Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin en ósköp var þetta dapurleg niðurstaða. Hæstv. viðskrh. skipaði nefnd 22. febr. 1989. Sú nefnd lauk störfum og skilaði tillögum til ráðuneytisins 27. nóv. á sl. ári, svo það er nú senn liðið eitt ár frá því að nefndin lauk sínum störfum. Nefndin lagði til að endurgreiðsla færi fram á sérstökum skatti á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem lagður er á verslunarhús í strjálbýli, þ.e. á verslunarsvæðum þar sem íbúafjöldi er um eða innan við 1500 íbúa og hefur verið það undanfarin fimm ár. Jafnframt lagði nefndin til að á fjárlögum þessa árs, ársins 1990, yrði í tilraunaskyni sérstök fjárveiting að upphæð 25 millj. kr. og yrði Byggðastofnun falin ráðstöfun hennar við framangreind verkefni, að fengnum tillögum þriggja manna nefndar sem viðskrh. skipar. Eigi bæði samvinnu- og einkaverslun fulltrúa í nefndinni. Nefndin gerði einnig að tillögu sinni að fjárhæðinni yrði varið þannig að 10 millj. renni til að borga fyrir ráðgjafarþjónustu við verslunarfyrirtæki í strjálbýli og allt að 10 millj. kr. yrði varið til þess að greiða fyrir sameiningu verslunarfyrirtækja og hagræðingu verslunarþjónustu og allt að 5 millj. kr. samtals yrði varið til þess að veita styrki til breytinga og endurbóta á verslunarhúsnæði og til rekstrarstyrkja vegna verslunarþjónustu. Ekkert af þessu var gert, þrátt fyrir tillögur nefndarinnar, þrátt fyrir það að ríkisstjórnin skipar þessa nefnd. Nú segir hæstv. viðskrh. að lagt sé til að verja 2 millj. kr. í fjáraukalögum til viðskrn. til hagræðingar í verslunarrekstri. Þetta finnst mér vera dapurleg niðurstaða, hæstv. viðskrh.
    Hæstv. viðskrh. benti á að rétt væri að Byggðastofnun tæki meira að sér í þessum efnum. Hér eru málefni hennar ekki til umræðu en það verður síðar. Hún hefur verið gjörsamlega svelt með fjárveitingar í mörg undanfarin ár og hefur þar af leiðandi ekki getað bætt á sig nýjum verkefnum. En ég þori að fullyrða það að öll stjórn Byggðastofnunar er reiðubúin til þess að taka slík verkefni að sér ef hæstv. ríkisstjórn vildi leggja henni lið í þeim efnum. Svo þakka ég að nýju fyrir svörin.