Varaflugvöllur vegna alþjóðaflugs
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna svari samgrh. hér sem sýnir að hann er nú kominn á rétta braut og hefur tekið undir þáltill. hv. 14. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austurl. sem þeir fluttu um Egilsstaðaflugvöll 1988 sem var þá verið að reyna að halda fram að væri fyrst og fremst að reyna að koma að herflugvelli þar, en það er auðvitað misskilningur. Ég fagna því líka að það skuli nú vera rætt um þetta mál því að það er brýnt að þessi mál verði leyst sem allra best á næstu árum. Ég vara einnig við því að menn setji of mikið traust sitt á flugvöllinn á Akureyri. Það er alveg ljóst að bæði Sauðárkrókur og Egilsstaðir eru mun betri kostir varðandi varaflugvöll, bæði hvað varðar veðurskilyrði og aðflug, þannig að það hlýtur að verða að leggja meiri áherslu á þessa staði til þess að hægt sé að tryggja það strax frá upphafi að þarna séu fullnægjandi flugvellir.
    Ég tel að það verði að vinna mjög hratt að þessum málum. Það gerir ferðamennskan og möguleiki okkar að fá aukið flug hér til landsins.