Fræðsla um réttindi og skyldur á vinnumarkaði
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. menntmrh. Þau svara hluta af því sem fyrirspurnin fjallaði um en því miður er ekki alveg ljóst, eins og raunar kom fram í máli hv. 4. þm. Reykn., hvernig hluta þessa máls reiðir af innan skólakerfisins. Á ég þá sérstaklega við þann hlut er varðar fræðslu um réttindi og skyldur á vinnumarkaði en ekki bara tengsl við atvinnulífið, starfsval og námsráðgjöf sem er mjög mikilvægur þáttur en ekki nákvæmlega sá sami og ég var hér að spyrja um. Öll slík fræðsla hlýtur að sjálfsögðu að vera af hinu góða.
    En tilefni þáltill. kvennalistakvenna í fyrra og þessarar fyrirspurnar er fyrst og fremst þessi spurning: Finnst okkur forsvaranlegt að senda unglinga, eða jafnvel fullorðið fólk, út á vinnumarkaðinn án þess að það geri sér grein fyrir hvaða réttindi t.d. greiðslur í lífeyrissjóði og uppsöfnun orlofs færir þeim og hvaða áhætta er tekin ef þessar greiðslur eru ekki inntar af hendi? Því miður fjölgar þeim sífellt sem eru úti á vinnumarkaðinum upp á einhver óljós býti, ekki síst ungu fólki. Það er ráðið í vinnu á veitingastöðum eða í sérhæfðustu verkefni, svo sem námsefnisgerð, án þess að njóta réttinda almennra launþega eða fá þau bætt með nógu háum greiðslum til þess að mæta þeim umframkostnaði sem hlýst af sjálfstæðri verktakastarfsemi. Vinnumarkaðurinn verður sífellt margslungnari og við því verður að bregðast, m.a. í skólakerfinu, og því beini ég þessum ábendingum sérstaklega vegna þeirrar fastanefndar sem hæstv. menntmrh. nefndi og vonast til þess að tekið verði af miklum myndarskap, og í góðri samvinnu við þá aðila sem eru þessum málum kunnugastir, á þessu alvarlega máli.