Utanríkismál
Fimmtudaginn 08. nóvember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Utanríkismálaumræðan sem staðið hefur hér í dag hefur að vonum snúist að verulegu leyti um þá þróun mála sem nú á sér stað í Evrópu, bæði á sviði viðskipta og stjórnmála en þó ekki síður á sviði afvopnunarmála, eða því sem bjartsýnni menn en hæstv. utanrrh. Íslands hafa kallað ,,afvopnunarkapphlaupið``. Í þessum málaflokkum sitjum við Íslendingar enn einu sinni hjá. Eins og svo oft áður er daufheyrst við áherslum okkar og því sem okkur er lífsnauðsynlegt, afvopnun í höfunum. Svo sem kunnugt er hefur illa gengið að fá þennan málaflokk ræddan í mikilvægum afvopnunarumræðum, svo sem á ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu, eða RÖSE, og það þó að mikið hafi verið reynt og margir hafi sýnt mikla elju.
    Ég ætla ekki að fjölyrða um hvaða leið er vænlegust til árangurs til þess að ræða afvopnunarmál í beinum samningaviðræðum, hvort tíðinda er að vænta frá París þann 19. þ.m. eða dagana þar á eftir, né fjölyrða um hvort afvopnunarviðræðum væri betur komið ef RÖSE yrði stofnun fremur en fundir og samningaferli. Ég ætla heldur ekki að eyða orðum að því hvort þörf sé á stofnun né hvers eðlis líklegt væri að hún yrði. En mér finnst nauðsynlegt að geta þó að einhverju þeirra leiða sem hafa verið reyndar til þess að þoka okkur áfram í þeirri eilífu biðstöðu sem okkur er sífellt ætlað að vera í í afvopnunarmálum.
    Það virðist vera með Ísland í afvopnunarmálum eins og konur í kjaramálum. Viðkvæðið er sífellt: Bíðið á meðan við leysum öll hin málin fyrst. Bíðið. Það stendur ekki vel á einmitt núna. Seinna. Í augnablikinu táknar þetta seinna árið 1992, eða réttara sagt, þá getur svo farið að röðin komi að afvopnun í höfunum í RÖSE - viðræðunum, kannski. Í öðrum viðræðum eru horfurnar ekki svona bjartar eftir því sem ég best veit.
    Svo sem kunnugt er hafa bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu verið helsti þröskuldur í vegi okkar að hagsmunamálum okkar, afvopnun á höfunum, og það hefur raunar verið margstaðfest hér í dag. Svo ég taki dæmi af START - viðræðunum um takmörkun langdrægra eldflauga, sem m.a. eru í kafbátum, leyfi ég mér að vísa til rits sem Öryggismálanefnd gefur út. Þetta tölublað var gefið út í mars sl. og heitir ,,Upplýsingar um öryggis - og utanríkismál``. Þar segir í frásögn af START - viðræðunum í fyrsta lagi, með leyfi forseta:
    ,,Spurningin er því ekki hvort fækkað verði í sjóherjum, heldur hvort það verði gert með samningum eða einhliða, hvort meiri fækkun náist með samningum en einhliða ákvörðunum. Sá eðlismunur er hér á að umsamin fækkun væri bundin í samningum sem jafnframt fælu í sér ákvæði um gagnkvæman eftirlitsrétt. Jafnvel þótt einhliða ákvarðanir skiluðu sömu eða meiri fækkun en samningar hafa þeir því þann kost fram yfir einhliða aðgerðir að erfiðara er að snúa við blaðinu og byggja aftur upp flotastyrk.``
     En það skýtur nokkuð skökku við í þessum bjartsýnistóni að heyra það sem næst kemur um stefnu Bandaríkjamanna.
    ,,Hörðust andstaða við fækkun í sjóherjum og skorðum við athafnafrelsi flota á úthafinu kemur frá flotaveldum NATO, Bandaríkjamönnum, Bretum og Frökkum.`` Og nokkru seinna: ,,Í desember sl. sagði Brent Scowcroft, öryggismálaráðgjafi Bandaríkjaforseta, að flotaþarfir Bandaríkjanna yrðu endurmetnar í takt við breytingar í heiminum, ,,en ekki með samningum``. Einnig sagði Colin Powell, formaður bandaríska herráðsins, í janúar að hann væri ,,ekki reiðubúinn til að semja um skorður við umsvifum Bandaríkjaflota eða fækkun í honum. Fækkun í flotanum er mál sem við þurfum að leysa sjálfir innan stjórnarinnar, í viðræðum við þingið og í samráði við bandamenn okkar``. Þá sagði James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann svaraði fyrirspurnum á sovéska þinginu í febrúar, að svo lengi sem Bandaríkjamenn hefðu hersveitir í Evrópu þyrfti nægan flotastyrk til að tryggja öryggi þeirra. Það að samningar tækjust um niðurskurð hefðbundinna herja í Evrópu mundi því ekki í sjálfu sér leiða til þess að Bandaríkjamenn yrðu hlynntari samningum um sjóheri en áður.``
    Jafnvel þó verið sé að boða hér fækkun í flota, þá er engin trygging og ekkert eftirlit sem liggur þar að baki. Ég spyr: Eigum við að búast við að þetta dugi okkur? Eigum við samleið með þessum þjóðum sem ekki eru einu sinni tilbúnar að fara í samningaviðræður um afvopnun á höfunum heldur vilja gera allt einhliða og eftir sínu höfði og þannig að við getum ekki fylgst með? Fyrir þjóð sem geymir 70% af efnahagslífinu í sjónum, í óveiddum fiski, eru þetta að sjálfsögðu ill tíðindi en ekki ný. Við vitum gjörla hvaða afleiðingar kafbátaslys, eins og í fyrra, geta haft. Ekki bætir úr skák að heyra boðskap hæstv. forsrh. sem boðar að tæring háskagripa á borð við kjarnorkukafbáta sé ekki eitthvað sem gerist á öldum þeim sem við arfleiðum afkomendur okkar að heldur á árunum sem við sjálf lifum. Það er undarleg huggun að vera að eyðileggja fyrir okkur sjálfum en ekki framtíðinni og ég held raunar að það hafi verið annar boðskapur í máli hans.
    Við höfum fulla ástæðu til að óttast geislavirkni í höfum. Réttilega hefur verið bent á hve skaðvænleg áhrif jafnvel minnsti grunur um geislavirkni getur haft á markaði okkar og raunar er farið að íhuga hvernig grípa megi til neyðaráætlana ef slíkt kemur upp. Að sjálfsögðu á að beina athyglinni fyrst og fremst að því sem er vandinn, orsökinni, kjarnorkuvopnunum í höfunum, en ekki aðeins afleiðingunum. Við megum ekki við neinu slysi. Höfin umhverfis Ísland eru viðkvæm. Við þekkjum vítin til að varast. Það er geislavirkni í úthöfum nú þegar, t.d. í Suður - Kyrrahafi þar sem í kringum ósnortnar og fallegar Suðurhafseyjar er eyðing í hafinu og sjúkdómar mjög alvarlegir á landi.
    Ég vil ekki gera lítið úr þeim áföngum sem stjórnmálamenn og embættismenn hafa náð í erfiðri baráttu sinni við að koma á einhvers konar afvopnun með viðræðum í sambandi við höfin. Hins vegar finnst mér

hart að heyra að afvopnunarmálin skuli vera tengd í sífellt meira mæli einhverjum efnahagsmunum þjóða austan og vestan við okkur því afvopnunarmálin eru engin verslunarvara. Og mér finnst hart að við skulum þurfa að vera að ræða á þeim nótum, eða skulum vera að því, því að ég tel ekki að við þurfum það, við þjóðir sem við eigum að vera í samstarfi við á jafnréttisgrundvelli. Það er hart að sitja hjá í þeim afvopnunarviðræðum sem nú eiga sér stað og ég tel að sú sé raunin. Þetta minnir óneitanlega svolítið á það að það er markmið að á Íslandi skuli ekki vera her á friðartímum. Þarna er í rauninni verið að gera það að nauðsyn sem ekki er nauðsyn, hvort sem verið er að tala um verslun með sjálfsögð réttindi eins og þau að hafa ómenguð höf í kringum okkur og friðvænleg.
    Árið 1951 var, undir yfirskini ófriðar í Kóreu, tekinn her hér á land. Ég óttast að ítök herja, hernaðarbandalaga og markaða séu sífellt að verða stærri á Íslandi. Við megum ekki sætta okkur við slíkt hlutskipti. Okkur er best borgið utan hernaðarbandalaga og þeirra efnahagsbandalaga, hverju nafni sem þau nefnast, sem þau bjóða okkur upp á einhliða samninga, þar sem við ákveðum ekkert og aðrir allt. Við verðum líka að skilja það að einörð friðarstefna er stefna sem hægt er að vænta einhvers af.
    Hægfara viðræður, eins og getur um í skýrslu hæstv. utanrrh., eru vissulega ein leið að markinu en aðeins ein leið. Hún er nauðsynleg en í þeim farvegi er ef til vill ekki eins mikið rúm fyrir hugsjónir og samninga og þar sem þörfin er, sú knýjandi þörf til breytinga, og sá eldmóður sem stundum þarf til að breyta heiminum. Hún er ef til vill ekki til staðar í sama mæli í hefðbundnum samningaviðræðum þótt góður vilji og góð tækni séu þar.
     Ég held að við verðum að rifja upp það sem gerst hefur í Evrópu á undanförnu einu og hálfu ári. Þróun mála í Evrópu er einmitt gott dæmi um viðbrögð við þrýstingi sem var orðinn svo mikill að jafnvel Berlínarmúrinn féll, ýmsum til undrunar. Margir voru búnir að spá því að slíkt mundi ekki gerast, síst af öllu að þróunin yrði aðra leið en einhverja hefðbundna samningaleið. Vissulega hafa verið í gangi umræður um skipan mála í Evrópu. En þegar hlutir fara að gerast hratt er það vegna þess að það er brennandi þörf fyrir að breyta hlutum, breyta heiminum.
    Við höfum horft upp á svipaða vakningu í umhverfismálum á undanförnum árum og ég bendi á það að afvopnun í höfunum tengist bæði friðar - og umhverfismálum. Það er okkar að leiða umræðuna inn á þá braut að afvopnun í höfunum verði baráttumál friðarsinna og umhverfissinna sem hafa þokað málum mjög langt á örskömmum tíma. Utanríkismál eru ekki aðeins stofnanir og samningaferli heldur einnig hugarfar og vilji, þekking á umhverfinu og vilji til þess að breyta því sem aflaga fer. Það hefur sýnt sig. Þannig er samtakamætti best beitt en ekki gegn sameiginlegum óvinum eins og heyrðist hér í ræðu áðan.