Ferill 519. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 519 . mál.


Ed.

1303. Nefndarálit



um frv. til l. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.

Frá minni hl. sjávarútvegsnefndar.



    Það frumvarp, sem hér er til umræðu, hefur verið til meðferðar í deildum þingsins undanfarnar vikur. Leitað hefur verið álits aðila úr sjávarútvegi og fiskiðnaði um efni frumvarpsins. Meginþorri þeirra hefur lýst yfir andstöðu við það og lýst þeirri skoðun sinni að eðlilegt sé að atvinnugreinin njóti að fullu þeirra tekna sem myndast á hverjum tíma við sölu sjávarafurða og hafi þær til ráðstöfunar. Er það í samræmi við þróun mála í nágrannaríkjum Íslands þar sem hinn frjálsi markaður ræður ríkjum.
    Með þessu frumvarpi er verið að skerða samkeppnishæfni íslenskrar fiskvinnslu sérstaklega og staða hennar á hverjum tíma notuð sem hagstjórnartæki til að ná fram almennum markmiðum í stjórn efnahagsmála. Við þetta er sjávarútvegur og fiskiðnaður settur í verri stöðu en aðrar atvinnugreinar. Við það er ekki hægt að una. Í því felst óréttlæti og mismunun sem brýtur í bága við það grundvallaratriði að allir skuli hafa sama rétt og aðstöðu til atvinnurekstrar.
    Íhlutun sem þessi mun hafa skaðleg áhrif á rekstrar- og samkeppnisstöðu mikilvægustu atvinnugreinar landsmanna. Með tilliti til þess leggja undirritaðir til að frumvarpið verði fellt.

Alþingi, 5. maí 1990.



Guðmundur H. Garðarsson,


frsm.


Halldór Blöndal.