Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 192 . mál.


Sþ.

1117. Nefndarálit



um till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg.

Frá minni hl. fjárveitinganefndar.



    Tillaga þessi til þingsályktunar var flutt á síðasta Alþingi nálega í sama formi. Einnig þá klofnaði nefndin í afstöðu sinni til málsins og það hlaut ekki endanlega afgreiðslu.
    Nú eru aðstæður breyttar á þann veg að Reykjavíkurborg hefur keypt Hótel Borg þannig að kaup Alþingis á því húsnæði eru úr sögunni.
    Eigi að síður telur minni hl. ástæðu til að taka málið upp í öðrum búningi. Ljóst er að full þörf er á því að taka húsnæðismál Alþingis til athugunar, en starfsemi þess fer nú fram í fleiri húsum en haganlegt er. Minni hl. leggur því til að forsetum Alþingis verði falið að kanna hvaða möguleikar eru til aukinnar hagkvæmni í húsnæðismálum Alþingis og skila um það skýrslu til allra formanna þingflokka á næsta haustþingi. Þessi afstaða er hin sama og kynnt var af hálfu minni hl. fyrir ári. Á þeim tíma, sem liðið hefur, mun lítið eða ekki hafa verið aðhafst.
    Minni hl. flytur breytingartillögu við tillögugreinina á sérstöku þingskjali. Er þar um að ræða lítt breytta þá breytingartillögu sem lögð var fyrir síðasta Alþingi.

Alþingi, 28. apríl 1990.



Pálmi Jónsson,


frsm.


Egill Jónsson.


Friðjón Þórðarson.