Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir frv. til laga um staðfestingu á samningi sem Íslendingar eru aðilar að um stofnun norræns fjármögnunarfélags á sviði umhverfisverndar.
    Virðulegi forseti. Það var í ársbyrjun 1989 að umhverfisráðherrar Norðurlanda ræddu um hvernig mætti draga úr umhverfismengun sem berst til Norðurlandanna frá grannríkjum í Austur - Evrópu. Embættisnefnd umhverfisráðherra á Norðurlöndunum kannaði ýmsar leiðir til þess að nýta norrænt fjármagn sem best í þessu augnamiði. Sýndi sú könnun m.a. að lánsfé til umhverfisverndandi framkvæmda í löndum Austur - Evrópu er mjög takmarkað vegna lítils lánstrausts margra ríkjanna og vegna hárra vaxta á verkefnisútflutningslánum.
    Þá var þeirri hugmynd hreyft að setja á stofn sérstakan norrænan sjóð til að niðurgreiða vexti af fjárfestingarlánum til umhverfisverndandi framkvæmda í Austur - Evrópu. Niðurstaða embættismannanefndarinnar og síðar ráðherranefndarinnar, þ.e. umhverfisráðherranna, varð hins vegar sú að leggja til að stofna skyldi norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfismála. Með þessu móti skyldi stefnt að því að koma á fót framleiðslu á umhverfisverndandi tækjabúnaði í löndum Austur - Evrópu og draga þannig úr þörf landanna á erlendum gjaldeyri til að kaupa slíkan búnað og aðra tækniþekkingu. Tillögur um stofnun slíks félags voru síðan ræddar á aukaþingi Norðurlandaráðs sem var haldið á Álandseyjum í nóvembermánuði 1989. Þar fékk þessi hugmynd og þær tillögur, sem þá voru tilbúnar, góðar viðtökur.
    Málið var síðan rætt áfram á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík 28. febr. 1990 þar sem lá fyrir formleg ráðherranefndartillaga um stofnun þessa félags. Sú tillaga var samþykkt og var síðan samningur um stofnun félagsins undirritaður af umhverfisráðherrum hinn 1. mars 1990 í Reykjavík með fyrirvara um samþykki þjóðþinga allra Norðurlandanna.
    Mengun í lofti og vatni virðir engin landamæri. Þrátt fyrir verulegt átak einstakra ríkja í umhverfismálum heima fyrir vex mengun lofts og hafs víða vegna aðgerðarleysis grannríkja. Víða í Austur - Evrópu eru umhverfismál í mesta ólestri eins og svo áþreifanlega hefur komið í ljós eftir að landamæri þar opnuðust og múrar hrundu. Hreinsibúnaður vegna útblásturs verksmiðja og orkuvera er í lágmarki og grunnvatni og vatni í ám er víða stórlega spillt. Þótt áhrifanna gæti mest í heimalandinu berast óhreinindi til grannlandanna með loftstraumum og með ánum til sjávar. Sérstaklega safnast mengunin saman í litlum innhöfum eins og í Eystrasaltinu. Sem dæmi má nefna að töluverður hluti brennisteinssambanda í úrkomu á Norðurlöndum er talinn koma frá Austur - Evrópu.
    Talið er að með tiltölulega ódýrum aðgerðum megi draga verulega úr skaðlegum efnum í frárennslisvatni og útblæstri verksmiðja og orkuvera í Austur - Evrópu þótt ekki verði gerðar jafnstrangar kröfur um hreinsibúnað strax og gilda á Norðurlöndum. Lítið gagn er

þó í því að flytja hreinsibúnað frá Norðurlöndum og setja upp á stöku skorstein þar eystra. Mestum árangri má væntanlega ná með því að koma á fót fyrirtækjum í hinum ýmsu löndum Austur - Evrópu sem framleiða hreinsibúnað eða stuðla á annan hátt að umhverfisverndandi framkvæmdum. Með því að leggja fé í stofnun slíkra fyrirtækja er vonast til að árangurinn verði margfalt meiri en ef sama fjármagni væri veitt t.d. í hreinsibúnað á einstök orkuver eða til einstakra sorphreinsunarstöðva.
    Markmið stofnunar fjármögnunarfélagsins er því að auka umhverfisverndandi framkvæmdir og uppbyggingu framleiðslu á t.d. hreinsibúnaði fyrir verksmiðjur í Austur - Evrópu. Félagið mun leggja fram áhættufjármagn, t.d. hlutafé, ábyrgðir og lán, sem í vissum tilvikum geta verið víkjandi, til samstarfsfyrirtækja í eigu norrænna fyrirtækja og heimamanna. Þessi fyrirtæki geta unnið að framleiðslu á hreinsibúnaði, verklegum framkvæmdum, umhverfisbætandi verkefnum og ráðgjöf. Samstarfsverkefnin þurfa að vera arðbær og tæknilega framkvæmanleg. Fyrst um sinn mun stuðningur félagsins bundinn við samstarfsfyrirtæki eða samstarfsverkefni með norrænum hagsmunum sem gætu átt sér stað í Austur - Þýskalandi, Póllandi, Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi. Gert er ráð fyrir að Norræni fjárfestingarbankinn í Helsinki sjái um rekstur fjármögnunarfélagsins.
    Hvað varðar íslenska hagsmuni í þessu sambandi, þá eru þeir augljósir þar sem íslensk fyrirtæki hafa þegar leitað eftir verkefnum í Austur - Evrópu og má m.a. geta þess að íslenska fyrirtækið Virkir-Orkint hefur gert samninga um samstarfsverkefni í Ungverjalandi með innlendum aðilum í Búdapest um verkefni á sviði vinnslu jarðvarma sem falla mjög vel að þeim fyrirætlunum og áformum sem hinu nýja fjármögnunarfélagi er ætlað að styðja.
    Til þess að kynna þetta betur fyrir íslenskum fyrirtækjum sem starfa á þessum vettvangi gekkst umhvrn. fyrir sérstökum fundi í Reykjavík 1. júní sl. Þangað kom sem gestur ráðuneytisins Þorsteinn Ólafsson sem nú er framkvæmdastjóri Norræna verkefnaútflutningssjóðsins í Helsinki. Hann hefur einmitt unnið mjög að verkefnum á þessu sviði og hefur fyrir hönd okkar Íslendinga átt sæti í þeirri undirbúningsnefnd sem hefur undirbúið stofnun hins nýja fjármögnunarfyrirtækis.
    Ef litið er þröngt á hagsmuni einstakra Norðurlanda má halda því fram að stofnun fjármögnunarfélagsins nýtist hinum Norðurlöndunum betur en Íslandi. Hins vegar ber að minnast á nauðsyn þess í náinni framtíð að stórauka rannsóknir á mengun Norður - Atlantshafsins og umhverfi þess. Með þátttöku í fjármögnunarfélaginu, sem miðar að hreinsun Eystrasalts og að draga úr loftmengun á hinum Norðurlöndunum, geta Íslendingar auðveldlega farið fram á sameiginleg fjárframlög Norðurlanda til umhverfisverkefna í Norður - Atlantshafi þegar þar að kemur, fyrir svo utan þá beinu hagsmuni, eins og ég gat um áðan, sem íslensk fyrirtæki gætu haft af því að leita eftir verkefnum í Austur - Evrópu og fá til þess stuðning

hins nýja fjármögnunarfélags.
    Hvað varðar afstöðu Íslands til fjármögnunarfélagsins þá féllst ríkisstjórnin á tillögu ráðherranefndarinnar fyrir sitt leyti á fundi sínum 23. febr. sl. vor. Hinn 23. apríl sl. barst svo umhvrh. bréf frá utanrrn. þar sem á það var bent að nauðsynlegt mundi að leggja fyrir Alþingi á næsta löggjafarþingi frv. til laga um þetta mál og jafnframt þáltill. um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta samninginn um norrænt fjármögnunarfélag á sviði umhverfisverndarmála. Þegar þetta gerðist var farið að líða að þinglokum og því ekki talið að auðið mundi að fá málið afgreitt á því stigi. Upphaflega hafði þó verið hallast að því að lagasetning um þetta atriði væri ekki nauðsynleg.
    Reyndar má líta svo á að Alþingi hafi efnislega samþykkt aðild að samningnum með því að á fjárlögum ársins 1990 var veitt fé til greiðslu á framlagi Íslands samkvæmt ákvæðum samningsins. Til þess að árétta þennan skilning enn frekar ritaði utanrrn. bréf til aðstandenda fyrirtækisins í Helsinki og staðfesti aðild Íslendinga að fyrirtækinu í ágústmánuði sl. Engu að síður er talið nauðsynlegt að leggja hér fram frv. til laga til að staðfesta aðild Íslands að þessu félagi, enda er um að ræða ákvæði í þeim samningi sem var undirritaður í Reykjavík þann 1. mars sl. sem kveður á um vissa undanþágu frá ýmsum skattaákvæðum sem eru í lögum hér á landi.
    Í 6. gr. samningsins sem var undirritaður í Reykjavík segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Félagið skal undanþegið greiðslu - og gjaldeyrishömlum og ráðstöfunum á lánsfjármarkaði sem gætu komið í veg fyrir eða torveldað starfsemi þess. Eignir og tekjur félagsins skulu undanþegnar skattlagningu. Að því er fjármögnunarstarfsemina varðar skal félagið undanþegið stimpilgjöldum og öðrum gjöldum til hins opinbera.``
    Stofnfé þessa fyrirtækis er 36 millj. sérstakra dráttarréttinda, SDR, og skiptast framlög Norðurlanda þannig að Danmörk greiðir 7,8 millj., Finnland 7,4 millj., Ísland 0,4 millj., Noregur 7 millj. og Svíþjóð 13,4 millj. Er gert ráð fyrir því að þessar greiðslur verði inntar af hendi sex sinnum, þ.e. á ári hverju næstu sex árin. Framlag Íslendinga er því um það bil 5 millj. kr. árlega næstu sex árin.
    Að öðru leyti skýrir lagafrv. sig sjálft. Í 1. gr. frv. er einungis staðfestur sá ásetningur að stofna fjármögnunarfélagið samkvæmt þeim samningi sem var undirritaður, en 2. -- 4. gr. frv. fjalla um þær nauðsynlegu undanþágur sem þetta fyrirtæki verður að fá í samræmi við þær venjur sem hafa skapast um slík alþjóðleg fyrirtæki sem við eigum aðild að. Í þessu sambandi vil ég geta þess að í Ed. voru gerðar smávægilegar lagfæringar á frv. þar sem inn í frumvarpstextann hafði læðst svolítil brenglun á hugtakinu ,,sjóður`` og ,,félag``. Það var fært til betri vegar í Ed. og alls staðar í staðinn fyrir orðið ,,sjóður`` sett orðið ,,félag`` því að hér er um fjármögnunarfélag að ræða og sjóður hefur ekki verið nefndur í því sambandi.
    Ég held, virðulegur forseti, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en leyfi mér að lokinni

þessari umræðu að vísa málinu til 2. umr. og til meðhöndlunar í fjh. - og viðskn.