Yfirstjórn öryggismála
Mánudaginn 19. nóvember 1990


     Friðjón Þórðarson :
    Virðulegi forseti. Hér er fjallað um till. til þál. um samhæfða yfirstjórn öryggismála. Þar er lagt til að Alþingi álykti að könnuð verði og undirbúin setning löggjafar um yfirstjórn öryggismála. Það er ekki ástæða til að hafa mörg orð um till. á þessu stigi mála. Hvort tveggja er að henni fylgir löng og ítarleg grg. og annað hitt að hv. 1. flm., 4. þm. Vestf., hefur fylgt henni skilmerkilega úr hlaði. En hitt má benda á, hvað efni þessarar till. er mikilvægt og þarfnast íhugunar allra hugsandi manna.
    Það er sagt að til þess að um ríki geti verið að ræða þurfi land, fólk og lögbundið skipulag, en til þess að ríki geti talist fullvalda þarf að vera fyrir hendi ríkisvald. Nú veit ég að menn eru ekki allir sammála um það að óska eftir sterku ríkisvaldi. Flestir hugsandi menn munu þó vera inni á því að ríkisvaldið þurfi að vera traust. Hér á landi hafa þessi mál þróast nokkuð með sérstökum hætti og lög sem lúta að lögreglu, landhelgisgæslu, tollgæslu og almannavörnum hafa þróast á sinn hátt. Er ekki neitt við það að athuga að slík mál gangi fram með nokkuð misjöfnum hætti eftir því um hvaða land er að ræða.
    Það segir hér að gert sé ráð fyrir að með yfirstjórn allra öryggis- og löggæslumála fari forstjóri, eða öryggismálastjóri, sem heyri undir dómsmrh. Á þessu er gripið hér. Nú er að mínu áliti ekki alveg nauðsynlegt að hér verði nákvæmlega hagað málum í samræmi við þetta. Ég álít meginstyrk þessarar till. vera þann að fá menn til þess að hugleiða þessi mikilvægu mál. Ekki endilega að það komist allir að sömu niðurstöðu. Þó var þess getið af hv. frsm. að umsagnir um þessa tillögu hafa yfirleitt verið mjög jákvæðar. En ég tel þó að vel megi athuga aðrar leiðir. Verst af öllu er að fljóta sofandi að feigðarósi í þessum efnum því hér er um lífshagsmuni þjóðarinnar að ræða sem enginn alþingismaður getur látið fram hjá sér fara án þess að gefa þeim gaum.
    Ég vil í þessu efni minnast á það að fyrir skömmu síðan rakst ég á grein í blaði sem skrifuð er af gagnmerkum embættismanni. Þar grípur hann á því að það sé með öllu óforsvaranlegt að við stjórnarmyndanir sé dómsmrn., sem hefur óneitanlega í hendi sér innsta kjarna og stjórn öryggismálanna, notað sem afgangsstærð eða skiptimynt, eins og því miður hefur gerst við stjórnarmyndanir. Ég er hræddur um að ýmsum eldri og reyndari alþingismönnum hefði ekki hugnast slík aðferð. Ég tel hana hv. alþm. til lítils sóma því þetta er mál sem þeim ber skylda til að hugleiða og kasta ekki höndum að.
    Hvað sem um þetta má ræða, og það má vissulega halda langa tölu um þetta málefni, þá hreyfir þessi till. mjög mikilvægu máli. Hún er tímabær og aðkallandi. Hún þarf langa og markvissa umfjöllun sem bæði ráðamenn þjóðarinnar og raunar hver frjálsborinn einstaklingur þarf að taka þátt í. Ef við Íslendingar ætlum að halda fullveldi okkar og frelsi þá verðum við að vera tilbúnir til að mæta þeim kröfum sem til okkar eru gerðar sem fullvalda þjóðar.