir þeirra deilda sem stofnuðu til innstæðnanna.
    Hagkvæmnisástæður liggja til grundvallar því að færa eftirstöðvar sérstakra reikninga yfir á óskiptan reikning þegar þær nema orðið lægri fjárhæð en 0,2% af framleiðsluverðmæti afurða sl. almanaksár. Stofnfjárreikningur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins er þannig til kominn að Seðlabankinn lagði sjóðnum til fjármagn í upphafi. Kom það fé inn á stofnfjárreikning. Á honum eru nú u.þ.b. 1,5 m.kr. Rétt þykir að þessi innstæða renni í óskiptan reikning til að greiða rekstrarkostnað.



Fylgiskjal.


Skilabréf til sjávarútvegsráðherra


frá nefnd til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.


(3. apríl 1990.)



    Hér með fylgir handrit að frumvarpi til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins sem fjallað hefur verið um í nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði 20. nóv. sl. til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.
    Að baki frumvarpinu liggur að verðjöfnun á útfluttum sjávarafurðum geti stuðlað að betra jafnvægi í sjávarútvegi og þjóðarbúskapnum í heild. Þetta byggist á greiðslum inn í Verðjöfnunarsjóð þegar verð á sjávarvörum er hátt og greiðslum úr sjóðnum þegar verð er lágt. Kúfurinn af uppsveiflunni er notaður til að draga úr niðursveiflunni. Í þessu felst því viðleitni til að koma í veg fyrir þenslu og verðbólgu í góðæri og til að milda áhrif samdráttar á kaupmátt og atvinnu. Þessi áhrif koma meðal annars fram í minni sveiflum á raungengi íslensku krónunnar.
    Þetta frumvarp felur í sér miklar breytingar frá núverandi Verðjöfnunarsjóði. Þrennt skiptir þó mestu máli. Í fyrsta lagi verða inngreiðslur á nafni framleiðenda. Engar tilfærslur verða því milli framleiðenda. Í öðru lagi eru greiðslur inn í sjóðinn og úr honum byggðar á hreinum verðjöfnunarsjónarmiðum. Í þriðja lagi er verðjöfnunarkerfið einfaldað verulega frá núverandi kerfi.
    Nefndin skiptist í afstöðu sinni til frumvarpsins. Eftirtaldir nefndarmenn voru hlynntir verðjöfnun í anda frumvarpsins með fyrirvörum um einstök atriði: Árni Benediktsson, Geir Gunnarsson, Ísólfur Sigurðsson, Jón Kristjánsson, Karl Steinar Guðnason, Lárus Jónsson, Þórunn Friðriksdóttir og Þórður Friðjónsson.
Ólafur Ísleifsson og Einar K. Guðfinnsson, sem sat lokafund nefndarinnar í fjarveru Matthíasar Bjarnasonar, studdu tillögu um að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins yrði lagður niður, voru hlynntir því að frumvarpið fengi þinglega meðferð, en höfðu fyrirvara við einstök efnisatriði. Benedikt Valsson var fylgjandi verðjöfnun í öðrum greinum en botnfiskvinnslu, sbr. meðfylgjandi bókun. Sigurður Haraldsson hafði áður greint frá andstöðu sinni við fyrri frumvarpsdrög, en á lokafundi nefndarinnar 2. apríl voru lögð fram ný frumvarpsdrög þar sem tekið var tillit til hluta sjónarmiða SÍF sem getur breytt fyrri afstöðu saltfiskframleiðenda til málsins. Friðrik Pálsson ítrekaði þá afstöðu SH að leggja bæri niður núverandi Verðjöfnunarsjóð og ákvörðunum skattalaga breytt á þann veg að leggja mætti í varasjóð til að mæta tekjusveiflum í útflutningi. Kristján Ragnarsson, Hreggviður Jónsson og Óskar Vigfússon lögðu til að núverandi Verðjöfnunarsjóður yrði lagður niður og enginn nýr sjóður tæki við hlutverki hans.
    Með þessu bréfi og því sem fylgir telur nefndin sig hafa lokið störfum. Einstakir nefndarmenn munu skýra afstöðu sína til frumvarpsins nánar verði það lagt fram á Alþingi.

Bókun Benedikts Valssonar.


    Á fundi stjórnar Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, FFSÍ, 1. mars sl. var samþykkt ályktun þess efnis að leggja ætti niður botnfiskdeildir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, VJS, en starfrækja áfram aðrar deildir sjóðsins. Stjórnin tók enga afstöðu til einstakra efnisatriða í þeim frumvarpsdrögum sem hafa verið til umfjöllunar í nefnd sem endurskoðar lög og starfsemi VJS.
    Ályktun FFSÍ um að leggja niður botnfiskdeildir VJS er grundvölluð m.a. á því að starfsumhverfi botnfiskvinnslunnar hefur tekið miklum breytingum á síðustu 20 árum sem sjóðurinn hefur starfað. Í þessu sambandi má nefna að möguleikar í ráðstöfun botnfiskaflans og fjölgun markaða gerir það að verkum að auðveldara er fyrir framleiðendur og útflytjendur að draga úr framleiðslu og minnka sölu á afurðum sem lækka í verði umfram aðrar tegundir. Með þessu móti geta framleiðendur og útflytjendur sjálfir dregið úr verðsveiflum innan sjávarútvegsins.
    Það sem snýr að öðrum deildum VJS er annað mál. Möguleikar í fjölbreyttri framleiðslu eru afar takmarkaðir. En það sem vegur þyngst á vogarskálum eru stórkostlegar verðsveiflur, enda hefur það komið í ljós að þessar deildir VJS hafa þjónað sínu hlutverki einna best, sérstaklega rækju- og hörpudiskdeildirnar. Um þetta deila fáir.