Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Mér þykir málið mér skylt þar sem ég er formaður stjórnar Félagsmálaskóla alþýðu og líka formaður stjórnar MFA og hrærist því mjög í þessum málum. Ég tel að aukin fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði sé mjög mikil nauðsyn og bendi á að þegar er þessu nokkuð sinnt og það fer mjög eftir skólum hvernig því er sinnt, skólastjórnendum, vegna þess að áhuginn er mjög misjafn. Menningar - og fræðslusambandið hefur alltaf verið reiðubúið til samstarfs um þessi mál og ég er mjög skotinn í þeirri hugmynd, sem hér er sett fram af menntmrh., að setja á stofn fastanefnd um það hvernig er staðið að þessari fræðslu. Ég tel að það gæti margt gott komið frá slíkri nefnd. Þetta þarf að gerast í samstarfi því að sjónarmið þarf að samræma um það hvernig að þessu skuli staðið.
    Það er átakanlegt oft og tíðum hversu nemendur eru illa að sér um vinnumarkaðinn, um veruleikann úti í lífinu, og þótt verkalýðshreyfingin hafi lagt sig alla fram um það að sinna þessum málum þá er ekki nóg að gert. Sú fræðsla kemur einkum til þeirra sem í félögunum eru. Það er fyrirhugað að gera mikið átak í þeim efnum og ég vænti þess að það átak muni láta gott af sér leiða.
    Ég fagna því hugarfari sem kemur fram hjá menntmrh. í þeirri hugmynd að setja á stofn fastanefnd. Þessi fræðsla þarf að vera markviss. Þessi fræðsla þarf að vera á þann veg að hún kveiki áhuga nemenda fyrir því hvernig veruleikinn er fyrir utan veggi skólanna.