Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 363 . mál.


Nd.

958. Nefndarálit



um frv. til l. um Listskreytingasjóð ríkisins.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og borist um það umsagnir frá borgarstjóranum í Reykjavík, stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins og Listasafni Íslands. Umsagnir þeirra tveggja fyrst nefndu eru birtar sem fylgiskjöl með áliti þessu.
    Um leið og nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins vill hún leggja á það áherslu að hún telur mikilvægt að lögbundin framlög til sjóðsins séu ekki skert í fjárlögum.
    Árni Gunnarsson var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. apríl 1990.



Ragnar Arnalds,


form., frsm.


Birgir Ísl. Gunnarsson,


fundaskr.


Guðmundur G. Þórarinsson.


Ragnhildur Helgadóttir.


Pétur Bjarnason.


Þórhildur Þorleifsdóttir.






Fylgiskjal I.


Bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, Davíð Oddssyni,


til menntamálanefndar neðri deildar Alþingis.


(4. apríl 1990.)



    Á fundi borgarráðs í gær var lögð fram umsögn framkvæmdastjóra lögfræði- og stjórnsýsludeildar frá 2. þ.m. um frumvarp um Listskreytingasjóð ríkisins.
    Borgarráð samþykkti umsögnina sem fylgir í ljósriti.


Umsögn til borgarráðs frá Hjörleifi B. Kvaran,


lögfræði- og stjórnsýsludeild Reykjavíkurborgar,


(2. apríl 1990.)



    Óskað hefur verið umsagnar minnar um frumvarp til laga um Listskreytingasjóð ríkisins, sem menntamálanefnd neðri deildar Alþingis sendi borgarstjórn til umsagnar með bréfi dags. 22. mars sl.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að listskreytingar komi einungis til þegar um er að ræða byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að öllu leyti eða nokkru.
    Vakin skal athygli á að með lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem samþykkt voru á síðasta ári urðu verulegar breytingar á þátttöku ríkisins í stofnkostnaði bygginga á vegum sveitarfélaga. Ríkissjóður tekur t.d. ekki lengur þátt í kostnaði við byggingu grunnskóla eða dagvistarheimila.
    Samkvæmt 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að þegar um er að ræða byggingar sem sveitarfélög standa að ásamt ríkinu geti stjórn Listskreytingasjóðs bundið framlag úr sjóðnum skilyrði um mótframlag úr viðkomandi sveitarsjóði. Í þeim tilvikum sem ríki og sveitarfélög standa saman
að byggingarframkvæmdum er kostnaðarskiptingin lögbundin og því er þeirri athugasemd komið á framfæri að komi til þess að sveitarfélög verði krafin um mótframlag þá verði það að hámarki bundið við kostnaðarhlutdeild sveitarfélagsins í stofnkostnaði viðkomandi byggingar.
    Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið.



Fylgiskjal II.


Umsögn Árna Gunnarssonar í stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins


send menntamálanefnd neðri deildar Alþingis.


(4. apríl 1990.)



    Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins hefur borist bréf menntamálanefndar neðri deildar Alþingis, dags. 22. mars, þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um Listskreytingasjóð ríkisins, 363. mál.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er það reist á tillögum fyrrverandi stjórnar Listskreytingasjóðs sem menntamálaráðuneytið fól að vinna að endurskoðun gildandi laga um sjóðinn, nr. 34/1982, sbr. ákvæði til bráðabirgða í þeim lögum. Frumvarpið felur ekki í sér stórfelldar breytingar frá gildandi lögum, en núverandi sjóðstjórn telur fyrir sitt leyti að þau nýmæli, sem um er að ræða, séu til bóta.
    Það sem fyrst og fremst hefur háð starfi Listskreytingasjóðs ríkisins þau ár, sem liðin eru frá stofnun hans, er að ekki hefur verið staðið við ákvæði laganna um framlög til sjóðsins í fjárlögum ár hvert. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir efnislegum breytingum á þessum ákvæðum, sem verða að teljast hófsamleg að því er varðar kröfur til ríkissjóðs. Að meginstefnu má segja að í þeim felist sú viðmiðun að unnt sé að verja til listskreytingar byggingar sem svarar einum hundraðshluta af stofnkostnaðarframlagi ríkisins að jafnaði. Mundi það þó augljóslega duga skammt til viðamikilla verkefna í mörgum tilvikum. Miðað við fjárlagameðferð á sjóðnum hingað til mundi það hins vegar reynast
honum veruleg lyftistöng ef tekinn yrði upp sá háttur að láta hann njóta lögboðinna framlaga óskertra. Sem dæmi um þá fjárþörf sem sjóðurinn þarf að bregðast við má nefna tvær einstakar umsóknir sem nú liggja fyrir, önnur um 8,7 m.kr. en hin um 4,4 m.kr. Fjárveiting til sjóðsins á þessu ári er hins vegar einungis 10 m.kr.
    Rétt er að vekja athygli á því að í lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er gert ráð fyrir að stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum án þátttöku ríkissjóðs. Engu að síður segir í 36. gr. laganna að um listskreytingu skólamannvirkja fari „eftir lögum nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins“. Örðugt er að gera sér grein fyrir hvernig framkvæma beri þetta ákvæði að því er varðar grunnskólabyggingar sem reistar verða eftir gildistöku verkaskiptingarlaganna og þar með án þátttöku ríkissjóðs, þar sem lögin um Listskreytingasjóð gera ótvírætt ráð fyrir að framlag úr sjóðnum sé háð því að ríkið hafi lagt fé til hlutaðeigandi byggingar. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að búið verði í haginn fyrir listskreytingu grunnskólahúsa ekki síður en annarra skólabygginga, en eigi að leggja skyldur á Listskreytingasjóð ríkisins í því efni þarf augljóslega að finna leið til að hann fái framlög í því skyni. Jafnframt þyrfti þá að breyta þeim greinum laganna sem binda starfsemi sjóðsins við byggingar sem ríkið á kostnaðaraðild að.

Virðingarfyllst,


Árni Gunnarsson,


f.h. stjórnar Listskreytingasjóðs ríkisins.