Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 18 . mál.


Sþ.

1080. Svar



ráðherra Hagstofu Íslands við fyrirspurn Hreggviðs Jónssonar um fasteignaskatt á Norðurlöndum.

    Þar sem Hagstofan hefur ekki þau gögn sem nauðsynleg eru til að svara fyrirspurninni var hún send félagsmálaráðuneytinu. Hagstofunni hefur nú borist svar þaðan sem hér fylgir.
    Ráðuneytið leitaði til sendiráða Íslands á Norðurlöndum vegn öflunar upplýsinga um fasteignaskatta í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Jafnframt var stuðst við skýrslu sem unnin var af norrænum starfshóp um skatta- og lánafyrirkomulag húsnæðismála á Norðurlöndum. Skýrslan ber heitið: Bolig, inflation og skat og var gefin út af norrænu ráðherranefndinni árið 1987 (Bolig, inflation og skat. Rapport afgivet af nordisk arbejdsgruppe om realfinansiering og realbeskatning, Nordisk Ministerrad, Nord 1987:40, bls. 151–154).

1.    Er fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð mismunandi eftir eignarformi, þ.e. einkaeign, félagaeign eða opinberri eign?
    Í Danmörku og Noregi skiptir eignarform ekki máli hvað varðar reglur um fasteignaskatta. Í Svíþjóð gilda sömu reglur um fasteignaskatta á öllu húsnæði nema því sem er í eigu lögaðila en það er undanþegið fasteignasköttum. Í Finnlandi eru engin fasteignagjöld samkvæmt upplýsingum úr skýrslunni Bolig, inflation og skat.

2.    Hversu hár er fasteignaskattur í hverju þessara landa fyrir sig og með hvaða hætti er hann reiknaður?
    Fasteignagjöld eru ákveðin með nokkuð mismunandi hætti á Norðurlöndum.
    Í Danmörku innheimta sveitarfélög skatt sem tekur mið af lóðarmatinu og er reyndar eitt Norðurlanda um að skattleggja á grundvelli þess. Hvert bæjar- eða sveitarfélag ákvarðar lóðarskatt sem prómill af lóðarmatinu (grundværdi) innan lögboðinna takmarka frá 6 prómill upp í 24 prómill (meðaltalið er 12,48 prómill). Skattur svæðisbundinna samtaka sveitarfélaga (amtskommuner) er alltaf 10 prómill af lóðarmatinu. Hæsti lóðarskattur getur því orðið sem svarar til 34 prómill af lóðarmatinu.
    Í Noregi og Svíþjóð er lagður á fasteignaskattur sem tekur mið af sérstöku fasteignamati sem byggist bæði á lóðar- og íbúðarmati.
    Í Noregi grundvallast fasteignaskatturinn á sama mati og notað er í skattkerfinu þegar íbúðareigendum eru reiknaðar tekjur af eigin húsnæði (skattemæssig lejeværdi) vegna vaxtafrádráttar. Reikniforsendurnar eru nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum en oftast er fasteignamatið miðað við 10–30% af markaðsverði íbúðarinnar. Matið er hækkað árlega. Árið 1985 voru fasteignagjöldin reiknuð þannig að eigendur áttu að greiða sem nam 2,5% af því matsverði (oftast miðað við 10–30% af markaðsverði) sem var umfram 22.000 norskar krónur.
    Þá hafa sveitarstjórnir heimild til að leggja á 2–7 prómill viðbótarskatt en nú nýtir um helmingur sveitarstjórna sér þessa heimild.
    Í Svíþjóð er borgaður skattur af fasteignum bæði til sveitarfélaga og ríkisins. Skatturinn er á sama hátt og í Noregi grundvallaður á sömu reikniaðferðum og gilda um skattkerfið þegar eigendum eru reiknaðar tekjur af eigin húsnæði (skattemæssig lejeværdi).
    Fasteignamat er endurskoðað á fimm ára fresti í Svíþjóð. Reikniforsendan fyrir fasteignamatið (taxeringsvardet) er miðað við 75% af markaðsverði eignarinnar. Fasteignaskattur sem einstaklingum ber að greiða sveitarfélögunum miðast við 15 prómill af fasteignamatinu (taxeringsvardet). Fasteignagjöldin eru síðan ákvörðuð með hliðsjón af eftirfarandi hlutföllum:
    Leiguíbúðir: Fasteignagjöld eru miðuð við 2,5% af 65% af fasteignamati fasteignar.
    Eignarhúsnæði: Fasteignagjöld 1,4% af einum þriðja fasteignamats.
    Félagslegar íbúðir og búseturéttaríbúðir: Fasteignagjöld eru 1,4% af 65% fasteignamats.

3.     Er til opinbert fasteignamat á íbúðarkostnaði í þessum löndum og eru slíkar eignir á skrá?
    Sem svar við þessari fyrirspurn vísast til svars félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá Hreggviði Jónssyni á þskj. 194.