Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir rúmlega ári síðan stóðum við þingmenn Borgfl. frammi fyrir örlagaríkri ákvörðun, hvort við ættum að ganga til liðs við þáverandi stjórnarflokka og mynda nýja ríkisstjórn með traustum þingmeirihluta, eða hjálpa sjálfstæðismönnum á þingi við að knýja fram kosningar svo þeir gætu tekið völdin aftur í sínar hendur.
    Þegar horft er yfir farinn veg er enginn vafi í mínum huga að við tókum rétta ákvörðun. Ótrúlegur árangur hefur náðst í efnahags - og atvinnumálum, friður ríkir á vinnumarkaði um kjarasáttina sem náðist í vetur á þeim grundvelli sem skapaðist fyrir tilstilli Borgfl. Verðbólgan, hinn mikli ógnvaldur á Íslandi, virðist loks ætla að láta í minni pokann og ætla að haldast varanlega innan við 10%. Hún mælist nú aðeins 1,8% síðustu þrjá mánuði og er þannig minni en víðast hvar í allri Evrópu. Vextir hafa heldur lækkað og fjármagnskostnaður atvinnulífsins er mun bærilegri en áður, þótt bankarnir hafi verið furðu tregir til að viðurkenna nýja tíma og miða vextina við verðbólgustigið. Helstu matvæli lækkuðu í verði um síðustu áramót og hafa ekki hækkað síðan. Þó þarf að gera miklu betur á þeim vettvangi og væntum við þess að enn frekari skref verði stigin til að draga úr skattlagningu á matvælum um næstu áramót.
    Þá hillir loks undir að við losnum við lánskjaravísitöluna sem í mínum huga er niðurlægingartákn fyrir þá óstjórn sem hér hefur verið til margra ára. Ekkert annað Evrópuríki notar verðtryggingu á fjármagn eins og við gerum. Ég óttast að verði lánskjaravísitalan ekki aftengd muni síður verða hamlað gegn því að verðbólgan espist á nýjan leik. Fjármagnseigendur hafa nefnilega allt sitt á þurru. Þeim er alveg sama þótt verðbólgan geysist áfram. Lánskjaravísitalan verndar þá. Því vill Borgfl. beita sér fyrir því að önnur og nútímalegri form fjárskuldbindinga verði tekin upp í stað lánskjaravísitölu.
    Virðulegi forseti. Umhverfisspjöll eru mikið áhyggjuefni almennings um heim allan. Til skamms tíma fór hljótt um þá umræðu á Íslandi en hún er nú komin í fullan gang. Í hinu nýja umhvrn. er verið að vinna að stefnumótun í ýmsum mikilvægum málaflokkum á þessu sviði. Bætt sorphirða og aukin endurvinnsla er meðal þeirra mála sem eru langt á veg komin. Þá er verið að undirbúa almenna löggjöf um umhverfisvernd og skipulag hennar. Verndun hálendis Íslands, aukið eftirlit með villtum dýrum og verndun þeirra er meðal þeirra mála sem eru í undirbúningi. Þá hefur ráðuneytið hafið afskipti af gróðurvernd og m.a. beitt sér fyrir friðun tiltekinna svæða fyrir beit. Stærsta málið sem unnið er að í umhvrn. þessa stundina er þó án efa undirbúningur að útgáfu starfsleyfis fyrir nýtt álver á Keilisnesi sem Borgfl. styður heils hugar. Álver, eins og við þekkjum þau, eru óneitanlega mengandi iðnaður og okkur ber að tryggja að nýtt álver hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið. Samkomulag hefur náðst um umfangsmeiri mælingar og ítarlegra eftirlit með öllum mengunarþáttum en gerist í nokkru öðru álveri sem nú er rekið í heiminum. Þetta ásamt ströngum kröfum um hámark mengunar tryggir betur en allt annað að hægt verði að halda henni í skefjum. Flúormengun er langalvarlegasti mengunarþáttur í rekstri álvera. Með nýrri tækni sem verður notuð á Keilisnesi er hægt að halda flúormengun í algeru lágmarki. Brennisteinstvíildismengun er einnig áhyggjuefni vegna alþjóðlegra skuldbindinga um að draga úr slíkri mengun þótt áhrif hennar séu mjög lítil fyrir utan verksmiðjusvæðið. Ýmsir hafa því kallað á svokallaðan vothreinsibúnað til að hreinsa burt brennisteinstvíildið.
    Virðulegi forseti. Hér er um vandasama ákvörðun að ræða. Vothreinsibúnaður hreinsar um 80 -- 90% af brennisteinstvíildinu úr útblástursloftinu og flytur það í staðinn út í sjó. Magn brennisteinstvíildis ræðst af brennisteinsinnihaldi í rafskautum. Ef brennisteinsinnihald þeirra er mjög lítið fara tæplega 4000 tonn af brennisteinstvíildi út í andrúmsloftið á ári hverju án vothreinsibúnaðar. Til samanburðar má geta þess að sambærilegt magn af brennisteini mun fara út í andrúmsloftið á ári hverju frá Nesjavallavirkjun. Æ erfiðara verður að fá hrein skaut á heimsmarkaði. Með mjög óhreinum rafskautum gæti þrátt fyrir vothreinsibúnað farið allt að 2000 tonnum af brennisteinstvíildi út í andrúmsloftið. Óhreinum rafskautum fylgir að auki mikil þungmálmamengun og ýmis önnur eiturefni sem með vothreinsibúnaði mundu berast beint út í sjó. Mig hryllir við þeirri hugsun að dæla vanadíumþungmálmi og öðrum óþverra beint í sjóinn við hliðina á einhverjum hreinustu og bestu fiskimiðum heimsins. Vothreinsibúnaður til að hreinsa burt brennisteinstvíildi byggir á gamaldags aðferð. Verið er að þróa nýja tækni sem víða er komin í notkun, t.d. að hreinsa brennisteinstvíildið með kalkupplausn sem þá breytist í gifs og ekkert fer í sjó. Því höfum við ákveðið að setja fyrst um sinn stranga kröfu um hámarksbrennisteinsinnihald rafskauta en krefjast ekki vothreinsibúnaðar. Jafnframt eru skýr ákvæði í starfsleyfinu um að hreinsun á brennisteinstvíildi skuli tekin upp um leið og ekki fást lengur hrein skaut. Verði þá tekinn í notkun fullkomnasti hreinsibúnaður sem þá er völ á. Með þessum hætti teljum við að mun betur sé séð fyrir hreinsun á brennisteinstvíildinu til langframa en að krefjast vothreinsibúnaðar strax sem gæti valdið mengun í hafinu við Reykjanes. Meginatriðið er að koma í veg fyrir umhverfisspjöll en ekki að setja upp einhvern ákveðinn búnað.
    Virðulegi forseti. Aldrei sem nú hefur verið jafnmikilvægt að Íslendingar snúi bökum saman og takist á við hin erfiðu og flóknu mál sem bíða þeirra á alþjóðlegum vettvangi, einkum vettvangi Evrópusamstarfsins. Því miður eyðum við allt of miklum kröftum í fánýtar erjur og illdeilur innan lands. Borgfl. býður upp á valkost. Við viljum takast á við vandamálin á grundvelli nýrra hugmynda og laða fram sjálfsagðar og skynsamlegar breytingar á íslensku þjóðfélagi. Við eigum hvorki við fortíðarvandamál að stríða né heldur erum við bundin á klafa hagsmunagæslu og kjördæmapots. Ég skora á alla umbótasinnaða landsmenn sem aðhyllast stefnu frjálslyndis og umburðarlyndis að taka nú höndum saman og hjálpast að við að leiða þjóðina inn í 21. öldina. Einkum verða hinir fjölmörgu kjósendur Sjálfstfl. að gera upp hug sinn hvort þeir ætla að vera áfram dráttarklárar fyrir vagni fámenns forréttindahóps eða eiga samleið með okkur hinum. --- Góðar stundir.