Neyðaráætlun vegna olíuleka
Fimmtudaginn 22. nóvember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi geta þess til viðbótar því sem ég sagði áðan að nefnd er starfandi sem fjallar um aukið eftirlit með olíubirgðastöðvum og olíulögnum og hvernig megi setja strangari reglur um frágang og búnað í slíkri starfsemi, þ.e. í olíubirgðastöðvum. Ég hef óskað eftir að þessi nefnd geri tillögur um það með hvaða hætti megi auka eftirlit með þessari starfsemi. Gert er ráð fyrir að skylt verði að rannsaka allar olíulagnir sem eru neðan sjávar einu sinni á hverju ári a.m.k. til að ganga úr skugga um að það sé enginn veikleiki kominn í lögnina en hingað til hefur slíkt eftirlit ekki átt sér stað nema með margra ára millibili. Eins og kom fram í sambandi við olíumengunarslysið sem átti sér stað út af Laugarnestanga var þar um nýja lögn að ræða sem var aðeins fjögurra ára gömul en þó hafði orðið alvarleg tæring á samskeytum og það olli slysinu. Þess vegna er mjög brýnt að viðhaft sé strangt eftirlit sem við teljum að verði að eiga sér stað a.m.k. árlega og í undirbúningi er reglugerð þar að lútandi.
    Hins vegar vil ég nota þetta tækifæri og taka undir hugmyndir sem nýlega var hreyft, líklega í sjónvarpinu, af núv. bæjarstjóra í Keflavík. Spurningin er: Er ekki orðið tímabært að koma upp einni olíuhöfn þar sem öll uppskipun olíu ætti sér stað með því að skip gætu lagst að viðlegukanti og dælt olíunni beint á tanka án þess að hún þyrfti að fara í gegnum leiðslur í sjó?