Fundarsókn þingmanna
Mánudaginn 10. desember 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Nú er þolinmæði forseta alveg á þrotum. Í húsi eru 24 hv. þingdeildarmenn. Sannleikurinn er sá að viðvera hv. deildarmanna, og er ég þá ekki að beina orðum mínum að þeim hv. þm. sem hér eru, við atkvæðagreiðslu í þessari hv. deild er fyrir neðan allar hellur. Það gengur ekki mikið lengur hvernig hv. þingdeildarmenn sækja þingfundi. Á dagskrá þessa fundar voru í upphafi tvær atkvæðagreiðslur. (Forseti hringir.) Hér eru í húsi 24 þingdeildarmenn, 16 eru komnir í sal. Forseti er búinn að hringja bjöllu nú í fimm mínútur. Ef þetta ekki gengur á næstu mínútum mun forseti slíta þessum fundi. Er það þá í annað skipti að forseti hefur orðið að slíta fundi í hv. deild vegna þess að menn hafa ekki komið til atkvæðagreiðslu.
    Nú telur forseti fullreynt að hv. þingdeildarmenn muni ekki koma til atkvæðagreiðslu. Vill forseti að það komi skýrt fram við bókun þessa fundar að það eru bókaðir inn í hús 24 hv. þingdeildarmenn. Í sal sitja nú 17. Forseti hefur beðið þingverði að leita uppi hv. þingdeildarmenn og óska eftir því að þeir komi til starfa.
    Þetta er hið versta mál, ef forseti má orða það þannig, og þinginu auðvitað ekki til sóma.