Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 525 . mál.


Nd.

1071. Nefndarálit



um frv. til l. um Kvikmyndastofnun Íslands.

Frá 1. minni hl. menntamálanefndar.



    Við athugun nefndarinnar á þessu frumvarpi kom í ljós að það er ótrúleg hrákasmíð. Frumvarpið er morandi í villum og ljóst er að gera þyrfti á því miklar breytingar til að koma viti í málið. Nefndin kallaði á sinn fund fulltrúa Félags kvikmyndagerðarmanna og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Þorstein Jónsson, Þráin Bertelsson og Ara Kristinsson. Fram kom hjá þeim að frumvarp ráðherra væri ekki í samræmi við niðurstöður þeirrar nefndar sem um getur í greinargerð með frumvarpinu. Gerðu þeir miklar athugasemdir við frumvarpið og lögðu fram margar hugmyndir að breytingum. Þá kom á fund nefndarinnar úr úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Gerði hún einnig miklar athugasemdir við frumvarpið og taldi verr af stað farið en heima setið með þetta mál. Taldi hún m.a. fráleita ráðstöfun að skipta úthlutunarnefnd í tvo aðskilda hópa enda væri það fjármagn, sem úthlutunarnefnd hefur til ráðstöfunar, ekki til skiptanna milli tveggja úthlutunarhópa og frumvarpið gerði ekki ráð fyrir auknu fjármagni til kvikmyndagerðar.
    Knútur Hallsson, formaður stjórnar Kvikmyndasjóðs, kom einnig á fund nefndarinnar, gerði athugasemdir við frumvarpið og lagði fram skriflega greinargerð um málið. Allir þessir aðilar voru andvígir meginatriðum í frumvarpi ráðherra. Þá gerðist það, eftir að formaður nefndarinnar hafði tekið málið út úr nefndinni, að á fund hennar kom hópur manna sem hafði sjálfur frumkvæði að því að ræða við nefndina. Það voru þeir Helgi Jónasson og Árni Björnsson, fulltrúar í stjórn Kvikmyndasjóðs þegar sérstaklega er fjallað um málefni Kvikmyndasafns. Með þeim var Guðbrandur Gíslason, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs. Lögðu þeir fram breytingartillögu um þann þátt frumvarpsins sem snertir stjórn Kvikmyndasafns.
    Öll meðferð þessa máls í nefndinni var hroðvirknisleg og lítill tími gafst til að ræða einstök atriði. Var stöðugt rekið á eftir meðferð málsins og gestir nefndarinnar fengu óspart að heyra að þeir fengju lítinn tíma.
    Átelja verður harðlega öll vinnubrögð í þessu máli. Gagnrýna verður ráðherra fyrir að leggja fram illa og hroðvirknislega unnið frumvarp. Enn fremur verður að gagnrýna meiri hl. nefndarinnar fyrir að kasta höndum til afgreiðslu þessa máls. Kvikmyndalistin í landinu á betra skilið.
    Meiri hl. hefur vafalaust af góðum hug reynt að bæta frumvarpið með því að flytja breytingartillögur. Þær eru þó hvergi nærri fullnægjandi og enn eru villur í frumvarpinu. Alvarlegast af öllu er þó að frumvarpið bætir í engu hag kvikmyndalistarinnar í landinu.
    Við undirrituð viljum sýna þessari ungu listgrein fullan sóma og teljum að Alþingi eigi að samþykkja vandað og vel gert frumvarp um kvikmyndagerð. Við teljum það óráð að samþykkja þetta óvandaða frumvarp nú og leggjum til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til nánari athugunar.
    Ef sú tillaga okkar verður ekki samþykkt áskiljum við okkur rétt til að flytja og fylgja breytingartillögum.

Alþingi, 27. apríl 1990.



Birgir Ísl. Gunnarsson,


fundaskr., frsm.


Sólveig Pétursdóttir.