Bygging og rekstur álvers
Fimmtudaginn 18. október 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vísaði ég til ummæla hv. 2. þm. Reykv. sem sæti á í stjórn Landsvirkjunar, Birgis Ísl. Gunnarssonar, og ræðu hans hér á mánudag um samskipti stjórnar Landsvirkjunar við ráðgjafarnefndina og mér skilst að hæstv. iðnrh. kalli hv. 2. þm. Reykv. ósannindamann af því sem hann sagði þá um þær upplýsingar sem ekki lágu lausar við stjórn Landsvirkjunar, og skal ég ekki um það segja. Það er mál hv. 2. þm. Reykv. og iðnrh. hvor þar sagði satt. En ég mun að sjálfsögðu inna hann nánar eftir því.
    Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því að tveir ráðherrar Alþb. a.m.k., hæstv. menntmrh. og hæstv. landbrh., hafa lýst því yfir að það væri algjört skilyrði af hálfu Alþb. um stuðning við álver að það lyti að öllu leyti íslenskum lögum. Nú er það yfirlýst af hæstv. iðnrh. að í þeim samningadrögum sem fyrir liggja er gert ráð fyrir að þau atvik geti komið upp sem geri það nauðsynlegt að alþjóðlegur gerðardómur skeri úr um ágreiningsefni milli Álfélagsins og íslenskra stjórnvalda, þar sem iðnrh. hefur staðfest þann skilning minn að orðið ,,almennt`` í staflið j, um niðurstöðu í meginatriðum um samningsatriði er varða aðalsamninginn, þýði yfirleitt. Ég er ekki að gagnrýna að sá háttur skuli á hafður. Ég vek einungis athygli á því að Alþb. hefur gert það að algjöru skilyrði, ekki veit ég betur, að öll slík ágreiningsmál verði leyst fyrir íslenskum dómstólum.
    Ég vil í þriðja lagi vekja athygli á því að ég spurði hæstv. iðnrh. að því í minni ræðu hvort þessi skýrsla væri lögð fyrir þingið á hans ábyrgð eina en ekki ríkisstjórnarinnar. Ég spurði hann að því hvort hann teldi sig þurfa að bera einstök efnisatriði undir ríkisstjórnina, fá samþykkt hennar í sambandi við álsamningana, og hann svaraði með því að tala um að álsamningarnir yrðu að lokum bornir undir Alþingi sem við vitum auðvitað báðir að hefur úrslitaorðið í þessum efnum. Með ummælum sínum staðfesti hæstv. iðnrh. að hann vinnur að samningsgerðinni við Atlantalhópinn á eigin ábyrgð og hluta ríkisstjórnarinnar en ekki í nafni ríkisstjórnarinnar allrar.
    Það er nauðsynlegt, hæstv. forseti, að þetta komi fram. Það lýsir því að ríkisstjórnin er ekki samhent í þessu máli. Þvert á móti er hún sundruð. Það veikir samningsstöðu okkar og gerir framgöngu hæstv. iðnrh. í málinu ótrúverðuga, bæði gagnvart Íslendingum og erlendum samningamönnum.