Ferill 577. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 577 . mál.


Nd.

1192. Frumvarp til laga



um stöðlun.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



I. KAFLI

Staðlaráð Íslands.

1. gr.

Stofnskrá Staðlaráðs Íslands.


    Staðlaráð Íslands er sjálfseignarstofnun sem starfar á grundvelli stofnskrár sem ráðið setur en iðnaðarráðherra staðfestir og er hlutverk þess að annast stöðlun og vottun fyrir íslenskt atvinnulíf og neytendur. Markmið stöðlunar er að auka vöxt og nýsköpun íslensks atvinnulífs og bæta starfsskilyrði þess. Í stofnskrá skal kveðið nánar á um markmið og verkefni ráðsins, stjórn, starfshætti, staðlagerð og aðild að ráðinu sem skal vera opin þeim sem hagsmuna hafa að gæta.
     Íslenskur staðall er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands (áður stjórn Iðntæknistofnunar Íslands). Í lögum þessum hafa orðin staðall, stöðlun, vottun og sammæli sömu merkingu og sett er fram á hverjum tíma í íslenskum staðli um íðorð í stöðlun og skyldri starfsemi.

2. gr.

Réttindi ráðsins.


    Staðlaráð Íslands hefur einkarétt til að gefa út íslenska staðla. Stöðlun skal lúta þeim reglum sem settar eru í lögum þessum og öðrum fyrirmælum sem sett eru samkvæmt þeim.
    Staðlaráð eitt skal eiga aðild að alþjóðlegu samstarfi staðlasambanda og stofnana fyrir Íslands hönd og fara með atkvæði landsins á þeim vettvangi. Heimilt er þó ráðinu að fela stofnun, fyrirtæki eða samtökum að annast í umboði þess þátttöku í tæknilegu staðlasamstarfi á alþjóðavettvangi að því tilskildu að þátttakan sé í samræmi við almennar reglur ráðsins.

3. gr.

Stjórn og starfshættir.


    Aðalfundur Staðlaráðs kýs níu menn í stjórn ráðsins til tveggja ára í senn og níu menn til vara samkvæmt nánari ákvæðum í stofnskrá. Tækninefndir, fagstjórnir og fagráð starfa á afmörkuðum sviðum samkvæmt nánari ákvörðun Staðlaráðs.

4. gr.

Fjármál.


    Staðlaráð hefur sjálfstæðan fjárhag og skal árlega veita framlög á fjárlögum til starfsemi þess. Stofnframlög til Staðlaráðs skulu ákveðin í stofnskrá og bera stofnendur ráðsins ekki ábyrgð á skuldbindingum ráðsins umfram stofnframlög.
    Staðlaráð skal undanþegið tekjuskatti og eignarskatti til ríkissjóðs og gjöldum til sveitarfélaga.
    Iðntæknistofnun Íslands er heimilt að leggja fram sem stofnfjárframlag sitt allar þær núverandi eignir Iðntæknistofnunar Íslands sem eru einvörðungu nýttar til stöðlunarvinnu eða stöðlunarþjónustu, svo sem búnað og tæki á staðladeild stofnunarinnar og skjalasafn deildarinnar.

II. KAFLI

Birting og not staðla.

5. gr.

Afnot staðla.


    Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum.

6. gr.

Birting.


    Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal á vegum Staðlaráðs gefa út Staðlatíðindi þar sem m.a. skal:
a.    tilkynna um ný stöðlunarverkefni,
b.    auglýsa frumvarp að staðli og kalla eftir athugasemdum innan tiltekins tímafrests,
c.    tilkynna staðfestingu stjórnar Staðlaráðs á nýjum staðli ásamt lýsingu á meginefni hans.
    Geta skal útgáfu Staðlatíðinda í Lögbirtingablaði.
    Við útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests samkvæmt þessari grein skal miðað við að aðilar, er hagsmuna eiga að gæta, geti haft áhrif á gerð staðalsins svo sem nánar er kveðið á um í stofnskrá.
    Heimilt er að gefa út staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not staðalsins.
    Staðlaráð skal halda staðlaskrá yfir alla gilda íslenska staðla og skal hún birt árlega.

III. KAFLI


Ýmis ákvæði.

7. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991. Jafnframt breytast eftirtaldar lagagreinar:

    a. Lög 31/1985, um landmælingar Íslands.
    1. mgr. 5. gr. hljóði svo:
    Frumkvæði í samráði við Staðlaráð Íslands um gerð staðla fyrir landmælingar og kortagerð og gerð landfræðilegra og staðfræðilegra grundvallarmælinga til kortlagningar á Íslandi og umsjón með þeim.

    b. Lög 53/1978, um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur.
    2. mgr. 7. gr. hljóði svo:
    ED gefur út kröfur, sem eftirlitsskyldar vörutegundir skulu fullnægja, í samráði við sérfræðinga RALA og Búnaðarfélags Íslands, þar sem því verður við komið, og getur landbúnaðarráðuneytið bannað framleiðslu og verslun með vörutegundir sem ekki fullnægja settum kröfum.
    15. gr. hljóði svo:
    FR gefur út kröfur sem einstakar fóðurblöndur ætlaðar einstökum búfjártegundum skulu fullnægja og getur bannað framleiðslu og sölu á fóðurblöndum sem ekki fullnægja settum kröfum.“
    17. gr. hljóði svo:
    ÁR hefur eftirlit með því að tilbúinn áburður innihaldi þau efni og það magn sem framleiðandi gefur til kynna og ábyrgist í samræmi við settar kröfur um hverja áburðartegund.
    20. gr. hljóði svo:
    SR hefur eftirlit með spírunarhæfni, hreinleika og öðrum eiginleikum sáðvöru sem ástæða þykir til, gefur út kröfur um samsetningu fræblandna og hefur eftirlit með að blöndunarhlutföll séu í samræmi við þær.

    c. Lög 54/1978, byggingarlög.
    1. mgr. 4. gr. hljóði svo:
    Félagsmálaráðuneytið setur almenna byggingarreglugerð, svo og sérreglugerðir með ákvæðum um notkun staðla á ýmsum sviðum byggingariðnaðarins.

    d. Lög 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    26. gr. hljóði svo:
    Viðmiðunarreglur og staðallýsingar um efna- og gerlainnihald matvæla og annarra neyslu- og nauðsynjavara.

    e. Lög 108/1984, lyfjalög.
    2. mgr. 3. gr. hljóði svo:
    Ráðherra skal, að fengnum tillögum landlæknis, kveðja til nefnd sérfróðra manna til þess að skilgreina nánar og gera tillögur um staðallýsingar þess varnings er greinir í 1. mgr.
    2. mgr. 6. gr. hljóði svo:
    Lyfjanefnd gerir tillögur til ráðherra um staðallýsingar fyrir lyfjaform, gæði og hreinleika lyfjaefna og hjálparefna við lyfjagerð, svo og fyrir aðgerðir til greiningar og ákvörðunar á þessum efnum.
    3. mgr. 6. gr. hljóði svo:
    Ráðherra hefur á hendi auglýsingar og útgáfustarfsemi er að staðallýsingum lýtur.
    3. tölul. 3. mgr. 14. gr. hljóði svo:
    Framleiðandi lyfja skal í hvívetna hlíta ákvæðum gildandi lyfjaskrár og staðallýsinga, svo og reglugerð þar að lútandi, og góðum framleiðsluháttum í lyfjagerð.
    3. málsl. 2. mgr. 18. gr. hljóði svo:
    Skulu framangreindar upplýsingar ætíð vera í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrá, staðallýsingum, sérlyfjaskrá eða skrá um stöðluð lyf, sbr. 13. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fyrir 1. október 1990 skal halda stofnfund Staðlaráðs og leggja á fundinum fram drög að stofnskrá til afgreiðslu. Stofnfundur kýs stjórn Staðlaráðs til næsta reglulegs aðalfundar. Stjórnin skal undirbúa breytta tilhögun á starfsemi Staðlaráðs samkvæmt þessum lögum er taki gildi 1. janúar 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er flutt til þess að styrkja lagagrundvöll reglna um staðla hér á landi. Staðlaráð Íslands starfar nú á grundvelli starfsreglna sem stjórn Iðntæknistofnunar hefur sett með heimild í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 41/1978, um Iðntæknistofnun Íslands, þar sem segir að stofnunin gegni hlutverki sínu m.a. með stöðlun. Lagalegur grundvöllur starfseminnar er því ófullnægjandi miðað við þá auknu áherslu sem lögð er á stöðlun og tengda starfsemi í Evrópu.
    Þegar rætt er um stöðlun er mikilvægt að gera sér grein fyrir því megineinkenni starfseminnar að staðall er unninn í samvinnu þeirra aðila sem málið er skylt. Af þessu leiðir að enginn einstaklingur eða stofnun getur sest niður og samið staðal án samráðs við hagsmunaaðila. Með slíku samráði er unnin lausn sem telst rétt lausn og góður framkvæmdamáti að bestu manna yfirsýn.
    Það var einkum vegna þessara eiginleika stöðlunar að framkvæmdanefnd Evrópubandalagsins hóf að vinna samkvæmt svo kallaðri nýrri aðferð „New Approach“ við að samræma reglur í þeim tilgangi að koma á innri markaði í Evrópu fyrir árslok árið 1992. Ráðið tók ákvörðun um þessa aðferð 7. maí 1985 en áður hafði lengi verið unnið samkvæmt þessari aðferð í raftækni. Samkvæmt ákvörðuninni (100. gr.) á að takmarka lögbundna samræmingu (þ.e. samræmingu í tilskipunum) á tæknisviðum við grunnkröfur um öryggisatriði og kröfur varðandi almenn atriði. Síðan var þeim stofnunum (félögum) sem höfðu unnið að stöðlun í iðnaði fengið það hlutverk að sinna tæknilegum forskriftum í einstökum atriðum. Þessar forskriftir áttu síðan að gefa út sem samræmda staðla í aðildarlöndum bandalagsins. Staðlarnir eru til frjálsra afnota en svo er litið á að sá sem fylgir stöðlunum hafi fullnægt grunnkröfunum í tilskipunum.
    Á sama tíma var gerður rammasamningur við evrópsku staðlasamböndin, CEN á almennu sviði og CENELEC á raftæknisviði, um að stýra gerð þeirra staðla sem gert væri ráð fyrir í tilskipunum. Í samningunum er það gert að skilyrði að samþykktir Evrópustaðlar verði gerðir að landsstöðlum í hverju aðildarlandi innan missiris frá samþykkt þeirra og þeir landsstaðlar numdir úr gildi sem koma í bága við Evrópustaðla. Fríverslunarbandalag Evrópu, EFTA, fylgdi á eftir og gerði samsvarandi samning við evrópsku staðlasamböndin. Í viðræðum um Evrópska efnahagssvæðið er reiknað með að vísað sé til samræmdu staðlanna í almennum stjórnvaldsfyrirmælum á tæknisviðum og við opinber innkaup.
    Staðlaráð Íslands gerðist aðili að báðum þessum staðlasamböndum um miðbik ársins 1988.
    Með þessari nýju stefnu breytist hlutverk þeirra sem vinna við staðla í smærri löndum Evrópu mikið. Áður unnu þeir að gerð þeirra staðla, sem iðnaðurinn taldi sig þurfa á að halda innan lands, á þeim hraða og með þeim mannafla sem aðstæður leyfðu hverju sinni. Engar kvaðir lágu á stjórnvöldum að fylgja stöðlunum. Á þrjátíu ára tímabili hafði Iðntæknistofnun Íslands þannig staðfest um fimmtíu staðla alls en á fyrsta ári aðildar Staðlaráðsins að CEN og CENELEC urðu staðlarnir 130. Nú verða þessi lönd að fylgjast eins vel með þróun mála í Evrópu og kostur er og þær stofnanir sem málin varða hverju sinni.
    Helstu málaflokkar sem unnið er að hjá staðlasamböndunum koma fram á bls. 15 í Íslenskri staðlaskrá 1990, sem er fylgiskjal við þetta frumvarp. Meðal verkefna sem staðlasamböndunum hefur verið falið að vinna að má nefna að vinna vegna stöðlunar í matvælaiðnaði er nýhafin hjá CEN og sérstök ástæða er til að nefna staðla um gæðakerfi og starfsemi prófunar- og vottunaraðila. Þá hefur staðlasamböndunum einnig verið falið að vinna að uppbyggingu gagnkvæmrar viðurkenningar á prófunarniðurstöðum og vottunum.
    Þessir nýju alþjóðlegu staðlar um gæðakerfi (ISO 900x) og evrópskir staðlar (EN 4500x) um vottunarmál kalla á aukið starf Staðlaráðs á því sviði. Einnig þarf að tryggja lagastoð fyrir vottunarstarfsemi og yfirstjórn hennar hér á landi og er í undirbúningi sérstök lagasetning um þau efni.
    Með bréfi dagsettu 2. ágúst 1989 skipaði iðnaðarráðherra eftirtalda menn í nefnd til að gera tillögu um frumvarp til laga um staðla: Halldór Jón Kristjánsson, tilnefndur af iðnaðarráðuneyti, Halldór Árnason, tilnefndur af sjávarútvegsráðuneyti, Sturlaugur Daðason, tilnefndur af Útflutningsráði Íslands, Sigurður Arnalds, tilnefndur af Verkfræðingafélag Íslandi, Davíð Lúðvíksson, tilnefndur af Staðlaráði Íslands.
    Nefndinni var falið að hafa samráð við þá hagsmunaaðila sem málið varða. Framkvæmdastjóri Staðlaráðs, Jóhannes Þorsteinsson, hefur starfað með nefndinni.
    Til undirbúnings vinnu nefndarinnar var aflað gagna um tilhögun staðlamála í Evrópu. Evangelos Vardakas, framkvæmdastjóri CEN, lagði fram tillögur um löggjöf um staðla á Íslandi og einnig var safnað athugasemdum við tillögur Vardakas víðs vegar að. Tillögurnar og athugasemdir við þær hafa verið grundvöllur starfsins í nefndinni.
    Samkvæmt frumvarpinu er eftirfarandi lagt til:
    1.     Staðlaráð Íslands verði einkastofnun sem starfi á grundvelli sérreglna í þessu frumvarpi og verði veitt einkaréttur til stöðlunarstarfs. Frumvarpið byggir á þeirri meginhugsun að hagsmunaaðilar, einkaaðilar, fyrirtæki og samtök þeirra beri aðalábyrgðina á staðlavinnunni. Gert er ráð fyrir að Staðlaráð starfi samkvæmt stofnskrá þar sem settar verði reglur um opna aðild að Staðlaráði Íslands.
            Gert er ráð fyrir að kveðið sé á um innri starfshætti Staðlaráðsins í stofnskrá.
    2.     Þar sem gera má ráð fyrir verulega aukinni aðild að ráðinu, úr átta í allt að 25 lögaðila, er lagt til að lögfest verði níu manna stjórn Staðlaráðs sem kosin verði samkvæmt nánari ákvæðum í Stofnskrá. Í grein um fjármál er kveðið á um fjárveitingar til ráðsins af fjárlögum. Jafnframt er miðað við að einkaaðilar að Staðlaráði greiði aðildargjöld.
    3.     Með tilliti til aðstæðna hér á landi er lagt til að ráðið verði miðstöð stöðlunarstarfs hér á landi og komi fram í öllum þáttum alþjóðlegrar staðlavinnu. Fela má einstökum stofnunum eða aðilum framkvæmd einstakra þátta. Það stefnumið er í samræmi við stefnu EFTA-ríkjanna að einn aðili staðfesti staðla og komi fram fyrir hönd hvers ríkis í stöðlunarmálum.
    4.     Reglur um birtingarhætti staðla og aðferð við að óska eftir athugasemdum verði skýrar og tryggi víðtækt samráð um efni þeirra. Þá er lagt til að staðfest verði það stefnuatriði að við reglugerðarsmíð verði stuðst í auknum mæli við staðla og settar verði skýrar reglur um lagalega stöðu staðlatilvísana í reglugerðum. Hin nýja aðferð við afnám tæknilegra viðskiptahindrana byggir á slíku kerfi.
    5.     Staðlaráði eru falin verkefni varðandi vottun og er lagt til að í stofnskrá verði nánar kveðið á um hlutverk ráðsins á því sviði.
    6.     Gert er ráð fyrir að lög um staðlastarfsemi gætu tekið gildi í áföngum þannig að endurnýjað Staðlaráð kjósi sér stjórn eigi síðar en 1. október nk. og stjórnin undirbúi breytta starfsemi ráðsins frá 1. janúar nk.
    Í frumvarpinu er byggt á þeim skilgreiningum á orðunum stöðlun, staðall, sammæli og vottun sem er að finna í gildandi staðli á hverjum tíma um orð og skilgreiningar í stöðlun og skyldri starfsemi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að Staðlaráð starfi sem sjálfstæð einkastofnun er starfi á grundvelli stofnskrár er ráðið setur og ráðherra staðfestir. Lagt er til að meginverkefni Staðlaráðs verði skilgreind í stofnskrá. Í þeim drögum að stofnskrá, sem nú liggja fyrir, er byggt á þeirri stefnu að ráðið greiði fyrir því að stöðlun verði beitt í opinberri stjórnsýslu og hjá einkaaðilum og er þá m.a. átt við opinber innkaup og stærri útboð. Enn fremur að staðið verði þannig að gerð staðla að vísa megi til þeirra í auknum mæli í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum. Þetta er í samræmi við meginstefnu Evrópuríkja um að samræmdir Evrópustaðlar komi í stað mismunandi tæknilegra reglugerða í einstökum ríkjum og stuðli þar með að afnámi tæknilegra viðskiptahindrana.
    Í ljósi þess, að lagt er til að Staðlaráði verði veittur einkaréttur til útgáfu staðla hér á landi, er í þeim frumdrögum að stofnskrá, sem er fylgiskjal við frumvarp þetta, lagt til að skýrar reglur verði um aðild að ráðinu og hún standi hagsmunaaðilum opin. Frumdrögin eru lögð fram til kynningar á því sem kveða þarf á um í stofnskrá. Úr þessum drögum verður unnið á næstu mánuðum og leitað sammælis um stofnskrána fyrir sumarlok.
    Til skýringar á hugtökum sem eru notuð í frumvarpi þessu og greinargerð skal þess getið að samkvæmt alþjóðastaðli hafa þau orð sem nefnd eru í 4. mgr. 1. gr. laganna þessar merkingu:
     Staðall (e. standard): sérstök gerð opinbers skjals sem er byggt á sammæli hagsmunaaðila og staðfest af þar til viðurkenndum aðila. Í því eru gefnar reglur, leiðbeiningar eða eiginleikar fyrir verknaði eða afrakstur þeirra, ætlaðar fyrir algenga og endurtekna notkun í því markmiði að ná sem mestri samskipan á gefnu sviði.
     Stöðlun (e. standardization): það að ná sammæli um skjal sem inniheldur lýsingu á reglum, leiðbeiningum eða eiginleikum sem er ætluð fyrir algenga og endurtekna verknaði eða afrakstur af þeim. Til þessa telst einnig að skjalið er samið í þeim tilgangi að ná fram sem mestri samskipan mála á gefnu sviði og að það hafi hlotið staðfestingu viðkennds aðila.
     Alþjóðlegur staðall (e. international standard): opinber staðall sem hefur verið staðfestur af alþjóðastaðlasambandi.
     Reglugerð á tæknisviði (e. technical regulation): skjal þar sem kveðið er á um lagalega bindandi kröfur á tæknisviði, staðfestar af stjórnvaldi. Kröfurnar eru ýmist tilgreindar í einstökum atriðum, með tilvísun til staðals, tæknilegrar forskriftar eða framkvæmdastaðals, eða með því að taka staðalinn upp í heild sinni. Undir þetta falla m.a. lög, reglugerðir, tilkynningar og orðsendingar.
     Tæknileg forskrift (technical specification): skjal þar sem mælt er fyrir um þær kröfur sem vara, ferli eða þjónusta á að fullnægja og þær tilgreindar í einstökum atriðum.
     Vottun (e. certification): starfsemi óháðs aðila þar sem sýnt er fram á að nægjanlegt traust megi bera til þess að réttilega auðkennd og tiltekin vara, ferli eða þjónusta samræmist kröfum í tilgreindum staðli eða öðru regluskjali.
     Sammæli (e. consensus): almennt samkomulag sem einkennist af því að mikilvægir hagsmunaaðilar í málinu halda ekki uppi andstöðu við veigamikil atriði. Sammæli næst með því að leitast við að taka tillit til sjónarmiða allra aðila sem málinu tengjast og vinna að lausn sem sameinar andstæðar röksemdir.
    Auk þessara skilgreininga er Evrópustaðall opinber staðall sem hefur verið staðfestur af öðru hvoru evrópsku staðlasambandanna CEN eða CENELEC.

Um 2. gr.

    Í samræmi við stefnumótun í Evrópu um að staðlamál verði samræmd er í greininni lagt til að Staðlaráðinu verði veittur einkaréttur til að gefa út íslenska staðla. Enn fremur þykir rétt að leggja til að Staðlaráð eigi aðild að alþjóðlegu samstarfi um staðlamál fyrir Íslands hönd, en ráðinu verði heimilt að fela öðrum aðilum þátttöku í tæknilegum hluta slíks samstarfs.

Um 3. gr.

    Gera má ráð fyrir að u.þ.b. 25 aðilar verði að Staðlaráði og því er í greininni lagt til að ráðið kjósi sér níu manna stjórn. Með hliðsjón af því að ríkisvaldið veitir verulegu fjármagni til starfsemi ráðsins þykir eðlilegt að leggja til að iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra tilnefni tvo stjórnarmenn. Aðrir aðilar að ráðinu kjósi stjórnarmenn að öðru leyti.

Um 4. gr.

    Í greininni er fjallað um fjárveitingar til ráðsins en ráðið mun hafa sjálfstæðan fjárhag og njóta framlaga á fjárlögum. Ekki er gert ráð fyrir því að framlög ríkisvaldsins aukist vegna setningar laganna. Hins vegar valda aukin verkefni staðlaráða í Evrópu því að framlög ríkisins til þessa málaflokks hafa aukist í þessum löndum. Reiknað er með að svo verði einnig hér á landi. Aukningin er einkum vegna þess að með aðildinni að CEN og CENELEC hafa Íslendingar játast undir þá skyldu að gera staðla sambandanna að sínum. Aðildin er liður í aðlögun að samræmdum Evrópumarkaði og það verður því að teljast eðlilegt að ríkisvaldið tryggi grunnfjármögnun vinnu vegna þessarar skyldu.
    Þá hefur þótt eðlilegt að gera ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir, sem aðild eiga að ráðinu, greiði árgjald til að standa straum af kostnaði við starfið. Gert er ráð fyrir að ráðið sjálft ákveði árgjöld í stofnskrá. Þá er einnig reiknað með því að ráðið hafi allnokkrar tekjur af sölu þjónustu sem tengist samræmingarvinnu í Evrópu.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að lögfest verði sú meginregla að staðlar séu til frjálsra afnota í skiptum manna á meðal. Hins vegar er gert ráð fyrir að stjórnvöld geti gert staðal skyldubundinn með því að vísa til hans í reglugerð sem staðfest er og birt með venjulegum hætti.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að skýrt verði kveðið á um birtingu staðla og tilkynningar um ný stöðlunarverkefni. Greininni er ætlað að tryggja að allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta geti haft áhrif á gerð staðals. Trygg birting staðla auðveldar enn fremur tilvísun í staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum.
    Þá er lagt til að heimilt verði að staðfesta staðal sem íslenskan staðal þó hann sé á erlendu máli ef ljóst er að not hans eru bundin við aðila er kunna þá tungu, t.d. flóknir staðlar á flugmálasviði. Þetta er í samræmi við breytingar sem gerðar hafa verið á Norðurlöndum. Nefna má að Finnar hafa nýverið breytt stjórnarskrárákvæði er kveður á um lögbirtingu á finnsku og sænsku á þann veg sem hér er lagt til.
    Óframkvæmanlegt er að þýða vissa staðla sem eru á hundruðum blaðsíðna. Enn fremur er óskynsamlegt að eyða fé og fyrirhöfn í slíkt, jafnvel þótt fært væri, ef engir geta fært sér þá í nyt nema kunna það tungumál sem staðallinn er saminn á.

Um 7. gr.

    Lagt er til að orðalagi varðandi staðla og stöðlun verði breytt í þeim lögum sem talin eru upp í greininni. Breytingar eru nauðsynlegar vegna þess að orðalag í þeim samræmist ekki þeim skilgreiningum sem eru viðteknar á alþjóðavettvangi og fylgt er í lögum þessum, sbr. athugasemd við 1. gr. frumvarpsins.
    Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Frumdrög að stofnskrá fyrir Staðlaráð Íslands.


    Neðangreindir aðilar hafa komið sér saman um eftirfarandi stofnskrá Staðlaráðs Íslands og að leita staðfestingar iðnaðarráðherra á henni.

1. gr.

    Staðlaráð Íslands starfar á grundvelli laga um stöðlun og skylda starfsemi nr.


    
/1990 og ákvæða þessarar stofnskrár. Heimili og varnarþing ráðsins er í Reykjavík. Heiti þess er skammstafað STRÍ. Merki þess er ...
    Stofnendur ráðsins eru taldir upp í lista sem er fylgiskjal við stofnskrána.

2. gr.

    Stofnfé ráðsins er ...
    Ríkissjóði er heimilt að leggja fram sem hluta stofnfjárframlags síns allar þær núverandi eignir Iðntæknistofnunar Íslands sem eru einvörðungu nýttar til stöðlunarvinnu eða stöðlunarþjónustu, svo sem búnað og tæki á staðladeild stofnunarinnar og skjalasafn deildarinnar.

3. gr.

    Hlutverk ráðsins er að vera miðstöð stöðlunarstarfs í landinu og vettvangur hagsmunaaðila til að hafa áhrif á gerð og notkun staðla hérlendis. Það skal einnig vera þjónustustofnun við aðrar stofnanir, fyrirtæki, einstaklinga og samtök sem vilja nýta sér staðla í starfi sínu. Enn fremur skal ráðið vera upplýsingamiðstöð um innlenda og erlenda staðla og reglugerðir um tæknileg málefni.
    Verkefni ráðsins eru m.a. að:
    a.    hafa umsjón með staðlagerð á Íslandi og vera fulltrúi fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi á sviði stöðlunar;
    b.    aðhæfa og staðfesta sem íslenska þá staðla sem leiðir af aðild ráðsins að erlendu stöðlunarsamstarfi;
    c.    greiða fyrir því að íslenskum stöðlum verði beitt í opinberri stjórnsýslu og hjá einkaaðilum;
    d.    stuðla að því að fjölþjóðlegir staðlar, sem teljast gagna íslensku athafnalífi, verði staðfestir sem íslenskir staðlar.
    e.    gefa út staðlatíðindi og staðlaskrá;
    f.    stunda vottun á þeim sviðum þar sem hagsmunaaðilar í íslensku atvinnulífi kunna að óska eftir þeirri þjónustu;
    g.    stuðla að framgangi stöðlunar á Íslandi á þann hátt sem gagnlegt þykir, m.a. með fræðslu og upplýsingum.
    Í starfi sínu hefur ráðið að leiðarljósi að meta jafnan gagnsemi starfsins, jafnframt því sem tekið er tillit til hagsmuna neytenda og umhverfissjónarmiða.

4. gr.


    Aðild að ráðinu geta átt stofnanir, samtök eða fyrirtæki, sem telja sig eiga víðtækra hagsmuna að gæta af starfi ráðsins.
    Ósk um aðild að ráðinu skal senda stjórn þess er fjallar um umsóknina. Samþykki stjórnin einróma aðildina telst hún afgreidd. Verði ágreiningur í stjórninni um umsóknina er hún lögð fyrir fulltrúaráðið til ákvörðunar. Aðild tekur gildi frá og með einróma afgreiðslu í stjórn eða afgreiðslu í fulltrúaráðinu.
    Við mat á umsókn að ráðinu skal stjórnin hafa hliðsjón af annarri skipan ráðsins og miða við að jafnvægi ríki á milli mismunandi hagsmunageira.
    Stjórn ráðsins er heimilt að beina umsóknum um aðild að ráðinu til afmarkaðri sviða í starfsemi ráðsins eða hvetja til þess að umsækjandi leiti samvinnu við aðila að ráðinu um sameiginlega aðild þeirra ef aðild beggja mundi auðsýnilega leiða til þess að óeðlilega margir fulltrúar sömu eða svipaðra hagsmuna sætu í ráðinu.
    Aðild að Staðlaráðinu er ekki skilyrði fyrir þátttöku í starfi ráðsins, hvorki í verkefnahópi, tækninefnd né í fagstjórn.

5. gr.

    Staðlaráð Íslands hefur sjálfstæðan fjárhag. Tekjur þess eru m.a.:
    a.    framlög á fjárlögum,
    b.    aðildargjöld,
    c.    framlög hagsmunaaðila og greiðslur fyrir umbeðna staðlagerð,
    d.    af sölu staðla og annarrar þjónustu,
    e.    aðrar tekjur.

6. gr.


    Yfirstjórn Staðlaráðs Íslands er í höndum fulltrúaráðs þess.
    Aðilar að ráðinu skipa hver einn fulltrúa til setu í fulltrúaráðinu og annan til vara. Fulltrúar skulu skipaðir til tveggja ára í senn. Endurskipa má fulltrúa. Aðilar að ráðinu geta hvenær sem er skipt um fulltrúa sinn með skriflegri tilkynningu þess efnis til formanns. Formaður Staðlaráðsins er aðili að fulltrúaráðinu og formaður stjórnar þess.
    Fulltrúarnir eru ábyrgir fyrir því að umbjóðendur þeirra viti ávallt um ákvarðanir sem teknar eru í ráðinu og skulu, þegar það á við, leita eftir afstöðu þeirra til mála sem á dagskrá ráðsins eru hverju sinni.

7. gr.

    Fulltrúaráð skal m.a.:
    a.    bera ábyrgð á og fylgjast með að farið sé að stofnskrá ráðsins og öðrum samþykktum þess,
    b.    samþykkja langtímaáætlanir, rekstraráætlanir, reikninga og ársskýrslur fyrir hvert einstakt ár,
    c.    kjósa stjórnarmenn til tveggja ára, aðra en þá sem lögbundið er að valdir séu af öðrum, sbr. 13. gr.,
    d.    kjósa tvo endurskoðendur reikninga ráðsins til eins árs í senn.
    Fulltrúaráðið setur nánari reglur um starfsemi sína og stjórnarinnar.

8. gr.


    Sé ekki kveðið sérstaklega á um annað tekur fulltrúaráðið ákvarðanir með einföldum meiri hluta atkvæða þeirra fulltrúa sem mættir eru á fundi. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Almennur fundur í fulltrúaráðinu telst ályktunarhæfur ef löglega er til hans boðað og einn fjórði hluti fulltrúa er mættur á fundinn.

9. gr.

    Fulltrúaráðið skal koma saman til fundar a.m.k. tvisvar sinnum á ári, á fyrsta ársfjórðungi og á síðari helmingi ársins, og skal fyrri fundurinn vera aðalfundur ráðsins.
    Færa skal fundargerð fyrir fundi í fulltrúaráðinu og senda fulltrúum afrit. Hafi fulltrúar ekki gert skriflegar athugasemdir við fundargerð tveimur vikum eftir að hún var send út skoðast fundargerðin samþykkt.

10. gr.

    Til fundar skal boðað með bréfi til hvers fulltrúa með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í bréfinu eða í fylgiskjali við það skulu koma fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til mála sem eru til afgreiðslu á fundinum. Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað og a.m.k. helmingur fulltrúa mætir. Nú mætir innan við helmingur fulltrúa á aðalfund þá skal boða til aðalfundar að nýju innan viku og telst hann lögmætur.

11. gr.

    Rétt til setu á aðalfundi eiga:
    a.    fulltrúaráðsmenn,
    b.    fráfarandi stjórnarmenn, þeir sem ekki eru lengur í fulltrúaráði, með málfrelsi og tillögurétt á meðan fjallað er um skýrslu stjórnar og reikninga,
    c.    framkvæmdastjóri með málfrelsi og tillögurétt.

12. gr.


    Á aðalfundi skal eftirfarandi, auk annars tekið fyrir:
    a.    kosning fundarstjóra og fundarritara,
    b.    yfirfarnar starfsskýrslur fyrra árs, þ.m.t. skýrslur einstakra fagráða og fagstjórna,
    c.    afgreiddir endurskoðaðir reikningar,
    d.    afgreidd starfs- og fjárhagsáætlun næsta árs,
    e.    ákvörðun aðildargjalda,
    f.    stjórnarkjör (annað hvert ár),
    g.    inntaka nýrra aðila,
    h.    kosning endurskoðenda,
    i.    önnur mál.
    Aukafund skal halda þegar þurfa þykir eða ef a.m.k. fjórðungur fulltrúaráðs óskar þess.

13. gr.


    Í stjórn Staðlaráðsins skulu sitja níu menn og skulu þeir valdir á eftirfarandi hátt:
    a.    Iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skipa hvor um sig einn mann og annan til vara.
    b.    Hagsmunaaðilar í framleiðslu- og byggingariðnaði, þeir sem eiga aðild að ráðinu, skulu kjósa tvo menn í sameiningu og tvo til vara.
    c.    Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, þeir sem eiga aðild að ráðinu, skulu kjósa tvo menn í sameiningu og tvo til vara.
    d.    Menntastofnanir og fagsamtök á tæknisviði, sem eiga aðild að ráðinu, kjósa einn mann í sameiningu og annan til vara.
    Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir beinni kosningu.
    Við val og kjör stjórnarmanna skal við það miðað að hverju sinni sitji í stjórn fulltrúar þeirra sem helst hafa hagsmuna að gæta af stöðlunarvinnunni. Gæta skal sérstaklega að eðlilegt jafnvægi sé á milli hagsmunaaðila atvinnulífs og stjórnvalda annars vegar og hins vegar á milli einstakra faggreina.
    Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Formaður stjórnar Staðlaráðs er jafnframt formaður Staðlaráðs.

14. gr.


    Stjórnin framkvæmir ákvarðanir fulltrúaráðsins og fylgist með fjármálastjórn ráðsins. Stjórnin skipar verkefnahópa, tækninefndir og fagstjórnir og skipar þeim formenn og setur þeim erindisbréf. Stjórnin leggur nefndir, stjórnir og verkefnahópa niður þegar þær hafa lokið störfum eða hentugt þykir annarra hluta vegna að breyta skipaninni.

15. gr.

    Meðal sérstakra annarra verkefna stjórnar skal tekið fram eftirfarandi:
    a.    Leggja skal fjárhagsstöðu ráðsins fyrir stjórnina ekki sjaldnar en þrisvar á ári. Reikningarnir eru bornir saman við áætlun um árið í heild og ákvörðun tekin um aðgerðir vegna frávika sem kunna að hafa orðið frá áætlunum.
    b.    Stjórnin ákveður gjöld fyrir þjónustu ráðsins.
    c.    Stjórnin semur reglur um starfsemi skrifstofu ráðsins.
    d.    Stjórnin ákveður reglur um laun og lífeyrismál starfsmanna ráðsins.
    e.    Stjórnin starfar sem fagstjórn, sbr. 22. gr., á þeim sviðum sem falla ekki undir aðrar fagstjórnir ráðsins.

16. gr.


    Tækninefndir eru skipaðar til þess að annast stöðlun á tilgreindum, afmörkuðum verkefnasviðum. Við skipan nefnda skal þess gætt að í þeim sitji fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna á tilteknum sviðum. Einkum skal leitast við að í þeim sitji fulltrúar fyrir framleiðendur, seljendur, neytendur, rannsóknaraðila og stjórnvöld sem vinna að fyrirmælum stjórnvalda á sviðunum.

17. gr.

    Tækninefnd skal starfa að eftirtöldum þáttum:
    a.    annast virka þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu eða fjölþjóðlegu staðlasamstarfi,
    b.    vinna úr niðurstöðum af alþjóðlega eða fjölþjóðlega staðlasamstarfi,
    c.    annast sérstakt innanlandsverkefni, þ.m.t. endurskoðun gildandi íslensks staðals,
    d.    bera ábyrgð á viðhaldi gildandi íslensks staðals.
    Nú á ekkert af fjórum ofangreindum skilyrðum við um tækninefnd og hefur ekki gert það í eitt ár samfleytt og skal þá leggja tækninefndina niður.

18. gr.


    Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að stofna tækninefnd setur stjórnin erindisbréf, ákveður hver skuli tilnefna fulltrúa í nefndina og — þegar ljóst er hverjir muni sitja í nefndinni — velur formann.
    Ákvörðun stjórnar er tekin, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra ráðsins, og að fengnu áliti fagstjórnar, ef tækninefndin fellur undir sérstaka fagstjórn, sjá 22. gr.

19. gr.

    Tækninefnd getur farið þess á leit við stjórnina að bætt verði fulltrúum tiltekinna hagsmunaaðila í nefndina eða vinnuhópa sem kunna að starfa á hennar vegum.

20. gr.

    Stjórnin getur samþykkt að nefnd á vegum annarra aðila annist samningu á íslenskum staðli á tilteknu sviði, innan lands eða í erlendu staðlasamstarfi.
    Skilyrði ofangreinds er að:
    a.    nefndina skipi fulltrúar sem víðtækastra hagsmuna, sbr. 16. gr.,
    b.    fyrir liggi samþykki nefndarinnar um að starfa í samræmi við reglur ráðsins og stofnskrá þess,
    c.    tryggt sé að ráðið verði ekki fyrir kostnaði að vinnu nefndarinnar.

21. gr.


    Nú næst ekki í tækninefnd sammæli um mál sem varða staðlavinnuna og skal þá skjóta málinu til starfandi fagstjórnar eða fagráðs, sbr. 22.-23. gr., til úrskurðar. Nú heyrir nefndin hvorki undir fagstjórn né fagráð og skal skjóta málinu til stjórnar til úrskurðar.

22. gr.

    Þar sem nokkrar nefndir, tækninefndir og verkefnahópar, vinna að verkefnum á svo skyldum sviðum, að telja má að þau myndi eiginlega heild, getur stjórnin stofnað fagstjórnir. Hlutverk þeirra er að samræma vinnu á sviðunum, raða verkefnum í forgangsröð og tryggja nána samvinnu við hagsmunaaðila.
    Stjórn skipar menn til setu í fagstjórnum og setur fagstjórnum formenn.

23. gr.

    Nú berast tilmæli frá hagsmunaaðilum á tilgreindu sviði um að stofnað verði fagráð til að stýra vinnu á sviðinu og með frjálsri aðild allra hagsmunaaðila og er þá stjórninni skylt að bregðast við tilmælunum.
    Í afgreiðslu stjórnar á tilmælunum skal stjórnin einkum taka tillit til þess:
    a.    hvort umrætt svið myndar eina heild eða hvort auka ber við umfang þess eða draga úr því,
    b.    hvort þeir aðilar sem fagráðsins óska, eða tilkynnt hafa um þátttöku í væntanlegu fagráði, séu fulltrúar víðtækra mismunandi hagsmuna á sviðinu,
    c.    hvort fyrirliggjandi verkefni réttlæti slíka vinnu sem fagráði fylgir,
    d.    hvort fé er tryggt til vinnunnar, þ.m.t. kostnaður sem skrifstofa Staðlaráðs kann að verða fyrir af starfinu.


24. gr.

    Aðilar að fagráði kjósa sér stjórn. Stjórn fagráðs skipar nefndir til starfa á sviði sínu í samræmi við meginreglur 16.–19. gr.
    Fagráð fylgir settum reglum Staðlaráðsins um starfsemina en setur sér sjálft nánari reglur. Stjórn Staðlaráðs skal staðfesta þær reglur áður en þær geta öðlast gildi.

25. gr.

    Nú hefur verið stofnað fagráð á tilteknu sviði og er þá lögð niður fagstjórn sem kann að hafa starfað á sviðinu.

26. gr.

    Stjórn skal skipa sérstaka nefnd til þess að gæta þeirra hagsmuna sem neytendur kunna að hafa af starfi ráðsins og leita tilnefningar launþegasamtaka og neytendafélaga í nefndina. Nefndin skal gera tillögur til stjórnar um verkefnaval og verklag við stöðlun sem varðar sérstaka hagsmuni neytenda.

27. gr.

    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra ráðsins, ákveður laun hans og setur honum erindisbréf. Framkvæmdastjóri ræður starfsfólk og annast daglegan rekstur ráðsins, svo sem nánar er tilgreint í erindisbréfi hans.

28. gr.

    Formaður ráðsins kemur auk framkvæmdastjóra fram út á við fyrir hönd ráðsins. Samningar um kaup á fasteignum og sölu þeirra eða um aðrar mikilvægar skuldbindingar skulu undirritaðir af formanni og tveimur stjórnarmönnum hið minnsta.
    Varaformaður stjórnar er staðgengill formanns í forföllum hans. Forfallist einnig varaformaður skipar stjórnin einn stjórnarmanna til þess að koma fram fyrir hönd ráðsins.

29. gr.

    Reikningsár Staðlaráðs er almanaksárið og skulu reikningar, endurskoðaðir af löggiltum og þar til kjörnum endurskoðendum, lagðir fram á aðalfundi til umræðu og úrskurðar.
    Reikningar ráðsins eru öllum opnir.

30. gr.

    Aðalfundur ráðsins ákveður aðildargjöld. Þess skal gætt í ákvörðun aðildargjalda að þau hindri ekki að mikilvægir hagsmunaaðilar geti átt aðild að ráðinu.
    Aðild getur verið full aðild, aðild að fagráði eða áskriftaraðild. Þegar rætt er um aðild í skjali þessu er átt við fulla aðild. Fulltrúaráðið ákveður nánari reglur um aðild, aðild að fagráði og áskriftaraðild, sem og reglur um aðildargjöld að fagráðum.

31. gr.

    Hagnaði, sem verða kann af starfsemi Staðlaráðs Íslands, má einvörðungu verja í samræmi við tilgang ráðsins og verkefni.

32. gr.

    Stjórnin getur staðfest skjal sem íslenskan staðal ef:
    a.    hún telur efni þess henta til útgáfu sem staðall,
    b.    skjalið hefur verið sent sem frumvarp til almennrar, opinnar gagnrýni þannig að þeir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta af efni skjalsins hafi getað haft áhrif á gerð staðalsins,
    c.    skjalið, efni þess eða efnismeðferð, kemur ekki í bága við skuldbindingar ráðsins á alþjóðavettvangi.
    Formlega telst frumvarp hafa verið sent til almennrar, opinnar gagnrýni ef annaðhvort hefur verið getið um það og umsagnarfrest við því í Staðlatíðindum eða í Lögbirtingablaðinu. Einnig skal, eftir því sem atvik bjóða hverju sinni, leitast við að sem flestum hagsmunaaðilum sé kunnugt um auglýst frumvörp sem þá kunna að varða hagsmuni þeirra.

33. gr.


    Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal á vegum Staðlaráðs gefa út Staðlatíðindi þar sem m.a. skal,
    a.    tilkynna um ný stöðlunarverkefni,
    b.    auglýsa frumvarp að staðli og kalla eftir athugasemdum innan tiltekins tímafrests og
    c.    tilkynna staðfestingu stjórnar Staðlaráðs á nýjum staðli ásamt lýsingu á meginefni hans.
    Geta skal útgáfu Staðlatíðinda í Lögbirtingablaði.
    Við útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests samkvæmt þessari grein skal miðað við að aðilar, er hagsmuna eiga að gæta, geti haft áhrif á gerð staðalsins svo sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Heimilt er að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not staðalsins. Staðlaráð skal halda staðlaskrá yfir alla gilda íslenska staðla og skal hún birt árlega.
    Nú er íslenskur staðall gefinn út í nýrri útgáfu og fellur þá eldri útgáfan úr gildi á gildistökudegi nýju útgáfunnar. Ef stjórn telur rökstudda ástæðu til er heimilt að ákveða að eldri útgáfan eða einstakir hlutar hennar gildi áfram á tilteknu notkunarsviði og um tiltekinn tíma.

34. gr.


    Nú hentar íslenskur staðall ekki lengur til þess er honum var ætlað og getur þá stjórnin þá ákveðið að nema hann úr gildi. Ákvörðun þessa efnis skal birt á opinberum vettvangi.

35. gr.

    Ráðið setur nánari reglur um einstök atriði er varða starfsemina, svo sem:
    a. skyldur þeirra er gegna trúnaðarstörfum fyrir ráðið,
    b. framsetningu staðla,
    c. notkun staðla við vottun og skylda starfsemi.

36. gr.

    Ákvæðum stofnskrár þessarar má breyta á aðalfundi og þarf tvo þriðju hluta atkvæða allra aðila að Staðlaráði Íslands til að breyta þeim. Heimilt er að á aðalfundi verði ákveðið að aðilar greiði skriflega atkvæði um breytingartillögur innan frests sem ákveðinn er á fundinum. Leita skal staðfestingar iðnaðarráðherra á breytingum og taka breytingarnar gildi að fenginni þessari staðfestingu.

37. gr.

    Nú samþykkja tveir þriðju hlutar aðila að Staðlaráði Íslands að leggja ráðið niður og skal það þá gert að fengnu samþykki iðnaðarráðherra. Stjórn Staðlaráðsins gerir tillögu til iðnaðarráðherra um ráðstöfun eigna ráðsins.

38. gr.

    Stofnskrá þessi tekur gildi ...