Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Þær stórstígu breytingar sem átt hafa sér stað í Evrópu sl. mánuði hafa kallað á breytingar um allan heim. Kommúnisminn eða ríkissósíalisminn sem milljónir manna bundu vonir við um miðja öldina og fyrr er hruninn. Það er nú öllum ljóst að þetta hugmyndakerfi Marx og Lenins stenst ekki. Það að harðstjórar kerfisins hafa hvarvetna hneppt þjóðir sínar í ánauð kerfisins, drepið niður frjálsa hugsun, kúgað þjóðir sínar.
    Í áratugi hafði kommúnismi Ráðstjórnarríkjanna mikil áhrif á stjórnmál hér á landi og er nú fróðlegt að fletta gömlum og tiltölulega nýjum eintökum af Þjóðviljanum. Þar má sjá hve trúin, sannfæringin um ágæti Sovétkerfisins, var sterk hjá þeim sem á sínum tíma skrifuðu það blað. Kalda stríðið, afkvæmi útþenslustefnu kommúnismans, sem á sínum tíma hertók nokkur Evrópuríki setti svip á alla umræðu um utanríkismál.
    Íslendingar, góðu heilli, gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Sú ákvörðun kostaði átök og deilur sem mörkuðu íslensk stjórnmál í áratugi. Átökin um veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu og veru varnarliðsins hér eru nú að baki. Það er hins vegar skringilegt og jafnvel broslegt þegar horft er á stöðu mála í dag og gerður samanburður við nokkur undanfarin ár að á sínum tíma var mönnum skipt í vinstri og hægri menn eftir því hvort þeir voru með vestrænni samvinnu eða á móti.
    Hrun kommúnismans hefur á örfáum missirum breytt stjórnmálum um alla Evrópu. Kommúnistaflokkar Vestur - Evrópu eru horfnir eða eru að gufa upp líkt og arftaki íslenska Kommúnistaflokksins sem á sér fáa formælendur og sér nú þessa dagana á eftir sínum bestu mönnum til starfa á heilbrigðari vettvangi, vettvangi framtíðarinnar.
    Skýrsla utanrrh. greinir í ítarlegu máli frá umbyltingu sem átt hefur sér stað í alþjóðamálum. Það er ánægjuefni mikið að Sameinuðu þjóðunum hefur við þessar breytingar vaxið ásmegin. Það var hugsjón þeirra er stofnuðu bandalag hinna Sameinuðu þjóða að innan þeirra færu fram umræður og skoðanaskipti sem kæmu í veg fyrir hörmungar stríðsátaka og villimennsku. Styrkur Sameinuðu þjóðanna mun í framtíðinni mótast mjög af þeim viðfangsefnum sem fram undan eru, einkum ef þeim tekst að halda forustunni sem þær hafa tekið í Persaflóadeilunni. Jafnframt er eðlilegt að Vestur - Evrópuríki sem mynda Atlantshafsbandalagið efli frumkvæði sitt eftir megni. Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, sem 34 ríki mynda, mun vafalaust gegna þýðingarmiklu hlutverki í næstu framtíð.
    Ljóst er að Atlantshafsbandalagið er að breytast og mun taka miklum breytingum í næstu framtíð. Eins og fram kemur í skýrslunni hefur styrkur og sjálfstæði Evrópu gagnvart Bandaríkjunum og Kanada aukist mjög. Svo gæti farið að samkeppni Evrópulanda við Bandaríkin og Kanada á viðskiptasviðinu hefði í för með sér nokkra tortryggni milli aðila. Íslendingar gætu

þegar svo er komið lent í nokkrum vanda sem ástæða er til að hugleiða. Ég legg áherslu á að Íslendingar missi ekki sjónar á vinsamlegum samskiptum okkar við Bandaríkin og Kanada. Þá vináttu þarf enn að styrkja og efla. Vænti ég þess að þrátt fyrir eða jafnframt þátttöku í því að breyta Atlantshafsbandalaginu í takt við umbyltinguna í Evrópu leggi Íslendingar ríka áherslu á styrk samskipti við vinaþjóðir okkar í vestri.
    Það var sagt hér áðan að óvinaímyndin væri horfin að fullu. Fulltrúi Kvennalistans talaði af mikilli vandlætingu um það að í skýrslunni er bent á gífurlegan herstyrk Sovétríkjanna. Ég er algerlega ósammála þeim sem boða andvaraleysi í varnarmálum. Ekki þarf annað að gerast austur í Sovét en að Rauði herinn geri byltingu. Það er allt mögulegt í þeim efnum. Þá væri líklegt að rússneski björninn sýndi varnarlausum ríkjum klærnar.
    Það er athyglisvert að eitt helsta fréttaefni fjölmiðla úr skýrslu utanrrh. voru fjármál Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í skýrslunni kemur fram að fjárhagur þessarar nýju og glæsilegu flugstöðvar er mjög erfiður. Greiðsluhalli miðað við 31. júlí 1990 er rúmar 226 millj. kr. Þessi tala er auðvitað rétt en segja má að þetta sé spurning um bókhaldslegar tilfærslur. Mér er kunnugt um að allt frá því að núv. fjmrh. tók við hefur óskum utanrrn. og tillögum um fjárhagsmál stöðvarinnar verið hafnað eða einfaldlega ekki sinnt. Sýnist mér það gert gagngert til að koma neikvæðri mynd af flugstöðinni á framfæri. Ekki má gleyma því að Alþb. var mjög andvígt byggingu stöðvarinnar og ekki vafi á því að afstaða þess seinkaði mjög samningum um byggingu hennar á sínum tíma. Ég vek athygli á því að rekstri stöðvarinnar er skipt í tvö fyrirtæki, Flugmálastjórn og flugstöð. Flugmálastjórn skilar ríkissjóði á þessu ári 38 millj. í tekjur. Ekkert vit er í öðru en að hafa þetta eitt fyrirtæki, enda sama starfsfólkið og sama umsetning í báðum tilvikum.
    Þá vek ég athygli á því að verslunarrekstur í flugstöðinni skilar gífurlegum tekjum í ríkissjóð. Fríhöfnin skilar í ár 270 millj. í ríkissjóð auk annarra tekna sem fyrirtæki í flugstöðinni skila ríkissjóði. Tekjur Fríhafnar jukust verulega með tilkomu nýrrar flugstöðvar. Aðrar tekjur ríkisins hafa vafalaust einnig aukist mikið. Hvergi þar sem ég þekki til tíðkast það fyrirkomulag sem hér ríkir, t.d. er Kastrup - flugvöllur í Danmörku rekinn þannig að allar tekjur sem verða til í þeirri flugstöð fara til reksturs flugstöðvarinnar. Þar gefur fríhöfnin af sér miklar tekjur. Allt þetta fjármagn fer til uppbyggingar á Kastrup - flugvelli og ferðaþjónustu tengdri flugvellinum. Ég tel að sami háttur eigi að vera hér á landi. Væri það gert sýndi Flugstöð Leifs Eiríkssonar verulegan tekjuafgang og miklar fjárhæðir fengjust til uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Minni ég á að gera þarf þar syðra verulegar úrbætur til að unnt verði að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar og reka það þaðan. Það er margur sem látið hefur í ljós undrun á því að þessi aðstaða skuli ekki vera fyrir hendi. Því er til að svara að hvergi

tíðkast það að hafa utan - og innanlandsflug í sömu byggingu. Það þarf vegna tollafgreiðslu og fleira að vera aðskilið. Það hefur að vísu tekist með hvers konar tilfæringum að koma málum þannig fyrir að unnt er að stunda innanlandsflug með aðstöðu í flugstöðinni en það er ekki til frambúðar. Við hlið flugstöðvarinnar er lóð sem ætluð er til byggingaraðstöðu fyrir innanlandsflug. Vonandi verður bráðum byggt á lóðinni svo aðstaða fáist til þess að flytja innanlandsflugið suður á Keflavíkurflugvöll.
    Hvað varðar greiðsluhalla flugstöðvarinnar er hann tilkominn vegna blekkjandi bókhalds. Flugstöðin sem slík og rekstur sem þar á sér stað skilar margfalt meiru en gefið er í skyn. Þá er líka rétt að fram komi að ríkissjóður makar krókinn af farþega - og eldsneytisgjöldum sem verða til vegna flugstöðvarinnar. Mér er kunnugt um það að yfirstjórn flugstöðvarinnar hefur í samráði við Fjárlaga - og hagsýslustofnun gert tillögur um breytingar sem hefðu í för með sér mikla tekjuaukningu en á þær hefur fjmrn. ekki hlustað. Rétt er að vekja athygli á því að árið 1992 fellir Evrópubandalagið niður tolla af flestu eða öllu sem selt er í fríhöfnum í Evrópu. Er talið að vegna þess þurfi flugvellir þar að hækka lendingargjöld um 25% til að mæta því tekjutapi sem á sér stað þegar flugvellirnir hætta að fá þær gríðarlegu tekjur sem þeir í dag fá af fríhafnarrekstri.
    Í töflu yfir fjölda íslenskra starfsmanna hjá varnarliðinu kemur fram að 31. ágúst verða þar 1175 manns og á sl. ári hafa starfað þar 1099 manns. Í skýringu kemur fram að aukningin er vegna sumarleyfisráðninga. Staðreyndin er sú að fastráðnu starfsfólki hjá varnarliðinu hefur fækkað um 75 manns. Er það tilkomið vegna ákvörðunar Bandaríkjaþings um sparnað í varnarmálum. Þann 22. jan. sl. var tilkynnt um algert bann við nýráðningu starfsmanna. Þrátt fyrir það hefur enginn samdráttur átt sér stað í verkefnum hjá varnarliðinu og hefur því fækkun starfa komið niður á því starfsfólki sem þar er fyrir. Verkalýðsfélögin og starfsfólkið sjálft hafa harðlega mótmælt þessum vinnubrögðum. Veit ég að utanrrn. hefur einnig mótmælt þessu því að þessi sparnaður kemur mjög harkalega niður á fólki auk þess sem atvinnutækifæri tapast á meðan fjöldi manns er atvinnulaus á Suðurnesjum. Þessi ráðstöfun kallar á vangaveltur um það hvaða hlutverk herstöðinni er ætlað á næstu árum. Mér hefur verið tjáð að Bandaríkjamenn telji varnarstöðina eina af tíu þýðingarmestu varnarstöðvum sínum og Atlantshafsbandalagsins. Sé farið rétt með er ástæða til að ætla að þrátt fyrir niðurskurð og lokun 150 bandarískra herstöðva víða um heim, sem gerst hefur á undanförnum mánuðum vegna breytinganna í Evrópu, verði varnarstöðin hér rekin um ókomin ár. Hitt er víst að almennur sparnaður í starfsmannahaldi varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna kemur fram í auknu álagi á íslenskt verkafólk. Slík ráðstöfun mun enda með sprengingu sem hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
    Í skýrslu utanrrh. er lítið fjallað um málefni Evrópubandalagsins. Það eru rök fyrir því vegna þess að

ráðherra lagði fram sérstaka skýrslu um þau mál og fór fram sérstök umræða um Evrópubandalagið hér í Sþ. Þá er starfandi sérstök Evrópunefnd sem er, eins og segir í þáltill. þeirri er nefndin byggir á, ætlað að taka til sérstakrar athugunar þá þróun sem fyrir dyrum stendur í Evrópu, einkanlega með tilliti til ákvörðunar Evrópubandalagsins um sameiginlegan innri markað. Síðan segir í þál.: ,,Nefndin skili skýrslu um athuganir sínar og tillögur fyrir 1. apríl 1990.``
    Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að í utanrmn. eru þessi mál einnig mikið rædd. Utanrmn. er að mínu mati réttur vettvangur umræðu um þessi mál. Ástæðulaust er með öllu að hafa umræðuna í tveimur hólfum. Það er líka athyglisvert að flestir þeir sem eru í utanrmn. eru líka í Evrópunefndinni. Samkvæmt fyrrgreindri þál. er hlutverki nefndarinnar í raun lokið eða hefði átt að ljúka 1. apríl sl. Ég er þeirrar skoðunar að leggja beri Evrópunefndina niður og fela utanrmn. að fjalla um öll Evrópubandalagsmál. Ástæða er líka til að spyrja utanrrh. eða þá forseta þingsins hvaða útgjöld hafa verið af nefndinni nú í ár og hvernig þeim útgjöldum var varið.
    Í V. kafla skýrslunnar er fjallað um svæðisbundin deilumál. Þar er eðlilega fyrst fjallað um hina hrottalegu árás Íraka á Kúvæt. Þar eru líka tilgreindar tíu ályktanir öryggisráðsins sem frá 10. ágúst sl. hafa verið samþykktar. Ég tel nauðsynlegt að íslenska þjóðin standi fast að baki þeim ályktunum og að innrás Íraka í Kúvæt verði brotin á bak aftur. Ef það verður ekki gert er eins víst að drottnunargirni Íraka muni halda áfram og verða öðrum sem fordæmi um að sá sterki og voldugi geti í friði stigið ofan á þá smáu, kúgað og eytt smáríkjum. Þessa stefnu okkar Íslendinga á ekki að binda við einstaka atburði. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæmir og berjast hvarvetna gegn valdbeitingu og árásargirni.
    Í skýrslunni er örfáum línum, svona í framhjáhlaupi, eytt í ástandið í Ísrael og Palestínu og þykir mér það heldur smátt. Sannleikurinn er sá að alveg frá 1948 hefur öryggisráðið verið að fordæma þá villimennsku sem ráðamenn í Ísrael hafa beitt Araba. Samtals hefur öryggisráðið samþykkt 27 ályktanir þar sem Ísrael er fordæmt, krafið skýringa eða skorað á það að láta af hernaðaraðgerðum.
    Árið 1970 gerðist hliðstæður atburður og árás Íraka á Kúvæt. Þá réðist Ísrael á Líbanon og óð yfir land þeirra. Þá samþykkti öryggisráðið að fordæma stórfellda og þaulhugsaða árás Ísraels á Líbanon sem brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna og varaði við frekari aðgerðum öryggisráðsins ef slíkir atburðir endurtækju sig. Það gerðist hins vegar ekki neitt. Ísrael fékk í friði að myrða nágranna sína, eyða híbýlum fólksins, eyðileggja þorp og borgir og standa að óhugnanlegum fjöldamorðum. Það hefði líka mátt minnast á það að á sl. þrem árum hefur Ísraelsríki drepið um 900 óbreytta borgara, þar af eru 160 börn, sært um 90 þús. manns og valdið fötlun 6 -- 7 þús. manna, lagt í rúst allt palestínskt skólakerfi, gert upptækt yfir 50% af landinu á herteknu svæðunum, haft í haldi yfir 50 þús. manns, þar af þúsundir án dóms og laga, rekið

þúsundir í útlegð, jafnað hundruð heimila við jörðu.
    Íslendingar studdu dyggilega stofnun Ísraelsríkis. Íslendingar hafa í áranna rás haft mikla samúð með gyðingum sem hafa verið ofsóttir um allan heim. Ég er einn þeirra sem stutt hafa gyðingaþjóðina og tel að ríki þeirra eigi að njóta fyllsta öryggis. Ég geri líka þá kröfu til Ísraels að það sýni umburðarlyndi og láti af ofsóknum gegn saklausu fólki. Það fer ekki á milli mála að Ísraelar óvirða Sameinuðu þjóðirnar þegar þeim sýnist. Þeir óvirða öll þau alþjóðalög og samþykktir sem þeim sýnist. Þeir haga sér í dag á sama hátt og nasistar gerðu gagnvart gyðingum á sínum tíma. Mér er það ljóst að allt í kringum Ísraelsríki eru þjóðir hvar einræðisherrar ráða ríkjum án tillits til þegna sinna. En það er engin afsökun fyrir Ísrael til að drepa og misþyrma fólki.
    Síðasta dæmið um yfirgang þeirra gagnvart Aröbum sem nú búa á herteknu svæðunum er óheftur flutningur rússneskra gyðinga til Ísraels sem síðan reka Arabana frá heimkynnum sínum til að setjast að þar sjálfir. Ég vænti þess að íslensk yfirvöld veiti þessu athygli, geri ráðstafanir til að gera Ísraelsmönnum það ljóst að við krefjumst þess af þeim að þeir hagi sér eins og menn og virði þær reglur sem öðrum ríkjum eru sett, virði ályktanir öryggisráðsins, virði alþjóðalög.
    Í tilefni af þeim kafla í ræðu Þorsteins Pálssonar sem fjallaði um Íslenska aðalverktaka þarf að koma fram að þær breytingar sem utanrrh. gerði á því fyrirtæki eru einu raunhæfu breytingarnar sem stjórnvöld hafa beitt sér fyrir á undanförnum 35 árum. Margir hafa talað um að breyta þyrfti Íslenskum aðalverktökum. Mörg orð hafa fallið en athafnir hafa aldrei fylgt fyrr en nú. Ég vek á því athygli að fyrirhugað er að gera Íslenska aðalverktaka að almenningshlutafélagi þegar fimm ára aðlögunartíma er lokið. Tal hv. 1. þm. Suðurl. um að áður hafi einokunaraðstaðan aðeins verið tryggð í eitt ár í hvert sinn er fjarri
raunveruleikanum því fyrirtækið gat alltaf treyst á sjálfkrafa endurnýjun leyfisins. Samningurinn um fimm ára aðlögunartíma er að mínu mati skynsamlegur einkum með tilliti til atvinnuöryggis starfsmanna fyrirtækisins. Breytingin á Íslenskum aðalverktökum sem utanrrh. stóð fyrir var mikið happaverk sem engum hefur tekist áður.
    Skýrsla utanrrh. í heild er hins vegar góður vitnisburður um farsæla stefnu í utanríkismálum. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum utanrrn. farsæl störf, oft við erfiðar aðstæður. Jafnframt vil ég þakka utanrrh. skeleggan framgang í þágu íslensks málstaðar á alþjóðavettvangi.