Ferill 557. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 557 . mál.


Sþ.

957. Tillaga til þingsályktunar



um byggingu nýrrar áburðarverksmiðju.

Flm.: Egill Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefjast þegar í stað handa um undirbúning að byggingu áburðarverksmiðju í stað þeirrar sem starfrækt er í Gufunesi.
    Verksmiðjunni verði valinn staður á landsbyggðinni þar sem unnt er að koma við ítrasta öryggi, sérstaklega með tilliti til hugsanlegra náttúruhamfara.

Greinargerð.


    Í annað sinn á tveimur árum fer nú fram í þjóðfélaginu allvíðtæk umræða um áburðarverksmiðjuna í Gufunesi vegna áhrifa hennar á næsta umhverfi ef óhapp ber að höndum vegna bilunar í rekstri hennar. Í fyrra sinnið var áhættan metin á grundvelli þess að innihald geymisins, ammoníakið, verður að geyma undir miklum þrýstingi. Ef ammoníak, sem þannig er geymt, kemst í umtalsverðum mæli út í andrúmsloftið hlýst af hvellsuða, ammoníakmengað ský myndast sem er lífshættulegt þeim er fyrir verða.
    Eftir ítarlega umfjöllun og að höfðu víðtæku samráði var ákveðið að byggja nýjan ammoníaksgeymi sem að styrkleika stæðist fyllstu öryggiskröfur. Hann yrði tvöfaldur og einangraður og búnaður hans þannig gerður að kleift yrði að geyma ammoníak við hátt hitastig svo ekki hlytist af hætta þótt það bærist út í andrúmsloftið. Til enn frekara öryggis yrði byggð þró umhverfis geyminn til að taka við innihaldinu ef óhapp yrði.
    Sú umræða, sem nú fer fram um Áburðarverksmiðju ríkisins, er á margan hátt ólík hinni fyrri, enda tilefnið að eldur varð laus við dælingu ammoníaks á gamla geyminn, algerlega óvænt, og enn hafa ekki fengist skýringar á hvað óhappinu olli. Þess vegna m.a. virðast þær tillögur, sem lúta að stöðvun á rekstri áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, eiga verulegan hljómgrunn, m.a. hjá yfirvöldum Reykjavíkurborgar sem rekstur þessi heyrir aðallega undir. Af því sem að framan er greint hlýtur sú spurning að vera áleitin hver sé framtíð áburðarframleiðslu hér á landi.
    Í fylgiskjali I eru birtar helstu niðurstöður nefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði árið 1986 til að kanna hagkvæmni áburðarframleiðslu hér á landi. Niðurstöður nefndarinnar sýna ótvírætt að framleiðsla áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sé að verði til samkeppnishæf við innfluttan áburð. Frá því að þessi niðurstaða fékkst hefur rekstur Áburðarverksmiðju ríkisins haldið áfram að batna. Mikil hagræðing hefur átt sér stað sem leitt hefur til fækkunar starfsmanna í verksmiðjunni. Nýjungar í tækni hafa verið teknar upp, m.a. við stjórn á framleiðslunni og pökkun og frágang áburðarins, en með þeim breytingum er rýrnun á framleiðslu verksmiðjunnar úr sögunni. Með samningum við kaupendur, sem m.a. byggjast á ákvörðun viðskiptabanka, hefur áburðarverksmiðjan tryggingar fyrir skilvísum greiðslum, enda eru afföll vegna greiðsluerfiðleika viðskiptaaðila nánast úr sögunni. Þetta mikilvæga hagræðingarstarf ber að þakka þeim sem hafa forustu fyrir daglegum rekstri áburðarverksmiðjunnar og traustum starfsmönnum sem margir hverjir eiga langan starfsferil að baki. Raunar væri ástæða til að íhuga hvort þá reynslu, sem fengin er við endurskipulagningu verksmiðjunnar í Gufunesi, sé ekki unnt að nýta til eftirbreytni fyrir önnur fyrirtæki í hliðstæðum rekstri.
    Um þjóðhagslegt gildi áburðarframleiðslu í landinu þarf ekki að fara mörgum orðum. Þótt auðlindir Íslendinga til lands og sjávar, sem afkoma, og raunar tilvera þjóðarinnar, byggist á, séu miklar eru þeim þó takmörk sett eins og best sést á minnkandi afrakstri fiskimiðanna. Þess vegna hefur sérstaklega verið horft til þeirra auðlinda sem felast í orku landsins, fallvötnum til orkuframleiðslu og heitu vatni. Sú framleiðsla, sem þannig nýtir innlendar auðlindir, er þáttur í lífsafkomu þjóðarinnar. Gott dæmi í þessum efnum er starfsemi áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem grundvallar rekstur sinn á innlendum aðföngum. Nánar vísast um þessi efni í fylgiskjal II.
    Þegar áburðarverksmiðjan í Gufunesi var reist var eftir því leitað af yfirvöldum Reykjavíkur að hún yrði innan borgarmarkanna, enda voru viðbrögð borgarinnar mjög í þá veru að auðvelda uppbyggingu þessa nýja fyrirtækis. Þannig var verksmiðjunni látin í té góð hafnaraðstaða og mikið landrými á góðum leigukjörum.
    Þær aðstæður, sem nú hafa skapast vegna afstöðu borgaryfirvalda um að áburðarframleiðslu í Reykjavík verði hætt, eiga rætur í breyttum þjóðlífsháttum. Byggðin í landinu er að breytast. Fólkið yfirgefur landsbyggðina í vaxandi mæli en byggðin í Reykjavík vex að bæjarveggnum í Gufunesi. Hér hefur þjóðin því orðið vitni að harðri en hollri áminningu um hættur sem verða til við tilfærslu á byggð í landinu. Þetta verða menn að hafa í huga við staðsetningu á orku- og iðjuverum.
    Í athyglisverðri grein eftir dr. Sigurð Þórarinsson jarðfræðing sem birtist í ritverkinu Saga Íslands I kemst höfundur m.a. að þeirri niðurstöðu að dreifð byggð í landinu hafi verið von þjóðarinnar í baráttunni við lífshættuleg náttúruöfl, eldgos og jarðskjálfta. Þessi ritsmíð er birt í fylgiskjali III. Við þá þjóðfélagsumræðu,sem nú fer fram, á boðskapur þessarar greinar sérstakt erindi til íslensku þjóðarinnar því að í henni felst viðvörun um þann háska sem felst í að þjappa byggðinni saman. Það er nauðsynlegt að menn átti sig á þessu áður en náttúruhamfarir, t.d. af völdum jarðskjálfta, sannfæra menn um þá niðurstöðu.



Fylgiskjal I.


Úr skýrslu nefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði til að kanna hagkvæmni


í rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins.


(9. júní 1988.)



    Í ársbyrjun 1988 lagði starfshópur, sem þáverandi félagsmálaráðherra skipaði árið 1986, fram tillögur um úrlausn vandamála vegna ammoníaksgeymis Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Í skýrslu nefndarinnar er fjallað um möguleika á skyndilegum leka í ammoníaksgeymi áburðarverksmiðjunnar og alvarlegum afleiðingum þess. Ríkisstjórnin ákvað að grípa þegar í stað til fyrirbyggjandi ráðstafana, m.a. að byggja nýjan og öruggari geymi.
    Jafnframt ákvað ríkisstjórnin að láta fara fram úttekt á hagkvæmni í rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins með hliðsjón af því hvort rétt þyki að halda starfrækslu verksmiðjunnar áfram og jafnframt kanna möguleika á nýrri staðsetningu verksmiðjunnar. Með bréfi dags. 22. mars sl. skipaði landbúnaðarráðherra nefnd til að gera þá úttekt. Í nefndina voru skipaðir: Gunnlaugur M. Sigmundsson viðskiptafræðingur, sem var skipaður formaður nefndarinnar, dr. Vilhjálmur Egilsson hagfræðingur og Kristinn Ó. Magnússon verkfræðingur. Starfsmaður nefndarinnar var Halldór Árnason, skrifstofustjóri í Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Nefndin hélt alls 16 fundi. Nefndin aflaði gagna og ræddi við ýmsa aðila sem rekstur áburðarverksmiðjunnar varðar. Á fund nefndarinnar komu m.a. stjórnendur og fulltrúi starfsfólks verksmiðjunnar, fulltrúi frá Reykjavíkurborg, fulltrúar frá Landsvirkjun og forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, en hann var formaður þess starfshóps félagsmálaráðherra sem að ofan er getið.
    Hér á eftir fylgja helstu niðurstöður nefndarinnar.
—     Áætluð eftirspurn eftir framleiðslu Áburðarverksmiðju ríkisins er um 50 þús. tonn af áburði á ári. Miðað við núverandi söluverð á áburði og fyrirsjáanlegan framleiðslukostnað er framlag til afskrifta og vaxta áætlað um 16,2% af sölutekjum, eða um 115 m.kr. á ári. Þessi upphæð nægir til þess að standa undir fyrirsjáanlegri endurnýjun á verksmiðjunni, greiðslu vaxta auk þess sem unnt er að lækka nokkuð núverandi skuldir. Framlag til vaxta og afskrifta er háð verði á áburði og framleiðslukostnaði, þar með taldri gengisþróun, hráefnisverði og raforkuverði. Lækki framlagið sem einhverju nemur mun verksmiðjan safna skuldum.
—     Meginniðurstaða nefndarinnar varðandi samanburð á innflutningi og innlendri framleiðslu er sú að ekki sé hægt að staðfesta að innfluttur áburður sé ódýrari en innlend framleiðsla.
—     Þegar reistur hefur verið nýr og öruggari ammoníaksgeymir er talið að Áburðarverksmiðja ríkisins fullnægi í aðalatriðum öllum öryggiskröfum sem gerðar eru til hennar, en þær eru strangar. Því er af öryggisástæðum ekkert því til fyrirstöðu að athafnasvæði nái alveg að lóð verksmiðjunnar.
—     Eigi að reisa verksmiðjuna á öðrum stað kostar það mun meiri fjárfestingar en nemur endurnýjunarfjárfestingum í núverandi verksmiðju og niðurgreiðslu þeirra lána sem á henni hvíla. Ekki er sjáanlegt að rekstrarkostnaður yrði minni á nýjum stað.



Fylgiskjal II.


Lausleg athugun á framleiðsluverðmæti, raforkukaupum


og vinnuaflsnotkun hjá Áburðarverksmiðju ríkisins, upphæðir í þús kr.


(17. apríl 1990.)



    Framleiðsluverðmæti 1990 ..........................         1.144.000
    Framleiðsluverðmæti 1955–1990 (verðlag 1990) .....         27.005.418
    Raforkukaup 1990 (áætluð) .........................         96.000
    Raforkukaup 1955–1990 (verðlag 1990) .............         2.903.830

    Fjöldi ársverka 1989:147




Fylgiskjal III.


Sigurður Þórarinsson:


Sambúð lands og lýðs í ellefu aldir.


Jarðskjálfti.


(Úr Sögu Íslands, 1. bindi, bls. 84–88. Rvík. 1974.)






(Texti er ekki til tölvutækur.)