Meðferð opinberra mála
Þriðjudaginn 06. nóvember 1990


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa verið flutt tvö veigamikil mál, réttara sagt tveir lagabálkar um tvö svið lögfræðinnar. Annars vegar er um að ræða frv. til laga um gjaldþrotaskipti og hins vegar frv. til laga um meðferð opinberra mála.
    Bæði þessi frv. eru að mínu viti til bóta þeirri framkvæmd sem verið hefur. Þeir sem hafa unnið við störf á sviði lögfræðinnar hafa oft rekist á vegg þegar þessa tvo málaflokka ber á góma. Hér er að vísu verið að ræða um meðferð opinberra mála en ég tel rétt að fara nokkrum orðum líka um gjaldþrotaskipti, frv. það sem lagt var fram hér áðan og rætt var um. En það frv. boðar mikla stefnubreytingu frá því sem verið hefur og þá sérstaklega er varðar hvenær menn skuli teljast gjaldþrota. Ég held að sú skipan sem mælt er fyrir um í frv. sé mjög til bóta því menn eru oft að ósekju fyrir litlar kröfur gerðir gjaldþrota og með því stimplaðir til æviloka sem ógreiðslufærir og óalandi og óferjandi. Einnig tel ég til mikilla bóta að gera alla meðferð miklu skilvirkari eins og lýst er í grg. frv. og ljúka málum með betri hætti en verið hefur.
    Það er mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh. að í 80 -- 85% af öllum málum sem eru úrskurðuð finnast engar eignir í búum, og nánast til þess eins gert hjá Gjaldheimtunni að fá mann úrskurðaðan að Gjaldheimtan geti afskrifað kröfur. Það er því miður raunin að meginhlutinn af gjaldþrotaúrskurðum, uppkveðnum í Reykjavík, er að kröfu Gjaldheimtunnar til þess eins að Gjaldheimtan geti afskrifað þessar kröfur sínar.
    Ég ætla ekki að fara frekari orðum um frv. til laga um gjaldþrotaskipti, en lýsi þeirri skoðun minni að ég tel það mjög til bóta og vonast eftir að þetta frv., þegar það kemur til meðferðar í hv. allshn., hljóti þar góða umfjöllun og verði afgreitt á þessu þingi.
    Frv. til laga um meðferð opinberra mála, sem er með réttu móti hér til umræðu, tel ég einnig til mikilla bóta. Þar er fjallað um mörg atriði sem hafa valdið efasemdum og ruglingi hvort standist þá skipan sem við viljum hafa hér á landi. Þá á ég sérstaklega við það hvort sú skipan ætti að vera að í minni háttar málum sé það dómari sem er í hlutverki ákæruvaldsins. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að í hverju máli, hvort sem málið er lítið eða stórt, þá fylgi ákærandi eða ákæruvaldið málunum eftir.
    Ég hef gagnrýnt það kerfi sem er nú, að dómurum skuli falið þetta vald. Dómararnir eiga að vera hinn hlutlausi aðili og eiga ekki að skipta sér af málum af þessu tagi að öðru leyti en að kveða upp dóminn.
    Það eru einnig fleiri atriði í þessu frv. sem ég mundi vilja fjalla hér um en tel samt ekki ástæðu til á þessu stigi að fara yfir. Ég mun frekar koma þeim athugasemdum að í meðferð málsins fyrir allshn. En ég vil lýsa yfir stuðningi við bæði þessi frv. enda vel samin. Réttarfarsnefnd hefur lagt mikið starf af mörkum við að koma þessu í mjög aðgengilegt og gott

form. Sérstaklega hefur Markús Sigurbjörnsson unnið mjög gott starf við samningu þessa frv. en ég veit að hann lagði a.m.k. grunninn að frv. til laga um gjaldþrotaskipti. Það má benda á það hér að í öðrum löndum þar sem svona lagabálkar eru smíðaðir tekur það mörg mannár að smíða frv. af þessu tagi.