Ferill 435. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 435 . mál.


Nd.

1168. Nefndarálit



um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund um málið Láru V. Júlíusdóttur, formann nefndar þeirrar er samdi frumvarpið, Elsu Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs, og Þórarin V. Þórarinsson, Víglund Þorsteinsson og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands. Nefndinni barst einnig umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands. Þá kynnti nefndin sér þær umsagnir, sem leitað var eftir af félagsmálaráðuneytinu, eftir að frumvarpið hafði verið lagt fram á síðasta þing, en þá varð það ekki útrætt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þær breytingar, sem hér er um að ræða, eru einkum eftirtaldar:
    1. Tekin eru af öll tvímæli um að í þeim tilvikum, sem einhver telur rétt á sér brotinn skv. 6. gr., þá skuli atvinnurekandi sýna kærunefnd jafnréttismála fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Þessi breyting þýðir að öfug sönnunarbyrði skuli einungis gilda fyrir kærunefnd en ekki í dómsmálum um jafnstöðumál.
    2. Lagt er til að 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins falli brott. Sú málsgrein kveður á um að við ráðningu í starf skuli það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, ganga fyrir uppfylli umsækjandi tilskildar kröfur til starfsins.
    3. Gerðar eru breytingar á 12. gr. Síðari málsgrein er felld brott og breytingar gerðar á 1. mgr.
    4. Í 15. gr., er kveður á um skipan Jafnréttisráðs, er gerð sú breyting að fækkað er í ráðinu og fellt brott ákvæði um setu fulltrúa tilnefndra af þingflokkunum. Hins vegar er gert ráð fyrir að formaður kærunefndar jafnréttismála eigi sæti í nefndinni. Alls verður því ráðið skipað sjö manns.
    5. Við 16. gr. er sú meginbreyting gerð að sett er inn ákvæði um að halda skuli jafnréttisþing á a.m.k. þriggja ára fresti. Nefndin gerir ráð fyrir að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um skipulag og hlutverk þingsins en telur þó jafnframt rétt að fram komi í þessu nefndaráliti sú afstaða að
eðlilegt sé að verkefni slíks þings sé ráðgjafar- og umsagnastörf á sviði jafnréttismála fyrir Jafnréttisráð, ekki síst vegna aðildar ráðsins að mótun jafnréttisáætlunar. Um leið gæti þingið orðið vettvangur almennra umræðna um jafnréttismál og uppspretta og farvegur nýrra hugmynda um þau mál. Nefndin telur jafnframt eðlilegt að aðild að þinginu eigi, auk Jafnréttisráðs, fulltrúar jafnréttisnefnda, stjórnmálaflokka og fulltrúar félagasamtaka er láta sig jafnréttismálefni varða.
    6. Lagt er til að 23. gr. frumvarpsins falli brott enda er greinin ekki í samræmi við önnur ákvæði VI. kafla laganna um viðurlög og réttarfar.

Alþingi, 2. maí 1990.



Rannveig Guðmundsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Helgadóttir,


fundaskr.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.


Geir H. Haarde,


Jón Kristjánsson.


Eggert Haukdal.


með fyrirvara.


Alexander Stefánsson.