Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þessi tillaga fjallar fyrst og fremst um könnun og það er fagnaðarefni að heyra á ráðherra að niðurstöður úr henni gætu legið fyrir við þingslit í vor.
    Hitt er svo annað mál að fyrir löngu hefðu stjórnvöld átt að vera búin að taka betur til hendinni í þessu máli. Þetta hefði fyrir löngu átt að liggja fyrir og vera unnið samkvæmt því á mörgum undangengnum árum og við fengið meira fjármagn til raunverulegra varna sem samgöngumálin eru liður í. En það þarf líka og hefði löngu þurft að vera búið að eyða þeim tvískinnungi hér á Íslandi að það sé aðeins hægt að fá fjármagn í ákveðnar framkvæmdir sem ákveðnir einstaklingar hafa tekjur og gróða af. Meginmál í þessu samstarfi er að sjálfsögðu að við höldum hér varnarsamstarfi, tökum eðlilegan þátt í því og leggjum til land, en þjóðin sjálf þarf líka að njóta góðs af þessu samstarfi en ekki aðeins örfáir einstaklingar. En ég þakka hæstv. ráðherra og vona að það verði tekið til hendinni í þessu máli.