Fjárhagsvandi byggingarsjóðanna
Mánudaginn 05. nóvember 1990


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á ræður manna um þetta blessaða húsnæðiskerfi og hef ýmsar athugasemdir við það sem fram hefur komið. Hins vegar átti ég þess ekki kost að koma hér strax eftir hlé, en ætla þess í stað að fara yfir það sem rætt var áður og tengdist mínum flokki, Borgfl.
    Það var fullyrt af hv. þm. Geir Haarde að Borgfl. væri þeirrar skoðunar að það ætti að hækka vexti og hafi samþykkt þá ályktun á sínum tíma. Það er út af fyrir sig rétt. Þegar sú tillaga kom fram að ný lán frá Húsnæðisstofnun mundu bera 4,5% vexti en gömlu lánin halda áfram með 3,5%, þá lögðum við í þingflokki Borgfl. það frekar til að jafna út hækkuninni þannig að öll lán sem tekin höfðu verið frá Húsnæðisstofnun mundu bera 3,8 -- 3,9% vexti. Með því móti væri hægt að ná sömu fjármunum inn í Húsnæðisstofnun eins og með því að hækka vexti í 4,5% á nýjum lánum. Þetta er svar við þeirri fullyrðingu hv. þm. Geirs Haarde.
    Ég vil hins vegar minna þingmenn, og þá sérstaklega hv. þm. Geir Haarde, á að árið 1988 lagði þingflokkur Borgfl. fram í Ed. mjög viðamikið frv. um húsnæðismál þar sem gert var ráð fyrir því að fyrirgreiðsla til húsnæðismála yrði tvískipt. Annars vegar yrði stofnaður húsbanki og hins vegar yrði starfsemi Húsnæðisstofnunar breytt og hún sæi aðeins um félagslega þáttinn en húsbankinn mundi sjá um að lána til þeirra sem betur væru stæðir og afnema með öllu það fyrirkomulag sem verið hefur, að vel stætt fólk
fengi lán frá Húsnæðisstofnun eins og verið hefur frá 1986. Því miður náðu þessar tillögur ekki fram að ganga á þeim tíma. Hins vegar var þessi hugmynd sem við lögðum fram tekin af núverandi félmrh. og þáverandi líka og lagt til það kerfi sem nú er. Við erum að sjálfsögðu mjög hrifnir og sammála því að koma hér á húsbréfum. Hins vegar er það form sem er í núgildandi lögum ekki það sem við vildum á sínum tíma og viljum ekki enn, enda teljum við að ríkið eigi ekki að gefa út þessi húsbréf, heldur eigi það að vera lífeyrissjóðir, tryggingafélög og aðrir þeir sem hafa peninga á milli handanna. Ríkið á sem mest að koma sér út úr lánakerfi af þessu tagi sem og öðru lánakerfi eins og með atvinnuvegasjóði og annað. Það á ekki að fara með ríkisábyrgð eins og gert hefur verið.
    Hér hefur verið rætt mikið um fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins og hvernig eigi að leysa hann. Við í þingflokki Borgfl. höfum að sjálfsögðu rætt þessi mál í tilefni þeirrar skýrslu sem hefur verið lögð fram. Við útilokum þar ekkert og viljum að vandinn verði frekar leystur með því að hækka vexti en með nýjum sköttum, en um það tvennt er að ræða. Það sem lagt er til í skýrslunni sem Ríkisendurskoðun gerði, er að annaðhvort þyrfti ríkið að leggja fram peninga í þetta kerfi eða þá að hækka vexti af lánunum.
    Það er miklu eðlilegra og skynsamlegra að þeir borgi sem njóta lánanna í stað þess að leggja á aukaskatta til að brúa þetta bil sem er hjá byggingarsjóðum ríkisins. Með vísan til þessa höfum við lagt til að skynsamlegra væri að hækka vexti.
    Það er alveg ljóst að við verðum á þessu þingi að horfast í augu við þær staðreyndir sem blasa við um vandamál húsnæðiskerfisins. Við viljum stuðla að því að sá vandi verði leystur á næstu árum en það er ljóst að vandi húsnæðiskerfisins sem komið var á 1986 verður ekki leystur á einu ári. Við viljum leggja til að vextir verði sem fyrst hækkaðir, þó svo það megi líta þannig á, eins og hæstv. félmrh. sagði hér áðan, að þar væri verið að brjóta þá þjóðarsátt sem gerð hefur verið á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég vil frekar líta þannig á, með hagsmuni allra fyrir brjósti, að það sé þó skynsamlegri leið en að ríkið með auknum álögum leggi á alla þegna landsins auknar byrðar. Þriðja leiðin er sú að brúa þetta bil, þessa fjárhagsþörf, með því að taka lán erlendis og velta ábyrgðinni yfir á komandi kynslóðir.
    Þetta er það sem ég vildi segja í þessari umræðu og svara því sem um minn flokk hefur verið fjallað. Ég vona að þessi mál sem önnur sem þessi ríkisstjórn hefur þurft að glíma við megi hljóta farsælan endi.