Landnýtingaráætlun
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrir mitt leyti þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur átt sér stað um gerð landnýtingaráætlunar. Hér er, eins og hefur komið fram hjá hv. þm., hreyft mjög mikilvægu máli og svo sannarlega orðið tímabært að taka það fastari tökum.
    Mér þykir miður að það skuli hafa orðið einhver misskilningur eða sambandsleysi við þingflokk Kvennalistans og mun ég sjá til þess að þeim berist bréf strax í dag með ósk um tilnefningu í hálendisnefnd. Ef ég man rétt þá hafa allir þingflokkar og öll ráðuneyti sem fengu tækifæri til að tilnefna fulltrúa sína í þessa nefnd lokið því nema þingflokkur Kvennalista og Sjálfstfl.
    Hv. 3. þm. Norðurl. e. minntist hér á störf landgræðslunefndar. Hér má segja að komi fram angi af þeim deilum sem hafa orðið um skiptingu gróðurmála milli umhvrn. og landbrn. Á vegum umhvrn. fer nú fram undirbúningsvinna að gerð gróðurkorta, þ.e. að semja þáltill. um að ljúka gerð staðlaðra grunnkorta og gróðurkorta fyrir landið í heild sinni á stafrænu tölvutæku formi. Til þess hafa fengist fjármunir. Ég tel mjög nauðsynlegt að þessar tvær nefndir taki upp eitthvert samráð sín á milli svo hægt sé að gera þessa vinnu markvissari. Hér er einfaldlega um að ræða anga af þeim deilum um forræði þessara mála sem við höfum því miður orðið að horfa upp á í ríkum mæli í umræðum á Alþingi.