Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það er mikið um það að við Íslendingar fullgildum samninga sem skrifað hefur verið undir af okkar ráðherrum með fyrirvara um samþykki þingsins. Mjög er það misjafnt hversu upplýstir við erum um þá hluti, hvað í þeim samningum stendur, og varðandi sjálfstæði sveitarfélaganna hlýtur það að vera fyrsta spurningin hvaða rétt ríkisvaldið og Alþingi Íslendinga hafa til að leggja niður sveitarfélög gegn þeirra vilja.
    Eins og allir vita erum við búnir að marka því allákveðna stefnu undir hvaða kringumstæðum heimilt er að sameina sveitarfélög en sá fyrirvari var þó í þeim lögum að hægt væri að mynda þjónustulega heild þeirra sveitarfélaga sem sameinuð hafa verið. Ég tel að það væri mjög fróðlegt ef hæstv. ráðherra, sem gerði hér grein fyrir þessu máli, mundi upplýsa þingheim um það hvort ákvæði um rétt sveitarfélaga til að fá að vera áfram sjálfstæðar einingar sé eitt af þeim efnisatriðum sem tekið er fyrir í þessum samningi.