Opinberar fjársafnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. og jafnframt þau greinargóðu svör sem hér hafa komið fram. Í framhaldi af því vil ég láta í ljós þá skoðun mína að þessi mál þurfi að færa til betri vegar. Upp hafa komið deilumál hér á landi varðandi opinberar safnanir. Seinast var það tengt söfnun á fjármagni sem kirkjulegir aðilar stóðu að hér á landi. Deilan snerist um það hvort heimilt væri að nota þá fjármuni til eignaumsýslu í þágu þeirrar starfsemi eða aðeins til framlaga eins og boðað var.
    Ég vil minna á það að mjög stór fjársvikamál hafa komið upp á Norðurlöndum tengd opinberum söfnunum. Ég held að ekki sé ráð nema í tíma sé tekið að koma þessu í fastara form.