Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 566 . mál.


Nd.

1022. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 7 28. febrúar 1990, um ráðstafanir vegna kjarasamninga.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Við lög nr. 7/1990 bætist nýr kafli og ný grein, er verður VIII. kafli (17. gr.) með fyrirsögninni: Áburðarverð, og orðist svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 10. gr. laga um Áburðarverksmiðju ríkisins, nr. 43 16. apríl 1971, og ákvörðun meiri hluta stjórnar verksmiðjunnar frá 18. apríl 1990 skal verð á tilbúnum áburði hækka árið 1990 um 12% frá því verði sem lagt var til grundvallar við ákvörðun verðlagsgrundvallar landbúnaðarins 1. júní 1989.

2. gr.

    VIII. kafli laganna, Gildistaka, verður IX. kafli og 18. gr. verður 19. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá 1. febrúar 1990 gerðu Stéttarsamband bænda, Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna með sér sérstakt samkomulag um landbúnaðarmál. Byggist samkomulag þetta m.a. á því fyrirheiti ríkisstjórnarinnar „að verðhækkun áburðar verði ekki umfram 12% við verðlagningu vorið 1990“, eins og beint kemur fram í 3. tölul. samkomulagsins. Meiri hluti stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins samþykkti hins vegar 18. apríl sl. 18% hækkun áburðarverðs þrátt fyrir ítrekuð tilmæli stjórnvalda um að það hækki ekki meira en 12%. Nái ákvörðun stjórnar verksmiðjunnar um 18% hækkun fram að ganga er raskað forsendum kjarasamninganna frá 1. febrúar 1990 og fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um hækkun áburðarverðs.
    Í 10. gr. laganna um Áburðarverksmiðju ríkisins, nr. 43 16. apríl 1971, er stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins falið ákvörðunarvald um heildsöluverð á framleiddum og innfluttum áburði, að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið. Þar sem slíkt samráð leiddi ekki til samkomulags að þessu sinni og samninganefnd Stéttarsambands bænda hefur sett fram kröfu um að stjórnvöld standi undanbragðalaust við gefin fyrirheit um að áburðarverð hækki ekki meira en 12% þykir nauðsynlegt að standa nú að ákvörðun um hækkun áburðarverðs á þessu ári með þessum hætti.