Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 03. desember 1990


     Karl Steinar Guðnason :
    Frú forseti. Það mál sem hér er rætt er rætt af miklum hita um allt land. Það kemur mönnum í opna skjöldu að fá þær tilkynningar sem nú hafa komið til manna um hvað þeir megi veiða á næstunni og sitt sýnist hverjum. Auðvitað er það svo að það hefur verið erfitt í gegnum árin að móta fiskveiðistefnu. Við höfum þurft að ná sáttum í þeim efnum vitandi það að fiskurinn í sjónum er takmarkaður, þetta er takmörkuð auðlind, þetta er auðlind sem við verðum að skammta. En síðast þegar við samþykktum lögin um stjórn fiskveiða var það gert í nokkuð góðri sátt við hagsmunaaðila eins og sagt er, m.a. Landssamband smábátaeigenda.
    Auðvitað kostar það mikla vinnu, kostar það mikil átök að ná slíkri sátt. Tilfellið er að það er sama hvar maður kemur á landið, menn eru yfirleitt hver með sína skoðun á því hvernig skammta skuli þessa hluti. En menn segja samt: Ja, jú, það verður að stjórna fiskveiðunum. Það er ekki nóg af fiski til í sjónum. Það verður að skammta fiskinn.
    Hér á Alþingi eru þessi mál mikið rædd og menn skipta um skoðun eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það er reyndar svo að hér hefur verið hópur manna sem hefur haft sérstöðu hvað varðar þessa lagasetningu, en almennt má segja að það hafði náðst nokkuð góð sátt um þessa hluti.
    Nú er það hins vegar svo hvað varðar smábátana að það var löngu fyrir séð að menn kæmust í þessi vandræði. Það var löngu fyrir séð að það stefndi í óefni vegna þeirra reglna sem fyrir hendi voru um stærð bátanna. Ég tel að það hefði átt að setja hömlur á fjölgun þessara báta fyrir löngu síðan og ég veit að ráðherra hefur beitt sér fyrir því og Landssamband smábátaeigenda gerði tillögur um það fyrir nokkrum árum síðan. Ég tek undir það sem kom fram á fundi í Keflavík í gær er Arthur Bogason sagði: Hvar var Sjálfstfl. þegar við gerðum tillögur um að stöðva fjölgun bátanna? Það reyndist svo að hann fannst hvergi þá. Þess vegna er vandinn svo miklu meiri núna vegna þess að ekki var kippt í taumana á réttum tíma.
    Ég var á fundi suður í Keflavík í gær þar sem mönnum var mjög heitt í hamsi. Það var hátt á annað hundrað manns á fundi, menn sem höfðu fengð tilkynningar um úthlutun vegna sinna báta. Og það verður að segja eins og er að menn voru mjög óhressir.
Ég hef heyrt það af svari sjútvrh. að málið er betur statt en ég hélt. Þetta er tilraunakeyrsla, eins og hann sagði áðan. Enda hlýtur það að vera. Það kom fram hjá mörgum á fundinum í gær að sumir fengu núll úthlutað. Og því var bætt við að þeir mættu ekki selja þetta núll næstu fimm árin. Það er auðsjáanlegt að það er einhver maðkur í mysunni. Þetta mál hefur ekki verið unnið sem skyldi.
    Hitt er annað mál að ég er nokkuð undrandi á því hvernig að þessu hefur verið staðið frá hendi sjútvn. Það kom fram áðan að af frumkvæði sjútvrh. var haft samráð við sjútvn. um setningu reglugerðar. Gerðar

voru nokkrar athugasemdir og það var tekið tillit til þeirra athugasemda. Því furða ég mig nokkuð á því hvernig upphrópanir eru um málið núna. Menn komu inn á það á fundinum í gær að nú þegar verið væri að skammta væri verið að gera ósköp svipaða hluti og gerst höfðu í landbúnaði á sínum tíma. En þá var leitað í vasa skattborgaranna og þeir látnir brúa bilið. Og þá kemur maður að því: Hvernig á að milda þann sársauka sem nú er á ferðinni, eða verður væntanlega, þegar alvöruúthlutun hefur farið fram? Ég vil líka benda á það að þeir sem eru með smábáta eiga að gera vart við sig, þeir eiga að krefjast lagfæringar, þeir eiga að gera grein fyrir sínu máli. Þeir eiga að leita til síns landssambands sem á fulltrúa í þessari úthlutunarnefnd, um það hvernig þeir vilja breyta hlutunum, tína til sínar röksemdir. Það kemur m.a. fram að þeir sem eru á nýjum bátum fá meira en þeir sem hafa verið að róa á viðmiðunartímabilinu. Og ýmiss konar aðrar skekkjur hafa komið í ljós sem áreiðanlega er hægt að leiðrétta og ég treysti því að það verði gert.
    Eitt er það sem menn verða að hafa í huga þegar tekin er ákvörðun um þessa hluti og það er að sumir fá væntanlega svo lítið að þeir verða dæmdir til að róa einir á bátnum. Það er vont mál, það er mál sem varðar slysavarnir. Það er mál sem varðar fjölskyldurnar sem heima sitja. Ég tel að það þurfi að taka mjög mikið tillit til þess líka.
    Á þessum fundi komu líka fram raddir sem bentu á það að þar sem menn hefðu aflað 250 kg áður fyrr væri komið niður í 50 kg. Fiskgengdin væri svo miklu minni en áður og menn yrðu að huga að því. Þess vegna erum við með þetta skömmtunarkerfi því við óttumst að fiskurinn hverfi. Menn skulu ekkert vera að blekkja sig með því að verið sé að úthluta verðmætum sem sé til nóg af. Það er komið að því að menn geri sér grein fyrir því hvar eigi að bera niður. En það verður að gerast á þann hátt að það verði sem allra mildilegast og gætt verði að hagsmunum hinna ýmsu byggðarlaga. Ég reikna með að á Suðurnesjum séu 100 -- 200 smábátar. Það má reikna með að aflaverðmæti þessara báta sé nálægt aflaverðmæti eins til tveggja frystitogara. Það kom fram líka að 100 bátar færðu mönnum væntanlega um 400 önnur störf. Og það skiptir máli, ef menn þurfa nú að standa yfir rústum þessa útvegs, að menn séu ekki sendir út á gaddinn atvinnulausir. Þar verður að koma til mildi og tillitssemi þar sem því er hægt að koma við.
    Það má geta þess að það kom líka fram á fundinum í gær að það var tilnefndur bátur norður á Akureyri sem hafði legið við bryggju í tvö til þrjú ár sem hafði fengið nokkur hundruð tonn, nokkra aukningu í úthlutun. Það sýnir okkur að þetta er eitthvað galið og er, eins og sagt hefur verið og komið hefur fram, tilraunakeyrsla sem er meiningin að leiðrétta.
    Það var rétt sem kom fram áðan, ég man ekki hvort fyrirtækið hefur verið nefnt á fundinum sem ætlaði að kaupa. En það var einn ágætur skipstjóri sem þurfti nauðar sinnar vegna að kaupa bát. Hann bauð 10 millj. kr. Hann fékk hann ekki því að stórfyrirtæki, eitt af þessum stóru sem eru að drepa þá smáu, bauð 12 millj. Hann vissi að byði hann 12 millj. þá byðu þeir 14 millj. Hann vissi það að þangað átti báturinn að fara. Svona gengur þetta. Það er mikið vandamál hvernig þeir stóru gleypa þá smáu og þetta er mál sem ekki varðar einstök byggðarlög, þetta mun flæða yfir öll byggðarlög í landinu. Það verður að sporna við þessu því ég leyfi mér að kalla þetta spillingu sem er þarna á ferðinni. Þetta er líka óhagkvæmni. Það er hagkvæmt að smábátaútgerðin geti plummað sig, eins og sagt er, og menn geti þar búið við góðan kost. Það er ekki neinum til góðs að haga málum þannig að allir þurfi að lepja dauðann úr skel.
    Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég treysti því í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram að hlutir verði lagfærðir. Og það hefur reyndar komið fram að þetta sé tilraunakeyrsla og ég skora á smábátaeigendur að koma sínum athugasemdum á framfæri til þess að hægt verði að gera þessa hluti á betri hátt en mönnum er sýnt núna. Það sem nú er sýnt getur ekki gengið.