Ferill 545. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 545 . mál.


Nd.

942. Frumvarp til laga



um breyting á barnalögum, nr. 9 15. apríl 1981.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Í stað „56“ í 4. mgr. 6. gr. komi: 58.

2. gr.

    Á eftir „sitt“ í 1. mgr. 8. gr. komi: skriflega.
    Í stað „feðrað“ í 3. mgr. 8. gr. komi: ófeðrað.

3. gr.

    2. mgr. 10. gr. orðist svo:
    Ákvæði IX. kafla gilda um mál þessi eftir því sem við getur átt.

4. gr.

    Í stað „51“ í 5. mgr. 12. gr. komi: 53.

5. gr.

    Við 1. mgr. 15. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Framlög þessi verða þó ekki ákvörðuð lengra aftur í tímann en sex mánuði frá því að beiðni var sett fram, nema alveg sérstakar ástæður leiði til annars.

6. gr.

    Í stað „nafnnúmer“ í 1. mgr. 16. gr. komi: kennitölu.

7. gr.

    Í stað 3. málsl. 1. mgr. 17. gr. komi tveir málsliðir, svohljóðandi: Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis er heimilt að ákveða samkvæmt kröfu þess allt til þess er það nær 20 ára aldri. 2. málsl. 1. mgr. 15. gr. á hér við að sínu leyti.

8. gr.

    2. mgr. 20. gr. orðist svo:
    Ákvörðun um framfærslueyri, sem eindagaður er áður en beiðni er uppi höfð, verður þó ekki breytt nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess.

9. gr.

    Við 22. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði 2. mgr. 20. gr. á hér við að sínu leyti.

10. gr.

a.    Í stað „laga nr. 95/1947“ í 1. mgr. 23. gr. komi: lögræðislaga, nr. 68/1984.
b.    2. mgr. 23. gr. orðist svo:
         Sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns getur krafist þess að framfærslueyrir sé ákveðinn og innheimtur, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða hafi haft hana er forsjárskyldu lauk, eða hafi síðar innt af hendi framfærsluframlag vegna ungmennis allt til þess aldurs er greinir í 1. mgr. 17. gr. Hinu sama gegnir um þann sem hefur barn í fóstri samkvæmt lögmætri skipan. Nú hefur verið innt af hendi framfærsluframlag af hendi almannavalds og hefur þá viðkomandi stjórnvald eða stofnun rétt þann sem greinir í þessari málsgrein.

11. gr.


    24. gr. orðist svo:
    Ákvörðun á framfærslueyri með börnum við slit óvígðrar sambúðar eða skilnað foreldra hlítir ákvæðum þessa kafla eftir því sem við getur átt, þar á meðal um breytingu á ákvörðunum um framfærslueyri.

12. gr.

    Á eftir „samkv.“ í 2. málsl. 1. mgr. 28. gr. komi: 17.

13. gr.

    29. gr. orðist svo:
    Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða foreldri barns sem á framfærslurétt hér á landi og öðrum þeim aðiljum, er greinir í 31. gr., framfærslueyri (meðlag) með barni, skilgetnu eða óskilgetnu, samkvæmt yfirvaldsúrskurði eða staðfestum samningi, þó innan þeirra marka um fjárhæð og aldur barns er greinir í almannatryggingalögum, svo sem þau mæla fyrir um þetta atriði á hverjum tíma.
    Kröfu foreldris til Tryggingastofnunar ríkisins skal fylgja meðlagsúrskurður löglega birtur eða samkomulag um meðlagsgreiðslur, staðfest af valdsmanni. Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað og á sama hátt getur barnsmóðir fengið meðlag með barni þegar eftir að barnsfaðernismál er höfðað, hvort tveggja svo sem lög um almannatryggingar segja fyrir um.
    Hafi foreldrar barns fengið skilnað erlendis og svo háttar til að því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur verið gert að greiða lægra meðlag með því en nemur barnalífeyri almannatrygginga eða hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því, getur valdsmaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldris á hendur Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli erlends skilnaðarleyfis, skilnaðardóms eða úrskurðar. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær eftir því sem fært reynist.
    Um kröfu skv. 2. mgr., svo og endurgreiðslu hennar gilda að öðru leyti ákvæði laga um almannatryggingar, þar á meðal um endurgreiðslu ríkissjóðs á meðlögum er Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna barnsfeðra sem framfærslurétt eiga erlendis.

14. gr.

    30. gr. orðist svo:
    Um aðgang barnsmóður að Tryggingastofnun ríkisins vegna framfærslueyris, sbr. 1. mgr. 25. gr., fer svo sem segir í lögum um almannatryggingar.
    Foreldri á aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um þær greiðslur, sem greinir í 19. gr., og barnsmóðir um greiðslur skv. 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. þessara laga. Ungmenni, sem í hlut á, hefur aðgang að Tryggingastofnun ríkisins vegna úrskurðaðra framlaga skv. 17. gr. eftir því sem almannatryggingalög mæla fyrir um, sbr. lög nr. 23/1987.
    Með reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur, má ákveða hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi skv. 1. og 2. mgr.

15. gr.

    Í stað „24. gr. laga nr. 95/1947“ í 3. mgr. 35. gr. komi: 26. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984.

16. gr.

    Við 2. mgr. 36. gr. bætist: eða í staðfestu samkomulagi þeirra, sbr. 38.–40. gr.

17. gr.

    Í stað „Umsjá“ í 3. mgr. 37. gr. komi: Um.

18. gr.

    38. gr. orðist svo:
    Nú slíta giftir foreldrar samvistir án þess að slíta hjúskap sínum og geta þeir þá ákveðið hvort þeirra fari með forsjá barns, nema ákvörðun komi í bága við þarfir barnsins.
    Forsjármálum skal ávallt skipa þegar leyfi er veitt til skilnaðar að borði og sæng og til lögskilnaðar, svo og við slit óvígðrar sambúðar, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 6. mgr. 35. gr. Ákveða foreldrar þá hvort þeirra fari með forsjá barns nema ákvörðun þeirra komi í bága við þarfir barnsins. Ákvæði 40. gr. á við um samkomulag skv. 1. og 2. mgr.
    Þegar foreldra greinir á um skipan forsjár skal ráða máli til lykta eftir því sem barni er fyrir bestu með úrlausn dómsmálaráðuneytisins eða dómstóls, ef dómur gengur um kröfu til skilnaðar. Dómsmálaráðuneytið leitar umsagnar barnaverndarnefndar áður en það ræður máli til lykta með úrskurði. Nú er hvorugt foreldra talið hæft til að fara með forsjá barns og skal forsjá þá skipað eftir því sem barni er fyrir bestu.
    Í ágreiningsmálum, sbr. 3. mgr., getur dómsmálaráðuneytið eða dómstóll ákveðið til bráðabirgða hvernig fara skuli um forsjá barns. Ákvæði 3. mgr. eiga hér við að sínu leyti. Breyta má þessum ákvörðunum vegna breyttra aðstæðna. Ákvörðun til bráðabirgða bindur ekki hendur úrskurðarvalds þegar skipa skal forsjá barns til frambúðar.
    Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um forsjá skal vera skrifleg og rökstudd. Gefa skal aðilum máls kost á að tjá sig áður en mál er tekið til úrskurðar.
    Gefa skal barni, sem náð hefur 12 ára aldri áður en úrskurður er kveðinn upp, kost á að gera grein fyrir afstöðu sinni í forsjármáli, nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust við úrlausn málsins.

19. gr.

    Ný grein, 39. gr., orðist svo:
    Foreldrar geta samið um breytingu á forsjá barns frá fyrri skipan, sbr. 38. gr., þannig að forsjá flytjist frá öðru foreldri til hins. Ákvæði 40. gr. á við um samning samkvæmt þessari málsgrein.

20. gr.

    Ný grein, 40. gr., orðist svo:
    Samningur foreldra um forsjá barns er því aðeins gildur að valdsmaður staðfesti hann og skal samningurinn staðfestur nema telja verði að hann sé barni eigi fyrir bestu. Úrlausn valdsmanns má skjóta til dómsmálaráðuneytisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu hennar.

21. gr.

    39.–58. gr. verði 41.–60. gr.

22. gr.

    1. mgr. 39. gr. (verður 41. gr.) orðist svo:
    Dómsmálaráðuneytið getur breytt samningi foreldra um forsjá barns, sbr. 38.–40. gr., ef foreldrar eru sammála um að ráðuneytið leysi úr málinu. Að öðrum kosti heyrir mál undir dómstóla. Breyting skal því aðeins á gerð að slíkt teljist réttmætt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til þess sem barni er fyrir bestu.

23. gr.

    40. gr. (verður 42. gr.) orðist svo:
    Nú er forsjá barns í höndum annars foreldris og á barnið þá rétt á umgengni við hitt foreldra sinna, enda er foreldri skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta. Ef sérstök atvik valda því að mati valdsmanns að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag þess og þörfum getur hann kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.
    Ef foreldrar verða sammála um hvernig skipa skuli umgengnisrétti skal eftir því farið nema sú skipan komi í bága við hag og þarfir barnsins að mati valdsmanns. Ef foreldra greinir á um þetta efni getur valdsmaður kveðið á um inntak þess réttar og hversu honum verði beitt nema hann telji rétt að synja um umgengnisrétt eins og á stendur, sbr. 1. mgr. Nú er annað foreldra barns látið eða bæði og geta þá nánir ættingjar látins foreldris krafist þess að valdsmaður mæli fyrir um umgengnisrétt þeirra við barn. Valdsmaður ræður máli til lykta eftir því sem barni þykir koma best.
    Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar þegar ástæða þykir til þess, svo og liðsinnis hennar eða sérstaklega tilnefnds tilsjónarmanns í sambandi við framkvæmd umgengnisréttarins.
    Valdsmaður í umdæmi því er barn býr í leysir úr máli með úrskurði, að undangenginni sáttatilraun, nema hún þyki bersýnilega þýðingarlaus. Valdsmaður getur breytt ákvörðun sinni þyki það barni fyrir bestu.
    Aðilar þeir er greinir í 2. mgr. geta skotið úrskurði valdsmanns um umgengnisrétt til dómsmálaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því úrskurður gekk. Ákvörðun ráðuneytisins er fullnaðarúrlausn máls.
    Ef þeim, sem umgengnisréttar nýtur við barn samkvæmt úrskurði, er tálmaður sá réttur, getur valdsmaður að kröfu hans skyldað þann, sem með forsjá barnsins fer, til að láta af tálmunum, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð allt að 2.000 kr. Dagsektir verða eigi lagðar á fyrr en úrskurður ráðuneytisins er genginn eða að liðnum málskotsfresti þeim er greinir í 5. mgr. Dagsektir skal ákveða með úrskurði, en gefa skal þeim, sem með forsjá barnsins fer, kost á að tala máli sínu áður en hann er kveðinn upp. Dagsektir skulu ákveðnar til allt að þriggja mánaða í senn fyrir hvern dag, sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar, þar til látið er af tálmunum. Dagsektir falla niður þegar barnaverndarnefnd eða sérstaklega tilnefndur tilsjónarmaður tilkynnir valdsmanni að sá, sem með forsjá fer, hafi látið af tálmunum. Samkvæmt kröfu valdsmanns má taka dagsektir lögtaki og renna þær í ríkissjóð. Hámarksfjárhæð dagsekta samkvæmt framansögðu skal taka breytingum í samræmi við lánskjaravísitölu janúarmánaðar 1991. Öðrum lagaúrræðum verður ekki beitt til framdráttar umgengnisrétti.
    Þar til lög nr. 92/1989 taka gildi teljast valdsmenn samkvæmt þessari grein vera sýslumenn og bæjarfógetar utan Reykjavíkur, í Reykjavík yfirborgarfógeti, en eftir gildistöku þeirra laga sýslumenn, hver í sínu umdæmi.

24. gr.

    1. mgr. 41. gr. (verður 43. gr.) orðist svo:
    Nú hefur forsjármáli eigi verið ráðið til lykta og getur dómsmálaráðuneytið eða dómstóll, eftir því hvar forsjármál er til úrlausnar, lagt svo fyrir að eigi megi að svo vöxnu fara með barnið úr landi.
    Í stað „dómsmálaráðuneyti“ í 2. mgr. 41. gr. komi: valdsmann.

25. gr.

    1. mgr. 42. gr. (verður 44. gr.) orðist svo:
    Foreldrar geta falið öðrum barn sitt til umönnunar og uppeldis (fósturs) að nokkru eða öllu, sbr. og 35. gr. laga nr. 53/1966. Þeir geta þó hvenær sem er fengið barnið til sín að nýju, nema almannavald telji barninu fyrir bestu að ráðstöfun haldist, sbr. lög nr. 53/1966, 3. mgr. 36. gr. Ákvæði þetta á ekki við um ættleiðingu.

26. gr.

    Í stað „44“, „45“, „49“, „51“, „52“, „53“, „54“ og „55“ í 2. mgr. 56. gr. (verður 58. gr.) komi: 46, 47, 51, 53, 54, 55, 56 og 57.

27. gr.

    Í stað „54“ á tveimur stöðum í 2. mgr. 58. gr. (verður 60. gr.) komi: 56.

28. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 1991.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi ákvæði 47., 48. og 53. gr. laga um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60 29. maí 1972.
    Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella ákvæði þeirra, svo og ákvæði laga nr. 44 24. júní 1985, inn í meginmál barnalaga, nr. 9 15. apríl 1981, og gefa þau út svo breytt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sifjalaganefnd samdi að meginstefnu til frumvarp það sem hér er flutt. Í henni áttu þá sæti dr. Ármann Snævarr, fyrrverandi hæstaréttardómari, formaður, Auður Auðuns, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri og Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari. Ritari nefndarinnar var Drífa Pálsdóttir deildarstjóri. Frumvarp sifjalaganefndar var upphaflega lagt fram á Alþingi 1987, en hlaut ekki afgreiðslu þá.
    Nokkrar veigamiklar breytingar er að finna í þessu frumvarpi frá því sem var í hinu upphaflega frumvarpi sifjalaganefndar 1987. Hafa breytingar þessar verið gerðar í dómsmálaráðuneytinu í samráði við sifjalaganefnd.
    Í fyrsta lagi eru ákvæði fyrra frumvarpsins um sameiginlega forsjá ekki í þessu frumvarpi. Áður en lagt verður fram frumvarp um sameiginlega forsjá þykir rétt að aflað verði ítarlegra gagna frá grannríkjunum um framkvæmd þessa réttarúrræðis. Einkum þykir nauðsynlegt að afla upplýsinga frá Danmörku þar sem ákvæði frumvarpsins frá 1987 um sameiginlega forsjá voru að meginstefnu byggð á þeim grunni sem dönsk lagaákvæði um þetta efni eru reist á. Þykir eðlilegt að greiða fyrir öðrum breytingum sem nauðsynlegar þykja á barnalögunum með því að leggja frumvarpið fram í þessari mynd.
    Í öðru lagi eru felld brott, að svo stöddu, ákvæði fyrra frumvarpsins um umsagnarhlutverk Barnaverndarráðs Íslands varðandi forsjárdeilumál. Með þessu er þó í engu lagt til að umsagnarhlutverki ráðsins verði breytt frá því sem verið hefur.
    Í þriðja lagi er þau nýmæli að finna í þessu frumvarpi, sem ekki voru í hinu fyrra, að lagt er til að reglum um úrlausn ágreiningsmála varðandi umgengni barns og forsjárlauss foreldris verði breytt frá því sem nú er samkvæmt gildandi barnalögum. Lagt er til að ágreiningsmál varðandi þessi efni sæti úrlausn valdsmanns í fyrstu atrennu, en ekki dómsmálaráðuneytisins eins og nú er, sbr. 40. gr. barnalaga, og að heimilt verði að skjóta úrlausn valdsmanns til dómsmálaráðuneytisins. Ef frumvarp þetta verður að lögum mun það flýta framkvæmd þeirra breytinga á stjórnsýslu ríkisins í héraði, að þessu leyti, sem fyrirhugaðar eru við aðskilnað framkvæmdarvalds og dómsvalds 1. júlí 1992, sbr. lög nr. 92/1989.
    Frumvarpið felur í sér, eins og fyrr sagði, ýmsar breytingar á barnalögunum. Byggt er á reynslu þeirri sem fengist hefur undanfarin ár. Í flestum tilvikum er verið að færa orðalag til betri vegar, skýra atriði er óljós þykja og samræma lögin innbyrðis og annarri löggjöf á þessu sviði, einkum lögum um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972. Lögin ættu með breytingum þeim er frumvarpið felur í sér að verða aðgengilegri jafnt lærðum sem leikum, auk þess að fela í sér réttarbætur þær sem greint hefur verið frá.
    Hér á eftir fara athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Þar sem mælt er fyrir um endurútgáfu laganna eru tilvitnanir í ákvæði barnalaga miðaðar við væntanlega endurútgáfu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Töluröð greina í barnalögum breytist, sbr. 19. gr. frumvarpsins, og þarf því að breyta tilvitnun til samræmis.

Um 2. gr.


    1. mgr. er breytt þannig að skriflega yfirlýsingu barnsföður þarf til þegar faðernisviðurkenning er gefin fyrir presti eða valdsmanni. Vafi hefur þótt leika á, í einstaka tilvikum, hvort faðernisviðurkenning hafi átt sér stað skv. 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. Þykir því tryggilegra að slík viðurkenning sé gerð skriflega, m.a. vegna sönnunar. Er það og í samræmi við norrænan rétt. Er þetta viðbót við upphaflegt frumvarp sifjalaganefndar.
    Leiðrétt er prentvilla sem varð í lokatexta barnalaga í 3. mgr. 8. gr.

Um 3. gr.


    Þetta ákvæði er orðað hér til að taka af hugsanlegan vafa, en rétt þykir að mál, þar sem reynt er að fella úr gildi viðurkenningu á barnsfaðerni, hlíti í megindráttum sömu reglum og barnsfaðernismál, enda eru þessi mál samtengd á ýmsa vegu.

Um 4. gr.


    Breytt er tilvitnun til greinatölu í lögunum til samræmis við frumvarpið.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að setja því skorður hversu langt aftur í tímann framlög skv. 1. mgr. 15. gr. barnalaga verði ákvörðuð. Er mikilvægt að stuðla að því að kröfur um framfærslueyri komi fram hið fyrsta. Þykir sex mánaða frestur hæfilegur tími, m.a. vegna hagsmuna hins framfærsluskylda. Er tími sá, sem úrskurða má aftur í tímann samkvæmt grein þessari, styttur frá því sem var í fyrra frumvarpi.

Um 6. gr.


    Orðinu nafnnúmer er breytt í kennitölu í samræmi við hið nýja kerfi Hagstofunnar um tölugreiningu manna.

Um 7. gr.


    Vafi hefur leikið á um það hver eigi aðild að kröfugerð skv. 1. mgr. 17. gr. að því er varðar framlög til menntunar eða starfsþjálfunar. Ætlunin var að það væri ungmenni það, sem í hlut ætti, er kröfuna gerði, og er hér lagt til að þetta verði lögfest. Ef unglingurinn er sviptur fjárræði gerir lögráðamaður kröfuna. Kröfu gagnvart Tryggingastofnun getur viðkomandi ungmenni haft uppi, svo sem lagt er til í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Lagt er til að sömu tímafrestir gildi um kröfur samkvæmt þessari grein, eins og um kröfur skv. 15. gr., og er það viðbót við frumvarp sifjalaganefndar.

Um 8. gr.


    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 20. gr. barnalaga verði orðað með þessum hætti til að leggja áherslu á að sérstakar ástæður þurfi að koma til svo ákvörðun um eindagaðan framfærslueyri verði breytt. Verður valdsmaður að meta hverju sinni hvort hann telur slíkar ástæður vera fyrir hendi. Ekki er mælt fyrir um hve langt aftur í tímann breyta má ákvörðun um framfærslueyri, heldur metur valdsmaður það. Ætla má að í flestum tilvikum verði stuðst við meginreglu barnalaga um sex mánaða afturvirkni. Þetta ákvæði var ekki í upphaflegu frumvarpi sifjalaganefndar.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að sömu tímaskorður verði lögmæltar um kröfu skv. 22. gr. laganna sem skv. 2. mgr. 20. gr.

Um 10. gr.


    Í a-lið er breytt tilvitnun til lögræðislaga, en lög nr. 68/1984 tóku gildi eftir að barnalög voru sett. Í þeim er vitnað til eldri lögræðislaga.
    Í sambandi við 2. mgr. 23. gr. barnalaga geta risið vandamál um unglinga 16 og 17 ára gamla þegar svo hagar til að unglingur flyst frá því foreldri er hann dvaldist hjá allt til 16 ára aldurs og til hins foreldrisins. Hið síðarnefnda getur þá krafist þess að skylda þess til greiðslu meðlags sé niður felld. Ef þetta foreldri óskar þess að meðlagsúrskurður sé kveðinn upp á hendur hinu foreldri, sem unglingurinn dvaldist áður hjá, þá tekur orðalag 2. mgr. 23. gr. ekki beint til þess því að það einskorðar sig við tímabilið fram til þess að forsjárskyldu lauk (það er uns barn verður sjálfráða, 16 ára). Þessi heimild felst að vísu í 1. mgr. 15. gr. barnalaga. Gleggra þykir að geta þess sérstaklega í 2. mgr. 23. gr. Er hér bætt við í frumvarpið á eftir orðunum „er forsjárskyldu lauk“ orðunum „eða hafi síðar innt af hendi framfærsluframlag vegna ungmennis allt til þess aldurs, er greinir í 1. mgr. 17. gr.“, þ.e. til 18 ára aldurs. Með þessu orðalagi er ætlandi að vafa sé eytt sem hér kynni að vakna.

Um 11. gr.


    Rétt þykir að fella undir 24. gr. slit á óvígðri sambúð, enda eðlilegt að sömu reglur gildi að þessu leyti. Þetta ákvæði er viðbót við frumvarp sifjalaganefndar.

Um 12. gr.


    Hér er lagt til að úrskurðuð framlög skv. 17. gr. barnalaga verði lögtakskræf, svo sem er um ýmis önnur úrskurðuð framlög samkvæmt barnalögum.

Um 13. gr.


    Í 29. gr. barnalaga er allvíða vísað til einstakra ákvæða í lögum um almannatryggingar. Vegna tíðra breytinga á þeim lögum verða slíkar tilvitnanir oft úreltar. Hér er lagt til að ekki verði yfirleitt vísað til einstakra ákvæða almannatryggingalaga, heldur laganna í heild sinni.
    Ákvæði 3. mgr. 29. gr. var bætt við greinina með lögum nr. 44/1985. Ákvæðið er einskorðað við það tilvik er því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því, t.d. vegna fjárhagsörðugleika. Nú ber við að í erlendum meðlagsúrskurðum sé því að vísu ekki hafnað að gera meðlagsskyldum að greiða nokkurt meðlag, en fjárhæð þess er lægri en nemur barnalífeyri almannatrygginga. Í 3. mgr. 11. gr. er lagt til, að einnig í því tilviki geti valdsmaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldra á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Er þetta nauðsynleg viðbót. Að öðru leyti felst ekki efnisbreyting í þessari málsgrein.

Um 14. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að sams konar breyting verði gerð, að því er varðar tilvísun til almannatryggingalaga, eins og greinir í athugasemd við 13. gr.
    Í 2. mgr. er einnig um hið sama að ræða, en þar er enn fremur ákvæði um aðgang að Tryggingastofnun ríkisins vegna úrskurðaðra framlaga skv. 17. gr. barnalaga, sbr. og 7. gr. frumvarpsins. Um kröfur með stoð í 17. gr. vísast sérstaklega til laga nr. 23/1987.
    Í 3. mgr. er lagt til að þargreind reglugerð verði sett af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Um 15. gr.


    Í þessari grein er tilvitnun til lögræðislaga færð til samræmis við nýju lögræðislögin, nr. 68/1984.

Um 16. gr.


    Grein þessi er til samræmis við reglurnar um forsjá í 18.–20. gr. frumvarpsins, er verða 38.–40. gr. laganna.

Um 17. gr.


    Hér er leiðrétt prentvilla í 3. mgr. 37. gr. barnalaga.

Um 18. gr.


    Ákvæði 38. gr. núgildandi barnalaga eru umorðuð í því skyni að gera þau skýrari. Þó eru 1., 2. og 3. mgr. 38. gr. óbreyttar efnislega.
    Í 3. mgr. er sú breyting á gerð að mælt er fyrir um úrlausnarvald dómstóla, þegar svo háttar til að skilnaðar er krafist fyrir dómi. Er það í samræmi við ákvæði laga nr. 60/1972.
    Í 5. mgr. er mælt fyrir um að ákvörðun ráðuneytisins skuli vera skrifleg og rökstudd. Rökstuðningur í úrskurðum ráðuneytisins um forsjá er lögfesting á þeirri framkvæmd sem ráðuneytið hefur tekið upp í málum varðandi forsjá barna í samræmi við álit Umboðsmanns Alþingis um tiltekið forsjármál. Ætti lögfesting þessa að fela í sér aukið réttaröryggi og vandaðri málsmeðferð, auk þess sem rökstuðningur forsjárákvörðunar auðveldar meðferð máls ef fram koma kröfur um breytingu á fyrri ákvörðun.
    Í 6. mgr. er að finna nýmæli. Lagt er til að lögmæltur sé réttur barns, sem náð hefur tólf ára aldri, til þess að tjá sig um ágreiningsmál varðandi forsjá þess áður en úrskurður gengur. Þykir eðlilegt að lögfesta rétt barna, sem náð hafa nokkrum þroska, til að fá að lýsa skoðun sinni og vilja, enda varðar úrlausn ágreinings um forsjá fyrst og fremst hagsmuni þeirra. Þykir tólf ára aldur hæfileg viðmiðun í þessu sambandi, sbr. hér til hliðsjónar 6. gr. ættleiðingarlaga, nr. 15/1978. Lagt er til að gera megi á þessu undantekningar ef sýnt þykir að umsögn barns sé þýðingarlaus við úrlausn máls eða slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barn. Þykir eðlilegt að slá þennan varnagla vegna hagsmuna barns. Með tólf ára aldursmörkunum er í engu mælt með breytingu á þeirri framkvæmd forsjármála að könnuð sé afstaða yngri barna þegar nauðsyn þykir bera til þess. Er slíkt yfirleitt gert með óbeinum hætti, t.d. með tengslaprófum sem sálfræðingar leggja fyrir börn. Gert er ráð fyrir að viðtöl við börn samkvæmt þessari grein fari yfirleitt fram á vegum barnaverndarnefnda við könnun forsjármáls og verði eftir atvikum tekin af starfsmönnum nefndanna. Rétt er að geta þess að í sáttmála hinna Sameinuðu þjóða um réttindi barnsins er kveðið á um rétt barna til að tjá sig áður en ákvörðun er tekin um málefni sem varðar hagsmuni þeirra. Sáttmáli þessi hefur verið undirritaður af hálfu Íslands og mun væntanlega verða fullgiltur síðar.
    Ákvæði 5. og 6. mgr. voru ekki í fyrra frumvarpi sifjalaganefndar. Auk þess er orðalagi greinarinnar breytt sökum þess að ákvæði um sameiginlega forsjá eru felld niður í þessu frumvarpi eins og fyrr greinir.

Um 19. gr.


    Greininni er breytt frá upphaflegu frumvarpi sifjalaganefndar, vegna ákvæða í frumvarpi nefndarinnar um sameiginlega forsjá sem felld eru niður hér. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 20. gr.


    Lagt er til að samningar foreldra um forsjá barna skuli staðfestir af valdsmanni til að þeir öðlist gildi. Þykir eðlilegt að sömu reglur gildi að þessu leyti um þessar mikilsverðu ákvarðanir og um samninga foreldra um meðlagsgreiðslur með börnum. Þetta leiðir til þess að foreldrar verða að bera samninginn undir valdsmann sem þá getur metið hann samkvæmt því sem mælt er fyrir um í niðurlagi 1. málsl. 1. mgr. Gert er ráð fyrir að úrlausn valdsmanns megi skjóta til dómsmálaráðuneytisins innan fjögurra vikna frá dagsetningu hennar. Þykir rétt að hafa kærufrest skamman til að tryggja að festa komist á um forsjá barns hið fyrsta.

Um 21. gr.


    Töluröð greina er breytt til samræmis við nýja greinaskipan samkvæmt frumvarpi þessu.

Um 22. gr.


    Grein þessi er sama efnis og 1. mgr. 39. gr. barnalaga, en orðalagi er breytt.
    Greininni er breytt frá því sem var í frumvarpi sifjalaganefndar 1987 þannig að ákvæði hennar um sameiginlega forsjá eru felld brott.

Um 23. gr.


    Þeim breytingum, sem mælt er fyrir um hér, varðandi flutning ágreiningsmála samkvæmt barnalögum um umgengni barns og forsjárlauss foreldris frá ráðuneyti til valdsmanna er ætlað að hafa aukið réttarhagræði í för með sér. Þær fela það í sér að úrlausn mála þessara færist heim í hérað. Ætti þetta að leiða til aukins hagræðis fyrir þá aðila sem deila um umgengni þar sem þeir geta leitað til valdsmanns í umdæmi því sem þeir eru búsettir í.
    Lagt er til að úrlausn mála þessara verði í því umdæmi sem barn býr í, en sú regla er skýr og barni hagfelld.
    Sáttaumleitanir í umgengnismálum verða vafalítið auðveldari og vænlegri til árangurs, einkum í þeim málum þar sem aðilar eru búsettir á landsbyggðinni, en slík mál hafa iðulega verið rekin skriflega sökum fjarlægðar frá Reykjavík.
    Flutningur þessara mála til valdsmanna leiðir auk þess til meira samræmis í barnalögum því samkvæmt þeim lúta flest önnur ágreiningsefni á því sviði, er þau taka til, úrlausn þeirra, ef undan er skilinn ágreiningur um forsjá.
    Með þessari breytingu er unnt að fjalla um umgengnismál á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins, svo sem gildandi barnalög gera ráð fyrir.
    Enn skal bent á að mál þessi hefðu færst til sýslumanna við aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds árið 1992 og er því í raun verið að flýta þeirri breytingu. Flutningur þeirra nú hefur þann kost í för með sér, auk þeirra er að framan greinir, að nauðsynleg reynsla og þjálfun verður til staðar þegar aðskilnaður gengur í garð.
    Gert er ráð fyrir að málsaðilar geti skotið úrlausn valdsmanns til dómsmálaráðuneytisins. Felur það í sér réttaröryggi fyrir aðila og stuðlar að samræmi í réttarframkvæmdinni, auk þess að veita úrlausnaraðila aðhald.

Um 24. gr.


    Hér er lagt til að efni 1. mgr. 41. gr. barnalaga verði nokkuð rýmkað. Jafnaðarlega myndi ráðuneytið eigi hefjast handa í þessu efni, nema krafa annars foreldris kæmi fram, en þó getur verið þörf á frumkvæði ráðuneytisins. Er ákvæðið við það miðað.     
    Mælt er fyrir um vald dómstóls til að kveða á um kyrrsetningu barns þegar svo háttar til að mál er þar til úrlausnar og er þar um breytingu frá fyrra frumvarpi sifjalaganefndar að ræða.
    Í samræmi við ákvæði 23. gr. frumvarpsins um flutning umgengnismála til valdsmanna þykir eðlilegt að valdsmaður fjalli einnig um kröfur um kyrrsetningu barns samkvæmt þessari grein, sem ráðuneytið hefur nú með höndum, samkvæmt gildandi barnalögum.

Um 25. gr.


    Rétt þykir að breyta orðalagi ákvæðis 1. mgr. 42. gr. þannig að það sé hlutlaust gagnvart þeirri spurningu hvort foreldrar hafi forsjá barns eftir að þeir hafa ráðstafað því til umönnunar og uppeldis til annarra (oftast fósturforeldra). Í reynd hlýtur forsjá barns að verða að verulegu leyti í höndum þess eða þeirra sem annast uppeldi þess (fósturforeldra). Þetta þarf þó ekki að fela í sér að með slíkri ráðstöfun foreldra séu þeir sviptir hinni lagalegu forsjá barnsins, eins og e.t.v. mætti túlka 1. mgr. 42. gr. Ljóst er að ýmsar lagaheimildir, þar á meðal 2. mgr. 42. gr. standa til þess að svipta foreldra forsjá barnsins.

Um 26. og 27. gr.


    Breytt er tilvitnun til greinatölu í lögunum til samræmis við frumvarpið.

Um 28. gr.


    Lagt er til að frumvarpið öðlist lagagildi 1. janúar 1991. Gefst þá nokkur tími til undirbúnings fyrir þær breytingar, sem frumvarpið mælir fyrir um, einkum varðandi flutning umgengnismála til valdsmanna.
    Þá er lagt til að 47., 48. og 53. gr. laga nr. 60/1972 verði felldar úr gildi, en þær varða skipan forsjármála o.fl. við skilnað. Er ekki sýnilegt, að þessi ákvæði hafi sjálfstætt lagagildi eftir að barnalög hafa mælt fyrir um þessi efni. Lagaskilin verða skýrari ef ákvæði þessi eru numin úr lögum.
    Mælt er fyrir um endurútgáfu barnalaga þar sem ákvæði frumvarps þessa, ef lögleidd verða, munu felld inn í texta barnalaganna. Er texti frumvarpsins miðaður við þetta.