Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja frá því að ég er sammála meðferð ríkisstjórnarinnar og hæstv. utanrrh. á þessu máli. Þar að auki vil ég segja það að ég tel að okkur beri að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Ef þjóðir ákveða með lýðræðislegum hætti að taka upp stjórnarform finnst mér að þær eigi að hafa til þess fulla heimild. Ef það er vilji þeirra þjóða, sem byggja þessi umræddu Eystrasaltslönd, að vera sjálfstæðar, þá finnst mér að við eigum að virða það og það eigi að vera þeirra heilagur réttur. Ég get enn fremur sagt frá því að ég hef hina mestu samúð með þjóðum Eystrasaltsríkjanna, hef reyndar haft tækifæri til þess að ferðast þar um nokkuð og hitta ráðamenn nú fyrir örfáum dögum. Það er mjög eðlilegt að Íslendingar reyni að aðstoða þær eftir mætti þar sem við getum komið því við. Hún er enn í fullu gildi, eins og hæstv. utanrrh. upplýsti hér áðan, sú viðurkenning sem Danir gáfu fyrir okkar hönd á sínum tíma. Við höfum aldrei dregið þá viðurkenningu til baka og því er í sjálfu sér óþarfi að árétta hana hér eða nú.
    Það er mikil spenna í lofti í samskiptum Sovétsambandsins og Eystrasaltsríkjanna. Ég hef enga trú á því að hún verði leyst nema með samningum þeirra á milli. Það er fjöldi praktískra mála sem þarf að leysa, viðræður eru í gangi og ég held að við verðum að vonast eftir að þeirra framvinda verði eðlileg. Hins vegar held ég að íhlutun af því tagi sem samþykkt þessarar tillögu væri yrði olía á eld. Ég held að við eigum að reyna eftir því sem við mögulega getum að stuðla að eðlilegri framvindu samninga þessara aðila. Þarna eru tvö öfl sem takast á og ég held að við getum ekki lokað augunum fyrir því að Sovétríkin eru líka í vanda stödd. Það eru fleiri í vanda en Eystrasaltsríkin. Þeir menn sem eru í fyrirsvari í Sovétsamveldinu, Gorbatsjov og hans menn, eru í miklum vanda staddir. Ekki einungis í stjórnmálalegum vanda heldur einnig efnahagslegum. Efnahagslegur vandi Sovétríkjanna er óskaplegur. Vandi þeirra í umhverfismálum einnig og allt ber þetta að sama brunni. Þarna er við mikla erfiðleika að etja. Ég vona sannarlega að þeim takist að finna á þeim lausn sem er viðunandi fyrir alla aðila, bæði þau ríki sem óska sjálfstjórnar og eins þau öfl sem vilja friðsamleg samskipti í heiminum.
    Ég tel að það væri ekki heppilegt af okkur að fara að reyna að stuðla að leiðtogaskiptum í Sovétríkjunum. Ég á ekki von á því að vísu að það sé vilji flm., en í öllu falli er tekin þarna ákveðin afstaða gegn þeirri pólitík sem Gorbatsjov hefur haft uppi í þessu efni.
Nú er sjálfsagt ekki allt gott hjá honum og ég ætla ekki að fara að vera neinn sérstakur málsvari hans. En ég hef ekki von um það að eftirmaður hans verði heiminum hentugri en núverandi ráðamenn í Sovétríkjunum.
    Ég átti þátt í sendiför til Eystrasaltsríkjanna nú fyrir nokkrum dögum, sendinefnd frá Norðurlandaráði. Það var gengið mjög skýrt frá verkefni okkar í erindisbréfi sem við höfðum í okkar farteski á mörgum fundum forsætisnefndar. Mér fannst sjálfum að það erindisbréf væri óþarflega þröngt en í forsætisnefnd varð þó eining um að orða það svo. Það er rétt sem hv. 1. flm., 1. þm. Suðurl., sagði hér áðan að okkur var falið að ræða einkum um efnahagsmál, umhverfismál og menningarmál og koma á samstarfi um þessi málefni. Við hlustuðum að sjálfsögðu á mál manna og stöðvuðum þá ekkert ef þeir vildu tala um annað. En við höfðum ekki umboð til þess að hefja umræður um utanríkismál eða varnarmál. Þeir menn sem við hittum í Eystrasaltslöndunum settu fram mjög ákveðnar óskir um aðstoð á mörgum sviðum. Það er fullur vilji, held ég að ég megi segja, hjá Norðurlandaráði, a.m.k. var það hjá þeim fulltrúum úr Norðurlandaráði sem tóku þátt í þessari sendiför, að aðstoða Eystrasaltsríkin svo sem við megum. Við komum til með að bjóða heim fulltrúum þinga Eystrasaltsríkjanna til næsta þings í Kaupmannahöfn.
    Það er rétt sem hv. 1. þm. Suðurl. greindi frá að í samþykktum Norðurlandaráðs er ekki gert ráð fyrir þeim samskiptareglum að þeir yrðu fastagestir heldur yrðu þeir væntanlega boðnir til þessa sérstaka þings, þar sem við höfum ekkert annað form á þeirri aðild. Hv. 1. þm. Suðurl. lagði til að þessar þjóðir yrðu með tímanum fullir aðilar að Norðurlandaráði ef þær óskuðu. Ég vil nú bæta því við að ég held að það sé ástæða til þess fyrir Norðurlandaþjóðirnar að hafa eitthvað um það að segja sjálfar. Það yrði sjálfsagt að vera eftir samkomulagi allra aðila, ekki bara einhliða ákvörðun Eystrasaltsþjóðanna, hvort þær yrðu aðilar að Norðurlandaráði eða ekki. Það yrði að vísu ekkert Norðurlandaráð lengur eftir að þær væru gengnar þar inn. En það gæti vel verið að þessar þjóðir mynduðu með sér eitthvert annað ráð, Eystrasaltsráð eða eitthvað þvílíkt, sem ég vil ekkert skjóta loku fyrir að gæti skeð einhvern tímann í framtíðinni.
    Ég held að það séu fjölmörg svið þar sem Norðurlandaráð og Norðurlandaþjóðirnar geti aðstoðað og komið á samvinnu og hjálp, ekki síst í þeim efnum sem okkur var falið að ræða í þessari sendiför, þ.e. samvinnu um umhverfismál, menningarmál og efnahagsmál. Ég tel að það sé eðlilegt fyrir Íslendinga að reyna að styðja að friðsamlegri og farsælli lausn þessara samskiptamála Eystrasaltsríkjanna og Sovétríkjanna hvarvetna á alþjóðavettvangi, eins og hefur verið lína ríkisstjórnarinnar, góðu heilli. Ég held að við eigum að efla viðskipti og samskipti við þessar þjóðir eftir því sem mögulegt er, styðja þátttöku þeirra í alþjóðastofnunum þar sem þær geta komið fram með sín sjónarmið. Ég tel eðlilegt að Íslendingar hafi samflot með öðrum nágrannaþjóðum í þessu efni. Hins vegar held ég að samþykkt þessarar till. flýti með engu móti fyrir sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna eða létti þeim vandasama sjálfstæðisbaráttu þeirra. Í besta falli er samþykkt till. þýðingarlaus. Í versta falli kynni hún að magna þær deilur sem til staðar eru. Þess vegna væri þessi till. að mínum dómi betur óflutt. Ég held að við þurfum að haga okkur í meðferð utanríkismála þannig að reyna að láta taka okkur alvarlega á alþjóðavettvangi.