Bygging og rekstur álvers
Mánudaginn 15. október 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft að gera hér grein fyrir stöðu umhverfisathugana varðandi byggingu fyrirhugaðs álvers en fyrst langar mig til að fara örfáum almennum orðum um þetta mál. Ég hef talið skynsamlegt og nauðsynlegt að stuðla að nýtingu orkulinda hér á landi. Þar hlýtur álver vissulega að vera kostur sem við tökum til mjög alvarlegrar athugunar ef slíkt tækifæri sem hér er verið að ræða um gefst og við hljótum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að ná slíkum samningum séu þeir mögulegir. En að sjálfsögðu tek ég undir með hv. 6. þm. Reykv. Kristínu Einarsdóttur að þar hljóta umhverfismálin að skipta mjög miklu máli og kannski eru þau einhver mikilvægasti hluti þessa máls.
    Ég get fullvissað hv. 6. þm. Reykv. um að búið er að leggja gífurlega vinnu í að rannsaka umhverfisáhrif frá væntanlegu álveri og fara í það á eins vísindalegan og faglegan hátt og nokkur kostur hefur verið. Umhverfisráðuneytið kom ekki að þessu máli fyrr en eftir þinglok í vor sem leið vegna þess einfaldlega að fyrr var ekki úr því skorið að umhverfisráðuneyti yfirleitt færi með þennan málaflokk. Til þess að rifja það upp var það ekki fyrr en síðasta dag þingsins í vor sem leið að Alþingi samþykkti lög um verkefni umhverfisráðuneytisins sem fólu það í sér m.a. að umhverfisráðuneytið skyldi fara með yfirumsjón mengunarvarna og þar með hafa umsjón með því að ákvæðum mengunarvarnareglugerðar væri framfylgt. Strax og það var staðfest með reglugerð sem birtist í Stjórnartíðindum þann 7. júní sl. var hafinn undirbúningur að því að taka við þessum málum og þar með rannsóknum vegna umhverfisáhrifa frá væntanlegu álveri. Til að það mætti vinnast á faglegan og vísindalegan hátt skipaði umhvrh. nefnd fagmanna til þess að sinna þessu verkefni. Nefndin er svo skipuð: Eggert Steinsen verkfræðingur er formaður hennar, en hann á einnig sæti í ráðgjafarnefnd iðnrn. um álmálið og hefur í þeirri nefnd lagt sig sérstaklega eftir að kynna sér umhverfismál og mengunarvarnir eftir fremsta megni. Aðrir nefndarmenn eru Gísli Már Gíslason prófessor, Ragnar Sigurbjörnsson prófessor, Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarsérfræðingur hjá ráðuneytinu, Þóroddur Þóroddsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs, og Þorsteinn I. Sigfússon prófessor. Framkvæmdastjóri og ritari nefndarinnar er Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarnasviðs Hollustuverndar ríkisins. Með nefndinni starfar að auki Sigurbjörg Gísladóttir, efnaverkfræðingur hjá Hollustuvernd ríkisins.
    Reynt var að ná saman sérfræðingum og fagmönnum sem líklegt væri að gætu unnið þetta mál á grundvelli faglegra og vísindalegra upplýsinga og gætu komið með ábendingar um það til umhverfisráðuneytisins hvernig best skyldi haldið á þessu máli. Ég er sannfærður um að það hefur tekist mjög vel. Ég held að allir geti verið mér sammála um það að í nefndinni eru einstaklingar sem hver á sínu sviði eru mjög vel að sér um hin ýmsu mál og hin ýmsu atriði sem

varða umhverfisþáttinn og ég held að við getum treyst því að þar sé unnið á faglegan og vísindalegan hátt.
    Þessi nefnd hefur skilað mjög mikilvægu starfi og er komin vel á veg í undirbúningi að starfsleyfi fyrir fyrirhugaða álbræðslu, en svokölluð starfsleyfisdrög voru kynnt ráðherrum ríkisstjórnarinnar á fundi sem stóð í þrjá tíma fyrir hádegi í morgun.
    Ég skal reyna að fara nokkrum orðum um hvers við höfum orðið vísari í þessari undirbúningsathugun okkar varðandi mengunarvarnir í fyrirhuguðu álveri. Starfsleyfið sem slíkt verður mjög umfangsmikið og ítarlegt þar sem verður greint mjög nákvæmlega frá forsendum hinna ýmsu mála sem varðar rekstur álversins. Þar er kveðið mjög rækilega á um hvernig skuli staðið að vörnum gegn loftmengun, hvernig skuli staðið að vörnum gegn mengun vegna frárennslis og úrgangs frá verksmiðjunni og sömuleiðis hvernig skuli komið í veg fyrir önnur umhverfisáhrif og ýmis atriði sem varða útlit verksmiðjunnar og ýmiss konar frágang á verksmiðjusvæði o.s.frv. eins og gengur í sambandi við útgáfu starfsleyfa til mengandi atvinnurekstrar. Ég efast um að nokkurt einasta fyrirtæki sem hefur verið tekið til athugunar hér á landi og þarf að gefa út starfsleyfi fyrir, hafi fengið eins ítarlega umfjöllun og þetta fyrirtæki, enda er það að sjálfsögðu nauðsynlegt því að hér er um alvarlega hluti að ræða.
    Nefndin hefur farið og kynnt sér nýtískuleg álver í öðrum löndum. Sumir nefndarmanna hafa m.a. heimsótt tilraunaverksmiðju franska fyrirtækisins Pechiney í Suður - Frakklandi. Þar er um að ræða einhvern fullkomnasta mengunarvarnabúnað sem þekkist í heiminum í dag í áliðnaði, en hann er hafður þar til rannsókna og tilrauna. Nýlega fóru þrír fulltrúar nefndarinnar til Bandaríkjanna til þess að kynna sér rekstur álvers sem Alumax, eitt fyrirtækjanna í Atlantsálshópnum, rekur í Suður - Karolína í Bandaríkjunum til þess að kynnast þar af eigin raun hvernig mengunarvörnum þar er háttað og enn fremur eiga þar viðræður við fulltrúa allra fyrirtækjanna þriggja sem standa að Atlantsálsverkefninu. Þar náðist samkomulag um mjög mikilvægt atriði sem mig langar til að greina hér frá en það er samkomulag um að vera með viðameiri mælingar og sívirkar athuganir á öllum umhverfisþáttum hins nýja álvers en nokkurs staðar þekkist í heiminum í dag. Við teljum að þarna hafi náðst mjög merkilegur áfangi á þeirri leið að tryggja hinar ýtrustu mengunarvarnir í álverinu, þ.e. að fá samþykki fyrir jafnviðamikilli mælingaáætlun og sívirkum athugunum á öllum þeim mengunarefnum sem álverið lætur út í andrúmsloftið og þar náðist samkomulag um. Í mörgum tilvikum var t.d. um það að ræða að hinir bandarísku aðilar töldu að slíkar sívirkar athuganir sem fulltrúar nefndarinnar lögðu til væru ekki framkvæmanlegar en þá gerðist það að fulltrúar Hollendinganna sem eru þýskir umhverfisverkfræðingar gátu greint frá því að slíkar mælingar væru mögulegar og væru þekktar í Þýskalandi. Og í sumum tilvikum voru það Svíarnir sem gátu greint frá því að þær mælingar, sem bæði hinn þýski fulltrúi hollenska fyrirtækisins og jafnvel Bandaríkjamennirnir töldu óframkvæmanlegar, væru þekktar í Svíþjóð. Þannig tókst að ná samkomulagi um það besta sem þessar þrjár þjóðir geta sameiginlega lagt fram á þessum vettvangi. Því segi ég það að bara þetta eina atriði tryggir kannski í framtíðinni betur en nokkuð annað að fullkomnustu mengunarvörnum verði þarna komið við sem hægt er að hugsa sér. Því það eru einmitt athuganir, sívirkar athuganir á því hvað er að gerast á staðnum sem skila mestum árangri til þess að koma í veg fyrir mengun.
    Að sjálfsögðu hefur nefndin sérstaklega athugað þrjá meginþætti mengunarvandamálanna, en þar er flúormengunin líklega mikilvægust því að hún er langhættulegust. Hefur að sjálfsögðu mest verið rannsakað hvernig megi koma í veg fyrir flúormengunina og nefndin varið miklum tíma í að rannsaka þau mál mjög vandlega.
    Það er svo að í OECD - löndunum eru gerðar mismunandi kröfur um heildarflúormengun frá þeim álverum sem eru starfrækt og virðast norskar kröfur um hámark 0,8 kg af heildarflúori sem er beint út í andrúmsloftið miðað við eitt framleitt tonn af áli vera þær ströngustu sem gilda í OECD - löndum. Það eru þekktar strangari kröfur í einstaka fylkjum í Bandaríkjunum, en hvað varðar Bandaríkin í heild sinni, þá setur bandaríska umhverfismálastofnunin þá meginkröfu að eigi megi setja meira en 0,95 kg af flúori út í andrúmsloftið frá álverum miðað við eitt framleitt tonn af áli. Ég get fullvissað hv. 6. þm. Reykv. um að við verðum verulega lægri en hér er verið að tala um. Ég get ekki greint frá því hver talan er því að við erum að vinna að gerð starfsleyfis þessa dagana og ég vil að við fáum að vinna það í friði án þess að það sé verið að hrópa um það í fjölmiðlum hver þessi mörk eru, enda er ekki búið að ganga frá þeim endanlega. Ég hef sett mér það markmið að fara sjálfur og skoða umrætt tilraunaálver í Suður - Frakklandi til þess að ganga úr skugga um það með eigin augum hvað hægt sé að gera. Ég er nýlega kominn heim úr ferðum til Svíþjóðar þar sem ég heimsótti álverið í Sundsvall í Mið - Svíþjóð og fékk tækifæri þar til þess að kynnast af eigin raun hver er munurinn á gamla og nýja tímanum. Það var ákaflega fróðlegt vegna þess að þar er um að ræða 100 þús. tonna álver sem er af svipaðri stærð og álverið í Straumsvík. Um einn fjórði framleiðslunnar í álverinu í Sundsvall í Svíþjóð er framleiddur í nýrri verksmiðju sem var tekin í notkun seint á árinu 1986, en 3 / 4 hlutar framleiðslunnar eru í mjög gömlu veri sem minnir óneitanlega á álverið í Straumsvík. Það var mjög fróðlegt að koma í þetta álver og sjá muninn á þessum tveimur framleiðslumöguleikum.
    Í nýrri hlutanum var hægt að ganga um í kerskálanum eins og maður væri staddur uppi í sveit í góðu lofti, en í gamla hlutanum sást ekki nema nokkra tugi metra fram í skálann fyrir rykmekki og þeirri loftmengun sem þar var um að ræða. Því held ég að við getum fagnað því að það sem er verið að tala um að byggja á Keilisnesi er í samræmi við nýrri hluta sem þar gat að líta, þ.e. þar sem ekki varð vart við neina

verulega loftmengun, en þar er beitt nýrri og fullkominni tækni.
    Það er svo að því meira flúor sem sleppur út í andrúmsloftið frá álverinu þeim mun lélegri er reksturinn og það veldur framleiðandanum tapi að missa flúorið út í andrúmsloftið. Það er því í hag framleiðandans að reyna að ná öllu flúori, helst hverri einustu agnarögn sem fer frá kerskálanum, til baka inn í framleiðsluna því að hér er um að ræða mjög dýrt efni sem framleiðandinn hlýtur að vilja koma í veg fyrir að sleppi burtu frá verinu. Því held ég að við getum a.m.k. treyst því að sá framleiðandi sem vill hafa reksturinn í lagi hjá sér, geri allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að flúorið sleppi út í andrúmsloftið, hann vill fá það til baka inn í framleiðsluna. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu hljótum við að gera það og við munum setja miklar og strangar kröfur þar um og ég hef ekki trú á öðru en það náist viðunandi samkomulag þar um. Ég heyrði það m.a. hjá þeim í Sundsvall að þeir hafa yfir tveggja ára tímabil getað haldið flúormenguninni fyrir neðan 1 / 2 kg á framleitt tonn af áli og ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að það sama verður uppi á teningnum í álverinu á Keilisnesi. Jafnvel tel ég allar líkur á því að í reynd verði flúormengunin enn minni. Ég geri ráð fyrir því og hef fyrir því viss rök að flúormengunin muni að staðaldri ekki vera nema í kringum 0,3 kg á framleitt tonn af áli.
    Hins vegar er eitt sem hinir erlendu samstarfsaðilar benda á sem við hljótum af sanngirnisástæðum að taka tillit til og það er að þeir benda réttilega á að hreinsibúnaðurinn, hinn fullkomni tæknibúnaður sem er tiltækur í heiminum í dag til þess að koma í veg fyrir flúormengun einn sér leysir ekki nema kannski helminginn af dæminu. Það eru starfsmennirnir sjálfir sem leysa hinn þáttinn, þ.e. það er samviskusemi starfsmannanna og einbeittur vilji allra þeirra sem vinna í álverinu að koma í veg fyrir mengunina. Ef það yrði slæmur andi í álverinu, sem því miður gæti gerst, tíðar vinnudeilur og kaupdeilur þannig að starfsfólkið væri óánægt, þá mundi það valda miklu, miklu meiri mengun heldur en búnaðurinn segir til um. Þess vegna höfum við litið svo á að það sé skynsamlegt að sjá hvernig reksturinn verður og taka lokaákvörðun um endanleg mörk þegar er komin full reynsla á reksturinn og búið er að þjálfa starfsliðið sem þar verður að verki.
    Þá langar mig til þess að koma að öðrum þætti loftmengunar sem er svokallað brennisteinstvíildismál, þ.e. það brennisteinstvíildi sem verksmiðjan mun senda frá sér. Um það hefur farið fram mikil umræða hér í þjóðfélaginu. Því miður hafa verið mjög rangar og villandi upplýsingar í umræðunni og verð ég að beina nokkurri gagnrýni til fjölmiðla sem hafa reynt að grípa það mál á lofti og búa til hasar í kringum það en hafa haft minni áhuga á því að afla sér nákvæmra upplýsinga um hvað hér er á ferðinni.
    Það er svo að ekkert OECD - land gerir kröfu um vothreinsibúnað í álverum. Hvorki Noregur né Svíþjóð, eins og þó hefur margoft verið haldið fram í

umræðunni, gera almenna kröfu um að notaður skuli vothreinsibúnaður í álverum til þess að ná brennisteinstvíildismengun úr loftinu.
    Í Noregi munu vera átta álver í rekstri. Sjö þeirra eru með vothreinsibúnað af allt öðrum orsökum. Þar er um að ræða gamaldags framleiðslu með svokölluðum Söderberg - rafskautum eða forskautum sem eru mjög mengandi vegna þeirrar gamaldags framleiðsluaðferðar sem þar er notuð. Þar losnar mikil tjara sem fer út í andrúmsloftið og það er fyrst og fremst til þess að ná henni, svo og flúornum úr útblæstri frá slíkum álverum, að þar hefur verið beitt þeirri tækni að setja upp vothreinsibúnað. Fulltrúar umhverfisráðuneyta, bæði í Noregi og í Svíþjóð, hafa tjáð mér að þeir muni ekki fyrir fram gera neinar kröfur um vothreinsibúnað í nýjum álverum. M.a. kom það fram hjá fulltrúum sænska umhverfisráðuneytisins að langt hefði verið komið með að undirbúa starfsleyfi fyrir nýtt álver í Norður - Svíþjóð sem átti að rísa í námunda við Kiruna, þar sem skýrt var tekið fram í starfsleyfisdrögunum að ekki mætti nota vothreinsibúnað. Ástæðan fyrir því var sú að ekki væri talið heppilegt að leiða brennisteinstvíildi út í vatnið sem þar er nærri en þessu álveri hafði verið valinn staður um 3 km frá strönd þannig að í því starfsleyfi eða þeim drögum sem þar voru í undirbúningi var það skýrt tekið fram að ekki skyldi notaður vothreinsibúnaður.
    Við höfum rannsakað þetta mál mjög vandlega og reynt að komast að skynsamlegri niðurstöðu um það hvað skuli gera í þessu efni. Við höfum sérstaklega beint augum okkar að sjálfum rafskautunum, þ.e. forskautunum, en það er þaðan sem brennisteinsmengunin kemur, þ.e. vegna brennisteinsinnihalds í forskautunum. Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp stutta greinargerð sem fjallar um þetta mál sérstaklega.
    ,,Við álframleiðslu eru notuð rafskaut sem unnin eru úr olíukoksi. Kolefni skautanna binst súrefni súrálsins og myndar loks koltvísýring. Skautin innihalda einnig brennistein og þungmálma eins og t.d. vanadium. Brennisteinninn brennur í súrefni og myndar brennisteinsdíoxið, SO 2 . Almennt er litið svo á að mikilvægustu mengunarvarnir við álbræðslu felist í hreinsun flúors sem losnar við bræðsluna í álkerum og getur verið skaðlegur lífverum. Hann er hreinsaður með svokölluðum þurrhreinsibúnaði. Hins vegar er þess almennt ekki krafist að brennisteinsdíoxíð sé hreinsað. Skýrsla Sameinuðu þjóðanna frá 1981 fjallar um brennistein og kemst að eftirfarandi niðurstöðu.
    Í stuttu máli má segja að SO 2 - hreinsun sé ekki nauðsynleg. Ef þess er samt sem áður krafist í undantekningartilvikum á að hreinsa reykinn frá álverinu, þ.e. frá kerunum, með fersku vatni, með svokallaðri kalsíneringu eða með sjó. --- Ég skal geta þess í framhjáhlaupi hér að ég hef gert ráðstafanir til þess að spyrjast fyrir um það hjá Umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hvort þessi umsögn standi óbreytt enn þann dag í dag því að hér er um að ræða níu ára gamla skýrslu og ég á von á niðurstöðum um það fljótlega.

    Vothreinsun brennisteins krefst þess að gífurlegu magni af sjó sé dælt í vothreinsunarturn og sjónum úðað yfir loftstrauminn frá álkerunum. Sölt í sjónum binda brennisteinsdíoxíðið og frá sjóþvottaturninum er dælt brennisteinsmenguðum sjó. Brennisteinsdíoxíð frá álverinu á Keilisnesi bærist að miklu leyti á haf út þar sem það dreifðist og endaði að mestu leyti í hafi á innan við viku. Niðurstöður útreikninga á SO 2 - útbreiðslu sýna að hún verður ekki yfir mengunarmörkum á Keilisnesi.
    Ráðgjafarnefnd umhverfisráðuneytis hefur kannað nýtni sjóþvottar og gæði rafskauta á heimsmarkaði. Nýtnin er ófullkomin og brennisteinsmenguð kol mundu hleypa töluverðu SO 2 fram hjá sjóvöskun. Mikill gæðamunur er á rafskautamassa sem fáanlegur er á markaðnum. Búist er við að brennisteinninn muni aukast í rafskautamassa á komandi áratugum. Nefndin hefur bent á að skynsamlegt sé að binda Atlantsálsfyrirtækið til þess að nota aðeins tiltölulega brennisteinssnauð rafskaut og gera kröfu um hámark brennisteinsinnihalds í rafskautum. Um leið og SO 2 - mengun verður þannig takmörkuð minnkar einnig þungmálmamengun, t.d. vanadium. Í tillögum að starfsleyfi sem ráðgjafarnefndin hefur fjallað um er ekki gert ráð fyrir sjóvöskun en eindregið lagt til að tiltölulega brennisteinssnauð rafskaut verði notuð við bræðsluna. Þá er einnig gert ráð fyrir ítarlegri mengunarmælingum hjá Atlantsáli en almennt tíðkast og uppsetningu búnaðar til brennisteinshreinsunar ef mengunarmörk verða yfirstigin. Með stöðugum mælingum á mengunarþáttum eins og flúor og SO 2 í umhverfi álversins verður unnt að fylgjast fullkomlega með mengun versins og stjórna rekstri þess til að halda mengun í lágmarki.
    Hér er sú leið sem er verið að athuga þessa stundina en um það hefur þó ekki verið tekin lokaákvörðun. Hún er sú að gera kröfu um það að aðeins verði notuð brennisteinssnauð forskaut í verinu. Þar er verið að tala um tölur eins og 2% eða þar um bil. Verði um það að ræða á síðari stigum á samningstímabilinu að ekki séu fáanleg brennisteinssnauð forskaut eða það verði að fara í að nota forskaut með kannski brennisteinsinnihaldi allt upp í 5% eins og er víða þekkt í heiminum í dag, þá verði starfsleyfið tekið til endurskoðunar. Þá er gert ráð fyrir því að vel geti komið til þess að sett verði fram krafa um vothreinsibúnað. Því geri ég ráð fyrir því að álverið verði hannað með tilliti til vothreinsibúnaðar þannig að það sé auðvelt að koma honum upp ef um það komi krafa.
    Mig langar svo aðeins að fjalla áfram um hvað brennisteinstvíildismengunin er í raun og hvernig þetta lítur út í alþjóðlegu samhengi miðað við það sem er að gerast á Íslandi þessi árin. Það hefur komið fram að aukning á brennisteinstvíildi vegna reksturs álversins verður mjög mikil miðað við það sem þegar fellur til á landinu í heild sinni. En ekki er allt sem sýnist í þeim athugunum. Við skulum fara aðeins lauslega yfir hvað við leggjum til af brennisteinsmengun í andrúmslofti. ( Forseti: Má ég biðja hæstv. ráðherra að gera hlé á máli sínu. Ég vil upplýsa hv. þingheim

um að hugmyndin er að fresta fundi kl. 5 og ég vildi láta hæstv. ráðherra vita af því svo að hann gæti e.t.v. tekið mið af því í sinni ræðu ef hann kýs að ljúka máli sínu fyrir kl. 5, en síðan yrði fundi fram haldið kl. 9. Þetta vildi ég aðeins láta hæstv. ráðherra vita af.)
    Hæstv. forseti. Ég tel að ég geti lokið máli mínu á kannski rúmlega 5 mínútum. Ég ætlaði rétt aðeins að gera grein fyrir þeirri brennisteinsmengun sem verður hér á landi af völdum ýmiss konar starfsemi og bera það saman við það sem kemur frá hinu nýja álveri. Ef ég fer lauslega yfir það, þá mun brennisteinsmengun vegna almenns iðnaðar á Íslandi valda losun út í andrúmsloftið sem nemur 5 þús. tonnum á ári. Frá fiskiskipum koma um 1200 tonn, frá bifreiðum um 300 tonn, frá millilandaskipum um 4 þús. tonn og frá skipum í siglingum innan lands um 200 tonn. Samtals gerir þetta um 10.700 tonn. Ef millilandaskipin eru undanskilin, sem má kannski með vissum rökum réttlæta að sé gert, þá er samtalan fyrir landið um 6700 tonn af brennisteini sem fer út í andrúmsloftið á ári. Sé miðað við 2% brennisteinsinnihald í forskautum í nýju 200 þús. tonna álveri mun losun frá því nema 4000 tonnum á ári en það er um 60% aukning.
    Hér hefur algerlega verið horft fram hjá því brennisteinsmagni sem kemur frá jarðvarmavirkjunum sem við eigum og rekum. Ef þeim tölum er bætt við er um að ræða að brennisteinsvetni í gífurlegu magni er losað út í andrúmsloftið frá Svartsengi, Nesjavöllum og Kröflu. Það er að vísu alltaf spurning hvaða efnasambönd myndast, hvað verður um brennisteinstvíildi frá álveri og sömuleiðis um brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum. Ef miðað er við ýmsar alþjóðlegar samþykktir sem ganga yfirleitt út á það hver er losun á brennisteini út í andrúmsloftið, þá má, ef við tökum tillit til alls þessa, reikna með því að aukningin sem álverið veldur verði á bilinu 5 -- 20%, kannski í kringum 10%. Ég segi þetta ekki til að afsaka eitt eða neitt, en þetta eru þær staðreyndir sem við höfum á borðinu og það eru þær sem við verðum að horfa á þegar við erum að taka þær ákvarðanir sem nú er verið að taka þessa dagana. ( HG: Er það ekki erfiðara vegna þessa, það er svo mikið fyrir.) Vissulega er það erfið ákvörðun að gefa út starfsleyfi fyrir mengandi iðnað eins og álver. Ég er ekkert að leyna því. En það verður að vega og meta hvernig skuli staðið að því til þess að koma í veg fyrir að mengun frá álverinu verði mikil. Að við getum fullvissað okkur um það að allt verði gert til þess að koma í veg fyrir að mengunin fari yfir þau mörk sem við teljum skynsamleg og eðlileg. Ég held að við séum á réttum vegi þar. Hins vegar verð ég að segja eins og er að því miður er um að ræða mikinn atvinnurekstur hér í landi sem veldur tiltölulega mikilli mengun og væri kannski miklu eðlilegra og nær að eyða meiru púðri á það. Þar á ég t.d. við mengun frá fiskvinnsluhúsum og fiskeldisstöðvum og mörgum öðrum fyrirtækjum. Ég vildi svo sannarlega vonast til þess að þingheimur sem hér hefur haft skoðun á álverinu komi

líka til hjálpar þegar við förum að taka á þeim málum.
    Ég skal láta þetta nægja í bili, hæstv. forseti. --- [Fundarhlé.]