Flm. (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hópi annarra þingmanna Sjálfstfl. á þskj. 10 till. til þál. um viðurkenningu á fullveldi Eistlands, Lettlands og Litáens og stjórnmálasamband við þessi ríki. Tillgr. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að árétta formlega viðurkenningu Íslands á fullveldi Eistlands, Lettlands og Litáens og taka tafarlaust upp stjórnmálasamband við þessi ríki með því að tilnefna íslenska sendiherra í þeim og veita viðtöku sambærilegum sendimönnum þeirra. Þá felur Alþingi ríkistjórninni að vinna að því að önnur ríki sýni með sama hætti stuðning við fullveldi og sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.``
    Segja má að nú sé aðeins eitt viðfangsefni óleyst í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er viðurkenning á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja. Fyrir skömmu var leyst eitt stærsta viðfangsefnið, sem var óleyst afleiðing síðari heimsstyrjaldarinnar, þ.e. sameining þýsku ríkjanna. Það vandamál hefur nú verið farsællega til lykta leitt og menn hljóta þá að beina sjónum sínum að þessu viðfangsefni og freista þess að leysa þau viðfangsefni öll sem enn eru óleyst eftir styrjöldina.
    Eystrasaltsríkin þrjú fengu sjálfstæði og fullveldi árið 1918, sama ár og við fengum fullveldi. Þau voru hins vegar innlimuð í Sovétríkin árið 1940 á grundvelli griðasáttmála Hitlers og Stalíns og þau hafa verið með ólögmætum hætti að alþjóðalögum hluti af Sovétríkjunum í 50 ár. Þessi þrjú ríki hafa því að alþjóðalögum allan rétt til þess að endurheimta sjálfstæði og fullveldi. Þau hafa skýra sögulega tilvísun til sjálfstæðis, skýran sögulegan rétt, og hafa fært fram gild söguleg og lagaleg rök fyrir kröfum sínum um að endurheimta sjálfstæðið.
    Í vor sem leið tóku Litáar frumkvæði í sjálfstæðisbaráttu þessara ríkja með því að lýsa yfir endurheimt sjálfstæðis. Alþingi Íslendinga varð fyrst allra löggjafarþinga til þess að fagna þessari ákvörðun og lýsa yfir samstöðu með Litáum. Það var mjög ánægjulegt að um það skyldi takast samstaða hér á Alþingi að bregðast með þeim hætti við þessari ákvörðun því að ég lít svo á að okkur Íslendingum beri skylda til þess fyrir margra hluta sakir að sýna þessum þjóðum fullan stuðning. Hvort tveggja er að hér er um smáþjóðir að ræða sem hafa þurft að berjast fyrir sjálfstæði sínu. Þær fengu sjálfstæði sama ár og við fengum fullveldi og með tilliti til alls þessa lít ég svo á að við höfum miklum skyldum að gegna í þessu efni. Þess vegna var þessi samstaða ánægjuleg. Önnur Eystrasaltsríki, bæði Lettland og Eistland, hafa fylgt í kjölfar Litáa.
    Á síðasta þingi fluttum við, nokkrir þingmenn Sjálfstfl., tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði Litáa. Sú tillaga fékk ekki þinglega meðferð, en ég vænti þess að tillagan í breyttri mynd með hliðsjón af breyttum aðstæðum fái nú þinglega meðferð og verði samþykkt á þessu þingi. Hér er gert ráð fyrir því að

þessi ríki verði formlega viðurkennd og stjórnmálasambandi verði komið á. Þau mótrök, sem helst hafa verið færð fram gegn þessu, hafa falist í upprifjun á því að Danir viðurkenndu þessi ríki á sínum tíma meðan þeir enn
fóru með utanríkismál í okkar umboði. Ég lít svo á að þessi mótbára sé fyrst og fremst formlegs eðlis. Ég tel eðlilegt að Ísland staðfesti á nýjan leik viðurkenningu á þessum ríkjum og það sé aukaatriði að draga þennan þátt inn í þessa umræðu, enda kemur það hvergi fram af hálfu þeirra sem bera þessa mótbáru fyrir sig að þeir líti svo á að sú viðurkenning hafi átt sér stað sem leiði til eðlilegrar stofnunar á stjórnmálasambandi milli ríkjanna. Ég tel eðlilegt að láta þennan liðna atburð liggja á milli hluta. Ég held að hann skipti ekki höfuðmáli í þessari umræðu.
    Önnur röksemd, sem borin hefur verið fram, er að óeðlilegt sé og óheppilegt að trufla umbótastarf leiðtoga Sovétríkjanna, Gorbatsjovs. Hann hefur sýnt fulla andstöðu gagnvart sjálfstæðiskröfum þessara ríkja og það hefur verið sjónarmið margra að ekki væri rétt af Íslands hálfu að ganga gegn óskum hans og vilja. Ég lít hins vegar svo á að viðurkenning á sjálfstæði þessara ríkja væri miklu fremur stuðningur við umbótaviðleitnina í Sovétríkjunum. Þessi ríki eru ugglaust reiðubúin að styðja þá umbótaviðleitni sem góðir grannar en ekki sem undirokuð þjóð. Í raun og veru finnst mér það í miklu ósamræmi við þá atburði sem nýlega hafa gerst, þegar leiðtogi Sovétríkjanna fékk friðarverðlaun Nóbels, að hann skuli nú ganga fram gegn lögmætum sjálfstæðiskröfum þessara ríkja og þegar af þeirri ástæðu alveg augljóst að við getum ekki tekið tillit til þessarar andbáru.
    Í þriðja lagi hefur verið á það bent að sum af stærri ríkjunum í Atlantshafsbandalaginu hafi ekki viljað ganga jafnlangt og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Innan Atlantshafsbandalagsins er ekki ágreiningur um að viðurkenna og styðja Eystrasaltsríkin, en a.m.k. stærri ríkin í Atlantshafsbandalaginu hafa ekki viljað ganga jafnlangt og þessi tillaga gefur tilefni til. Það veldur að vissu leyti vonbrigðum, á sér m.a. þá skýringu, ugglaust, að stærri ríkin í Atlantshafsbandalaginu hafa fram til þessa viljað láta önnur viðfangsefni njóta forgangs, eins og sameiningu Þýskalands, og hafa ugglaust ekki viljað tefla því máli í tvísýnu með öflugum stuðningi við sjálfstæðiskröfur Eystrasaltsríkjanna. Hér er því ekki um að ræða ágreining um stefnuatriði heldur ágreining um það hversu hratt og langt skuli ganga. Ég tel eðlilegt að við sem smáþjóð, lítil þjóð í þessu samstarfi, göngum fram til fyllsta stuðnings við aðrar smáþjóðir hvað sem líður afstöðu stærri ríkjanna í Atlantshafsbandalaginu og get ekki tekið góðar og gildar röksemdir af þessu tagi gegn þessari tillögu.
    Eystrasaltsríkin eiga nú í viðræðum við Sovétstjórnina um sjálfstæðiskröfur sínar. Þar hefur komið fram að Sovétstjórnin hefur þverskallast í þeim viðræðum. Hún ítrekar kröfur sínar um einingu Sovétríkjanna og hefur í reynd hafnað öllum kröfum af hálfu Eystrasaltsríkjanna og því hefur lítið miðað raunverulega í þessum viðræðum. Það er á hinn bóginn deginum ljósara og hefur komið fram í viðræðum við forustumenn þessara ríkja að þeir líta svo á að viðurkenning á sjálfstæði þeirra frá einu eða fleiri ríkjum mundi mjög styrkja þá í samningaviðræðunum við Sovétstjórnina. Þeir telja að styrkur þeirra yrði meiri, þunginn á bak við kröfur þeirra yrði meiri ef eitt eða fleiri ríki mundu á samningsferlinum viðurkenna sjálfstæði þeirra. Þeir líta líka svo á að það yrði til að styrkja samstöðu þeirra innbyrðis í þeim mikla vanda sem þessar þjóðir eru óneitanlega staddar í, annars vegar gagnvart sjálfstæðismálinu og hins vegar vegna þeirrar umbyltingar í efnahagsmálum sem þeirra bíður.
    Hingað hafa komið fulltrúar frá Eystrasaltsríkjunum og þangað hafa farið fulltrúar íslenskra stjórnmálaflokka á undanförnum mánuðum til viðræðna. Sjálfur átti ég þess kost að heimsækja þessi ríki í haust og segja má að þar hafi komið fram óskir af þeirra hálfu um fjögur mjög mikilvæg atriði varðandi frambúðarsamskipti við Ísland og önnur Norðurlönd.
    Í fyrsta lagi skýra krafan um fulla viðurkenningu.
    Í öðru lagi ósk um aðild að ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu og stuðning okkar við þá ósk þeirra. Af hálfu utanrrh. hefur því verið lýst yfir að Ísland styðji þá málaleitan. Ég tel að þar hafi verið stigið mjög mikilvægt skref af Íslands hálfu og ég varð var við það í viðræðum við forustumenn þessara ríkja að þeir meta mjög mikils þá afstöðu og það frumkvæði sem utanrrh. Íslands sýndi með afstöðu í þessu efni.
    Í þriðja lagi hafa þeir sett fram óskir um áheyrnaraðild að Norðurlandaráði. Ég er þeirrar skoðunar, og hef lýst því áður, að ég tel eðlilegt að Norðurlandaráð taki afstöðu til þessarar beiðni. Mín skoðun er sú að það eigi að gera á jákvæðan hátt og við eigum að stefna að því að Eystrasaltsríkin verði áheyrnaraðilar í fyrstu að Norðurlandaráði með það að markmiði að þau geti síðar orðið fullgildir aðilar ef þau óska þess. Því miður hafa viðbrögð við þessari málaleitan ekki verið jafnjákvæð og skyldi þó að þess megi vænta að ríkjunum verði boðið að koma á næsta fund Norðurlandaráðs sem gestir. Það er takmarkað skref en ekki fullnægjandi. Vera má að það þurfi að breyta samþykktum Norðurlandaráðs, eða Helsinki - sáttmálanum, til þess að þetta megi verða en ég tel þá rétt og skylt að gera það í þessum tilgangi.
    Í fjórða lagi hefur verið rætt af þeirra hálfu um víðtækara samstarf á ýmsum sviðum, bæði menningarmála, umhverfismála og þeir hafa sérstaklega rætt við okkur um mögulegt samstarf varðandi nýtingu á jarðhita.
    Mér finnst að Norðurlandaráð hafi ekki tekið óskum Eystrasaltsríkjanna nægjanlega vel. Í fréttaskeytum af nýlegri ferð fulltrúa Norðurlandaráðs til Sovétríkjanna og Eystrasaltsríkjanna kemur fram að sendinefnd Norðurlandaráðs sagði á blaðamannafundi í Moskvu að erindi hennar til Eystrasaltsríkjanna væri ekki að ræða pólitísk viðfangsefni, heldur einvörðungu atriði er lytu að umhverfismálum og menningarmálum. Ég þykist vita að þeir hafi ekki komist hjá því þegar þeir komu til Eystrasaltsríkjanna að svara fyrirspurnum um pólitísk viðfangsefni. En mér finnst yfirlýsing af þessu tagi, ef hún er rétt og ef rétt er frá henni greint í fréttaskeytum sem send hafa verið út frá sendiráði Íslands og utanrrn., beri ekki vott um nægjanlega ótvíræða afstöðu og nægjanlegan skilning á mikilvægum kröfum Eystrasaltsríkjanna.
    Ég er þeirrar skoðunar að ef við lítum á þessi mál til lengri framtíðar þá fari ekki á milli mála að Eystrasaltsríkin munu ná fullu sjálfstæði. Þeir sem hafa kynnst fulltrúum þessara ríkja, sem standa í eldlínu þessarar baráttu, vita að þessar þjóðir eru svo staðráðnar og ákveðnar í því að endurheimta sjálfstæði sitt að ekkert vopnavald, engin neikvæð afstaða og engar úrtöluraddir geta á endanum komið í veg fyrir að þær nái markmiðum sínum.
    Ég tel, með hliðsjón af þeirri öru þróun sem nú á sér stað í Evrópu, að eðlilegt sé að Norðurlöndin leiti víðtækara samstarfs við þessi ríki og í framtíðinni geti samstarf Norðurlandanna orðið víðfeðmara en það er nú. Það geti þróast yfir í víðtækara samstarf með þátttöku þessara sjálfstæðu ríkja í framtíðinni og Norðurlandaráð geti þannig orðið sterkari heild í evrópsku samstarfi hvernig svo sem það fer fram. Þess vegna, með tilliti til framtíðarhagsmuna í þessu efni, tel ég m.a. mikilvægt að allt verði gert sem unnt er til að hraða því að þessar þjóðir nái markmiðum sínum í sjálfstæðisbaráttunni. Einn þáttur í því er að Ísland stígi þetta skref. Við eigum kost á því, Íslendingar, með ótvíræðum stuðningi við þessar þjóðir að hafa áhrif á alþjóðavettvangi. Þetta skref yrði metið af hálfu þessara þjóða og virt og mundi hafa verulega þýðingu fyrir viðræður þeirra og baráttu fyrir fullu sjálfstæði.
    Ég legg svo til, frú forseti, að þessari tillögu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. utanrmn.