Brúarframkvæmdir á Suðurlandi
Mánudaginn 12. nóvember 1990


     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræður. Flutningur þessarar till. var nú ekkert bundinn við prófkjör. Hún var einfaldlega borin fram af nauðsyn vegna þeirrar bilunar er skyndilega kom fram í sumar á Markarfljótsbrú og vegna þess að stjórnvöld virtust við þann atburð hreyfa sig lítt. Það er kjarni málsins. Ég óskaði eftir við samþingmenn mína að þeir væru með á till. Þeir treystu sér ekki til þess, þar á meðal ekki hv. 5. þm. Suðurl. Þeir virtust ekki treysta sér til, þar á meðal hann, að ljúka Markarfljótsbrú á einu ári. Sem þó þarf vegna brýnnar nauðsynjar. Ekki að ljúka göngubrú á Ölfusá á þessu ári. Ekki að taka til við Kúðafljót á eftir Markarfljóti og marka þá stefnu. Ekki að ljúka hönnun við Hvítá þannig að hún geti komið á eftir Kúðafljóti. Mál hv. þm. verður fyrst og fremst að skoðast í ljósi þeirra brigða sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur sýnt í vegamálum. Þar hefur allt verið skorið niður frá því sem um var talað. En vegamálin eru, eins og við vitum, eitt mesta byggðamálið. Það er vissulega eðlilegt að jafnágætur þingmaður og hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson fari hjá sér í þessari stöðu og skammist sín fyrir meðferð stjórnarliðs á samgöngumálunum. Orð hans hér í ræðustól verða að skoðast í ljósi þess.