Vegakerfið milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar
Fimmtudaginn 01. nóvember 1990


     Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :
    Hæstv. forseti. Þessi till. til þál. fjallar um vegamál á Vestfjörðum. Lagt er til að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að hún hlutist til um að mörkuð verði stefna um vegakerfið milli Ísafjarðar - og Patreksfjarðarsvæða þar sem tekin verði afstaða til jarðgangaleiðar milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, svo og hvernig háttað verði vegagerð þaðan til þéttbýlisstaðanna á Patreksfjarðarsvæði og til Brjánslækjar.
    Það er margt sem telja má upp og miklu varðar í daglegu lífi til þess að fólk megi una hag sínum og byggð megi haldast og eflast á Vestfjörðum. En alla jafnan er það eitt sem fyrst ber á góma þegar maður talar við mann eða úrlausnar er þörf. Það eru samgöngumálin, samgöngur innan héraða og samgöngur við aðra landshluta. Þetta er ekkert nýtt fyrirbæri. Svo hefur þetta lengi gengið.
    Það var engin tilviljun að þegar Vestfjarðaáætlunin kom til á sínum tíma voru það samgöngumálin sem tekin voru fyrir. Vestfjarðaáætlunin var um átak í samgöngumálum, vegagerð, hafnargerð og flugvallargerð. Slík voru verkefnin og svo höfðu Vestfirðingar dregist aftur úr miðað við aðra landshluta að nauðsyn var að vinna það upp ef nokkur von ætti að vera til þess að hægt væri að forðast það uggvænlegasta um framtíð byggðarinnar.
    Þá var enginn tími til stefnu. Ástandið var þannig að það þoldi enga bið. Það var of lítið sem miðað gat eftir hefðbundnum leiðum. Hlutur Vestfjarða dugði ekki af reglubundnum ríkisframlögum til samgöngumála. Annað fjármagn þurfti að koma til og það var fengið frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins.
    Þótt grettistaki hafi verið lyft með Vestfjarðaáætlun og stórvirki hafi síðan verið gerð í samgöngumálum Vestfjarða blasa samt í dag við gífurleg verkefni. Sumpart er nauðsyn mikilla átaka til þess að halda til jafns við það sem gert hefur verið í öðrum landshlutum til framfara í samgöngumálum. Og ekki síður er þörf vegna þeirrar sérstöðu sem Vestfirðingar hafa í samgöngumálum svo sem í mörgu öðru. Landshættir eru slíkir á Vestfjörðum að jarðgöng verður að gera þar í langtum ríkara mæli en í öðrum landshlutum. Sama er að segja um framkvæmdir til þess að brúa firði. Í slíkar framkvæmdir þarf að ráðast á Vestfjörðum til þess að svara þörfum og þeim kröfum sem gerðar eru um samgöngur í dag þar sem byggð á að haldast.
    Nú um þessar mundir standa yfir mikilvægar framkvæmdir við Dýrafjarðarbrúna. Aðrar framkvæmdir eru að hefjast, svo sem jarðgöngin í Breiðadals - og Botnsheiði, sem eru að sjálfsögðu það mikilvægasta. Aðrar framkvæmdir eru á næsta leiti svo sem hin aðkallandi brú yfir Gilsfjörð.
    Ein meginforsendan fyrir byggð á Vestfjörðum er samtenging byggðarlaga og byggðarsvæða með öruggum daglegum akvegasamgöngum sem tengjast aðalsamgöngukerfi landsins. Í kjölfar jarðganga á Ísafjarðarsvæði, brúar yfir Dýrafjörð og hinnar nýju ferju á Breiðafjörð þarf nú að marka stefnuna um vegakerfi

milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar þar sem tekin verði afstaða til jarðgangaleiðar milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, svo og hvernig háttað verði vegagerð þaðan til þéttbýlisstaðanna á Patreksfjarðarsvæðinu og til Brjánslækjar.
    Vegagerð ríkisins hefur gert nokkrar lauslegar athuganir á þessu verkefni. Í september 1981 fór fram jarðfræðiathugun á þessu jarðgangasvæði. Til að bæta vetrarsamgöngur milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar var athugaður sá kostur að gera jarðgöng einhvers staðar í gegnum fjöll þau er aðskilja firðina. Hugsanlegar jarðgangaleiðir sem voru kannaðar voru fjórar.
    Hin lauslega jarðfræðiathugun sem fór fram þótti gefa vissar ábendingar um möguleika til jarðgangagerðar. En hér bíða frekari athuganir og rannsóknir. Ef hugsa á um jarðgöng á þessum stöðum í fullri alvöru er nauðsynlegt að gera jarðfræðirannsókn um gerð jarðlagasniða sem mæld yrðu í giljum og dölum í innri hluta fjarðanna og reyna að tengja þau saman og rekja þannig einstök lög þvert í gegnum fjallið. Það eru slíkar margháttaðar rannsóknir sem er nauðsynlegt að gera áður en endanlega verður tekin afstaða til jarðgangaleiðar milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar eins og lagt er til með þessari þáltill.
    Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi jarðganga á þessum stað fyrir samgöngur á milli fjarðanna. Einkum er ein leið höfð í huga og talin koma til greina. Það er innst í fjörðunum báðum, Dýrafirði og Arnarfirði. Leiðin þar mundi styttast um 25 -- 30 km og munar um minna. Þá ber að hafa í huga að hér er um að ræða þjóðbrautina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.
    Jarðgöngin sem hér um ræðir eru aðeins annar hluti af vegakerfinu milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Hinn hlutinn er leiðin frá jarðgöngunum til þýttbýlisstaðanna á Patreksfjarðarsvæði og til Brjánslækjar. Sá hlutinn er í engu þýðingarminni en sjálf jarðgöngin. Hins vegar er það margslungnara viðfangsefni hvernig þar verður komið við vetrarsamgöngum og litlar sem engar forathuganir hafa farið fram á því. Það verður að marka stefnuna hvernig farið verður með Dynjandisheiði og aðra fjallvegi á þessu svæði og hvaða möguleikar eru til að ná settu marki með vegagerð með sjó fram. Þessar athuganir þurfa að hefjast strax því að ekki tjóar að hlutur suðursvæðisins liggi eftir í þeim efnum sem tillaga þessi til þál. fjallar um.
    Hér er farið fram á að mótuð verði stefnan í einu af stærstu málunum sem skipta sköpum fyrir byggðaþróun á Vestfjörðum. Það er ríkur skilningur og brennandi áhugi hjá Vestfirðingum á þessu máli. Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkti 1. sept. sl. ályktun um þetta efni.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum taka fram að með þessari þáltill. er ekki lagt til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Samþykkt þessarar tillögu felur ekki í sér að neitt sé tekið fram fyrir hinar mikilvægu framkvæmdir sem ég áður nefndi og ýmist standa yfir, eru að byrja eða eru á næsta leiti. Ekki heldur er til þess ætlast að víkja til hliðar öðrum framkvæmdum í vegamálum á Vestfjörðum sem þegar eru ákveðin. Hins vegar felur þessi tillaga í sér að mörkuð verði stefnan í tilteknum vegakerfum á Vestfjörðum til þess að þar sé hægt að taka til hendi án tafar, strax og röðin kemur þar að framkvæmdum.
    Ég leyfi mér að leggja til, hæstv. forseti, að þessari tillögu verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umræðu og hv. allshn.