Sala á Þormóði ramma
Fimmtudaginn 06. desember 1990


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. varaði við þeim sjónarmiðum sem fram hefðu komið væntanlega hjá okkur hv. 1. þm. Norðurl. v. um að við værum ekkert vissir um það að ástæða væri til að einskorða hlutabréfakaup í þessu fyrirtæki við aðila sem nú eiga heima á Siglufirði. Hvorugur okkar tók neitt af um þetta. Hins vegar viljum við láta athuga það í framkvæmd þessa máls hvort ekki kunni að vera vinningur að því að fá nýtt fé inn í fyrirtækið, nýtt fé inn í bæjarfélagið og þá helst ef því fylgir að eigendur þess fjármagns flytji þangað og gerist þar bæjarbúar. Hv. þm. Ragnar Arnalds flutti röksemdir sem gengu alveg í kross. Hann vitnaði til þess að þetta hefði gefist vel við sölu á Sigló hf. vegna þess að þar hefðu keypt eigendur Ingimundar hf. úr Reykjavík. Sama gæti gilt um sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma og væri það til þess að styrkja bæjarfélagið en ekki til að veikja það. Þetta segi ég vitaskuld í trausti þess að sú kvöð verði afdráttarlaus við sölu á þessum hlutabréfum sem fjmrh. sjálfur hefur kynnt. Við þingmenn kjördæmisins höfum lagt ríka áherslu á að tryggt verði að kvótinn verði ekki seldur úr bænum og að viss gát verði viðhöfð og hömlur að því er tekur til sölu á eignum fyrirtækisins, þ.e. skipanna. Þetta taldi ég nauðsynlegt að láta koma fram eftir ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds.