Ferill 163. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 163 . mál.


Ed.

1052. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað rækilega um þetta frumvarp. Eftirtaldir menn hafa komið á fund nefndarinnar til viðræðna um efni þess: Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri og Dögg Pálsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Logi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landakotsspítala, Ólafur Örn Arnarson, yfirlæknir Landakotsspítala, Magnús Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Borgarspítalans, Páll Gíslason, formaður stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, varaformaður stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, Sigurgeir Sigurðsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, Ólafur Magnússon, formaður Félags sjálfstætt starfandi heimilislækna, Skúli Johnsen borgarlæknir, Sigþrúður Ingimundardóttir, formaður Hjúkrunarfélags Íslands, og Ásta Möller, formaður Félags háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga.
    Nefndinni bárust erindi og umsagnir um frumvarpið frá: borgarlækni, Félagi forstöðumanna sjúkrahúsa, Félagi íslenskra heimilislækna, Félagi sjálfstætt starfandi heimilislækna, Félagi yfirlækna, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Friðriki J. Friðrikssyni héraðslækni, Geðlæknafélagi Íslands, Geðverndarfélagi Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, heilbrigðisráði Reykjavíkurborgar, Stefáni Þórarinssyni héraðslækni, Halldóri Jónssyni héraðslækni, Ísleifi Halldórssyni héraðslækni, Hjúkrunarfélagi Íslands, Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Húsavíkurkaupstað, Jóhanni Ág. Sigurðssyni héraðslækni, landlækni, Landssambandi sjúkrahúsa á Íslandi, Læknafélagi Austurlands, Læknafélagi Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur, læknum á höfuðborgarsvæðinu, nefnd landshlutasamtaka sveitarfélaga um stjórn heilbrigðismála, Ólafi F. Magnússyni lækni, Ólafi H. Oddssyni héraðslækni, ríkisspítölum, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði, St. Jósefsspítalanum Landakoti, starfsmannaráði Borgarspítalans, starfsmannaráði Sjúkrahúss Suðurlands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Frumvarpið var lagt fram á haustþingi og var upphaflega stefnt að afgreiðslu þess fyrir jól. Um það tókst ekki samstaða en eftir veigamiklar breytingar á frumvarpinu náðist að afgreiða málið úr nefndinni. Helstu breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á frumvarpinu, varða skipan heilbrigðismálaráðs, stofnun nýrra heilsugæsluumdæma og breyting á skipan heilsugæslustöðva í Reykjavík. Einnig er gert ráð fyrir því að sjúkraþjálfarar starfi við allar H2-heilsugæslustöðvar og í hverju heilsugæsluumdæmi í Reykjavík og aldraðir verði einnig vistaðir á hjúkrunarheimilum eins og langlegusjúklingar. Bætt er við heimild fyrir heilbrigðisráðherra til að skipa héraðslækni í fullt starf við önnur læknishéruð en þau sem getið er í 3. gr. frumvarpsins. Ný ákvæði eru sett um kostnað við viðhald og tækjakaup heilsugæslustöðva, einnig um stjórnir heilsugæsluumdæma í Reykjavík og sjúkrastofana Reykjavíkur og gert er ráð fyrir að heilbrigðisráðherra geti samið við aðra aðila um rekstur heilbrigðisstofnana.
    Nefndin telur rétt að ágreiningur um valdsvið sérmenntaðs starfsliðs á heilbrigðisstofnunum verði leystur með sama hætti og verið hefur. Nefndin bendir sérstaklega á breytingu á 10. gr. um að þrátt fyrir skiptingu í heilsugæsluumdæmi geti íbúar borgarinnar jafnan valið sér heilsugæslu- eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva. Nefndin tekur skýrt fram að nauðsynlegt sé að þróa heilsugæslukerfið í Reykjavík, en leggur jafnframt áherslu á að réttur sjálfstætt starfandi lækna sé tryggður.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. apríl 1990.



Stefán Guðmundsson,


form., frsm.


Salome Þorkelsdóttir,


fundaskr., með fyrirvara.


Karl Steinar Guðnason.


Guðmundur H. Garðarsson,


með fyrirvara.


Margrét Frímannsdóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.


Guðrún Agnarsdóttir,


með fyrirvara.