Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, innrás vímuefnavandans, innrás sem leggur heimilið í rúst, innrás sem brýtur niður einstaklinga, sérstaklega ungt fólk. Það kom fram fyrir nokkru að um 500 unglingar eiga nú við bráðan vímuefnavanda að stríða. Unglingar falla æ meira úr skóla, afbrot unglinga aukast og þeir verða æ yngri að síbrotamönnum. Unglingar flosna upp af heimilum og lenda á götunni. Bak við vímuefnavandann leynast ófyrirleitnir viðskiptamenn,
fíkniefnasalar, allt frá stóru eiturlyfjabarónunum sem framleiða og flytja út varninginn og niður gegnum ótal milliliði af misfínni gerð. Eiturlyfjasala og neysla er stærra vandamál en menn grunar, fórnardýrunum fjölgar sífellt, vandamál þeirra og aðstandenda eru hrikaleg. Þar liggur dauðinn við dyrnar. En í þessum efnum finnst fjárveitingavaldinu of dýrt að bjarga mannslífum. Það er hægt að efla forvarnarstarf gríðarlega mikið. Það kostar nokkra fjármuni sem eru hreinir smámunir miðað við það sem þjóðfélagið þarf að eyða vegna þeirra sem komnir eru í tölu fórnardýranna.
    Eitt lítið dæmi að lokum um andvaraleysið og skilningsleysið. Keflavíkurflugvöllur er eini alþjóðaflugvöllur okkar. Áreiðanlegt er að þar er fíkniefnum smyglað í verulegum mæli til landsins. Yfirvöld tollgæslu þar hafa margóskað eftir því að fá sérþjálfaðan leitarhund til aðstoðar. Nei og aftur nei er svarið í þeim efnum. Í fyrra var eini sérþjálfaði leitarhundur landsins, sem er í Reykjavík, fenginn með eftirgangsmunum í tólf skipti til Keflavíkurflugvallar. Tilefnið var ekkert sérstakt. Það var tilviljum hvernig hundurinn kom. En viti menn. Hundurinn fann fíkniefni í fjögur skipti af þessum tólf. Það er þjóðfélaginu dýrt að spara í forvarnarstarfi. Það er dýrt að horfa á smáupphæðir þegar velferð unglinga og heill heimila er í veði.