Kostnaður við breytingar á Þjóðleikhúsi
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Ég vil segja það í tilefni af orðum hv. þm. að auðvitað er það þannig að þessi mál koma hér til umræðu í tengslum við 2. og 3. umr. fjárlaga og þá gefst nægur tími til þess að ræða um þau. Varðandi embætti húsameistara ríkisins er kannski rétt að upplýsa það að það eru fleiri flokkar en Alþfl. sem hafa flutt um það mál hér á Alþingi á undanförnum árum. Það hafa hygg ég fulltrúar allra flokka meira og minna verið með á vörunum og jafnvel í tillöguformi hér aftur og aftur og aftur. Það væri hins vegar rannsóknarefni bæði fyrir þingið og stjórnmálaflokkana að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að þeim hafi gengið svona illa að þoka þessu mikla stefnumáli sínu í framkvæmd.